Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Side 75
„ … h v e Í s l a n d s a u ð n e r s t ó r“
TMM 2013 · 3 75
Hughrifin eru handan allra marka mannlegrar skynsemi, þau eru á öðru
sviði. Yfirþyrmandi máttur vatnsins, kraftur þessarar voldugu höfuðskepnu
smýgur inn í sálina, flekarnir sem þeytast fram af klettabrúninni og springa
og sundrast í fallinu, koma róti á tilfinningar þess sem verður vitni að þessu
vitlausa og tilgangslausa sjónarspili. Og það er einmitt lóðið: þessi tryllingur
er með öllu vit- og tilgangslaus. Hann þjónar sem slíkur engum hagnýtum
tilgangi, – í þúsundir ára þeytist vatnið með tryllingi fram af bjargbrúninni,
án þess að þetta hamsleysi hafi nokkurn skiljanlegan tilgang.
***
Dettifoss, hinn ókrýndi konungur íslenskra fossa, blés á sínum tíma þremur
merkum skáldum kvæði í brjóst.
Ungur vinnumaður á Hólsfjöllum, Kristján Jónsson, kom að foss-
inum skömmu eftir miðja 19du öld og orti um hann kvæði, sem birtist í
Reykjavíkurblaðinu Íslendingi í október 1861.
Kvæðið vakti mikla hrifningu lesenda sem vildu ekki aðeins vita, hver
ljóðasmiðurinn væri, heldur líka hver fossinn væri sem hefði blásið skáldinu
þennan tilkomumikla kveðskap í brjóst.
Á þessum tíma var fossinn í auðninni nánast óþekktur, enda ekki jafn
aðgengilegur og hann er á okkar tímum.
Þar sem aldrei á grjóti gráu
gullin mót sólu hlæja blóm
og ginnhvítar öldur gljúfrin háu
grimmefldum nísta heljarklóm
kveður þú foss, minn forni vinur
með fimbulrómi sí og æ.
Undir þér bergið sterka stynur
sem strá í nætur kuldablæ.
Skáldið finnur til samkenndar með fossinum sem fellur fram af bjarg-
brúninni og kveður með sínum fimbulrómi sí og æ; hljómfall fossins er
kveðandi sjálfrar náttúrunnar sem blæs skáldinu kvæði í brjóst. Fossinn
kveður um kappa sem eitt sinn riðu um grundir en eru löngu fallnir í valinn.
Kveður þú ljóð um hali horfna
Og hetjulíf á fyrri öld.
Talar þú margt um frelsið forna
og frægðarinnar dapra kvöld.
Fossniðurinn vekur hjá skáldinu hugrenningar um fornar hetjur og frelsið
sem ríkti í heimalandi þess til forna, þess tíma þegar menn báru höfuðið hátt
og voru sjálfum sér ráðandi í frjálsu landi.
Með hrynjandi sinni vekur fossinn skáldið líka til umhugsunar um fall-