Tímarit Máls og menningar - 01.04.2019, Blaðsíða 25
H v e n æ r e r e i t t H va ð ó g n v e k J a n d i ?
25
Björn Halldórsson
Hvenær er eitthvað
ógnvekjandi?
Um skáldsögur iains reid
„Ef þú tekur burt þín fyrstu, einlægu viðbrögð við lestri – unaðinn, spennuna
eða bara notalegheitin sem innifalin eru í því að hlýða á sögu – og reynir
í staðinn að einbeita þér umsvifalaust að merkingu eða „skilaboðum“
sögunnar, þá getur þú alveg eins gefist upp strax
því slíkt skilur ekki eftir neitt svigrúm fyrir leik.“1
Þannig lýsir kanadíska skáldkonan Margaret
Atwood lesvenjum sínum, sem hún tamdi sér
ung að aldri með því að lesa kanónubókmenntir
jafnt sem reyfara og teiknimyndasögur án þess
að gera greinarmun þar á milli. Tilvitnunina er
að finna í fyrsta kafla bókarinnar Survival: A
Thematic Guide to Canadian Literature, þar sem
Atwood veltir fyrir sér leit kanadískra bókmennta
að þjóðarsál sem getur talað til þeirra mörgu
þjóðarbrota sem hrærast í þessu víðfeðma landi. Þegar bókin kom fyrst út,
árið 1972, taldi hún að slíkt bókmenntalegt sameiningarafl væri enn ófundið
í Kanada en bendir jafnframt á að sjálf hafi hún notið góðs af því að sækja sér
innblástur vítt og breitt án þess að hafa fyrirfram mótaðar hugmyndir um
hvað teldist til „kanadískra bókmennta“.
Undanfarin þrjú ár hefur rithöfundurinn Iain Reid, samlandi Atwood,
hlotið mikið lof fyrir skáldsögur sínar. Þær hafa verið þýddar á fjölda tungu
mála og hefur Reid verið hampað sem næsta stóra nafninu í kanadískum
bókmenntum á alþjóðlegum vettvangi.2 Þrátt fyrir þessa skyndilegu vel
gengni á sviði skáldskapar hefur Reid lengi verið iðinn við kolann á öðrum
ritvöllum. Hann vann sem pistlahöfundur hjá kanadíska dagblaðinu The
National Post og hefur gefið út tvær gamansamar endurminningar um sínar
persónulegu tilvistarkreppur og um samskipti sín við fjölskyldu sína.3 Það
kvað hinsvegar við annan og drungalegri tón í fyrstu skáldsögu hans, Ég
er að spá í að slútta þessu (e. I‘m Thinking of Ending Things), sem kom út
árið 2016, þegar Reid var 36 ára gamall. Haustið 2018 var þeirri bók síðan