Tímarit Máls og menningar - 01.04.2019, Blaðsíða 51
a F B r a g ð a n n a r r a k v e n n a
51
Soffía Auður Birgisdóttir
Afbragð annarra kvenna
Um þríleik vilborgar davíðsdóttur um auði djúpúðgu
Haustið 2017 kom út skáldsagan Blóðug jörð eftir Vilborgu Davíðsdóttur
og mun vera lokabindið í þríleik hennar um Auði djúpúðgu Ketilsdóttur
(sem einnig er nefnd Unnur í miðaldaritum). Áður höfðu komið út í þessum
sagnaflokki bækurnar Auður (2009) og Vígroði (2012). Reyndar er ekki loku
fyrir það skotið að Vilborg haldi áfram að segja sögu Auðar, síðustu bókinni
lýkur ári eftir að hún hefur numið land á Íslandi og hið sögulega efni sem
hér er unnið með því hreint ekki þrotið. Þessi 800 síðna sagnabálkur um
fyrstu landsnámskonu Íslands er merkilegt verk í sögu íslenskra bókmennta
og hefur hlotið afar góðar viðtökur. Af því tilefni verður hér á eftir rýnt í
bækurnar þrjár, skoðað hvað einkennir þær og hvernig mynd þær draga upp
af forfeðrum og formæðrum okkar Íslendinga, en fyrst verður stiklað á stóru
um fyrri skáldsögur höfundarins og frásagnaraðferð.
Sögulegar skáldsögur
Höfundarferill Vilborgar Davíðsdóttur spannar nú rúman aldarfjórðung.
Þegar þetta er skrifað hefur hún sent frá sér átta skáldsögur auk sann
sögunnar Ástin, drekinn og dauðinn (2015). Fyrstu skáldsögur Vilborgar
voru gjarnan flokkaðar sem unglingabækur (væru ef til vill kallaðar ung
mennabækur í dag) þótt jafnframt hafi verið bent á „hversu erfitt það getur
verið að flokka bækur eftir því til hvaða aldurs þær eigi að höfða“ því „góð
bók eigi að höfða til allra aldurshópa“.1 Vilborg skrifar bækur sínar þó ekki
sérstaklega með ungmenni í huga, þótt viðtökurnar hafi stýrt sumum þeirra
í þá átt.
Allar skáldsögur Vilborgar gerast fyrr á öldum, fyrstu tvær – Við Urðar-
brunn og Nornadómur á víkingaöld, líkt og þríleikurinn um Auði djúpúðgu,
en þær þrjár sem hún sendi frá sér þar á milli – Eldfórnin, Galdur og
Hrafninn – gerast á 14. og 15. öld. Skáldsögur hennar má því skilgreina sem
sögulegar skáldsögur en vert að taka fram að ekki er alltaf byggt á sögulegum
persónum þótt tilvera persóna sé spunnin inn í sögulegan tíma.
Allt frá sautjándu öld hefur sögulega skáldsagan verið með vinsælustu
bókmenntagreinum, enda fortíðin forvitnileg land fyrir þá sem síðar koma.