Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Page 27
Bragi Ólafsson
Foreldrar Bunuels
- inngangur í aðra sögu -
1
Fyrir einni og hálfri viku hringdi vinkona mín Ásta í mig til
að bjóða mér í veislu. Ég hafði ekki heyrt í henni í tæpt ár, og
það kom mér svolítið á óvart að sú þögn væri rofin með heilu
boði á laugardagskvöldi. Hún bað mig líka að spyrja Aðalstein,
vin minn, hvort hún mætti ekki bjóða honum, hún hefði nefni-
lega nýlega kynnst ungri konu, Sesselju, sem hefði orðið mjög
áhugasöm þegar hún vissi að Ásta kannaðist við Aðalstein, og
þessi Sesselja yrði í boðinu hjá sér þarnæsta laugardag; það væri
ekki vitlaust - eins og ég reyndar samþykkti sjálfur - að hún og
Aðalsteinn hittust, það væri kominn tími til að hann kynntist
einhverri almennilegri manneskju af öðru kyni en hann sjálfur
- og ég var líka fullkomlega sammála því. Þannig að ég hringdi í
Aðalstein og spurði hvort Ásta mætti ekki bjóða honum í veislu
til sín þarnæsta laugardag.
„Hvort hún mætti?“ spurði Aðalsteinn.
„Hún vill endilega að þú komir í boðið til sín,“ svaraði ég. „Þar-
næsta laugardag. Eftir tíu daga. Hana langar til að kynna þig fyrir
vinkonu sinni, konu sem langaði til að kynnast þér.“ Og þegar
Aðalsteinn svaraði með því að þegja, bætti ég við: „Hún er að biðja
þig að koma. Hún er að bjóða þér.“
„Hvort er hún að biðja mig eða bjóða mér?“
„Bjóða þér. Eða kannski er hún að biðja þig; ég veit ekki hvort
hljómar betur fyrir þér.“
„Til þess að hitta þessa vinkonu hennar?“
„Hún vildi bara bjóða þér heim til sín. Eins og hún er að bjóða
mér.“
TMM 2005 • 4
25