Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Blaðsíða 60
Una Margrét Jónsdóttir
í þessum texta má náttúrlega finna greinilega kvenfyrirlitningu. Hins
vegar kemur ofbeldi sjaldan fyrir í klámtextum sem ég hef fundið meðal
barna, yfirleitt er ekki hægt annað að skilja en að kynlífið fari fram með
vilja beggja. Undantekning er miðgerðin á „séra-séra“ þar sem gefið er í
skyn að karlmaðurinn nauðgi stúlkunni sofandi. Eina aðra undantekn-
ingu veit ég um, en hana lærði ég sjálf 12 ára gömul, reyndar án þess
að ætla mér það. Þetta kvæði birtist í söngbók skólans sem ég var þá í,
(árið 1978) og ljóst er að kennararnir hafa ekki fylgst vel með efninu í
söngbókinni og því síður skólastjórinn sem hefði aldrei leyft að svona
texti væri birtur þar.
Það gerðist hér suður með sjó
að stúlkan fékk meira en nóg,
en strákurinn var glúrinn,
hann trúði ekki á túrinn
og tók hana á „notime“ og hló.
Skólinn var gagnfræðaskóli og nemendurnir á aldrinum 12 - 15 ára. Það
er athyglisvert að ritnefndin sem sá um söngbókina var að mestu eða ein-
göngu skipuð stúlkum. Gerðu þær sér ekki grein fyrir því að kvæðið hafði
þann boðskap að nauðgun væri fyndin? Eða fannst þeim það allt í lagi?
Sjálf var ég svo mikið barn að ég skildi ekki vísuna og velti því fyrir
mér hvað í ósköpunum þetta „no-ti-me“ væri. Samt geðjaðist mér ekki
að kvæðinu, ég hafði á tilfinningunni að það fjallaði um ofbeldi.
Það má teljast öruggt að þetta hefur fullorðinn maður ort því að
kvæðið er í limruformi og nokkurn veginn rétt stuðlað. Ég veit ekki til
þess að þetta kvæði þekkist hjá börnum nútímans, og lítil eftirsjá er í því
ef það er horfið.
Annað kvæði, í allt öðrum anda og mun sakleysislegra, lærði ég 10-11
ára gömul af aðeins eldri stúlkum í barnaskólanum mínum. Þetta kvæði
gæti verið nokkuð gamalt og er kímin lýsing á því hvernig saklaus sveita-
stúlka breytist í ... eitthvað annað. Ég læt lagið fylgja með.
Áður fyrr að vakna klukkan átta.
Gott og vel, að vakna klukkan átta.
Nú fer ég á sama tíma að hátta.
Gott og vel, það gerir ekkert til.
Áður fyrr á ullarbrókum einum.
Gott og vel, á ullarbrókum einum.
Núna geng ég næstum ekki í neinum.
Gott og vel, það gerir ekkert til.
Áður fyrr með strákunum í sláttinn.
Gott og vel, með strákunum í sláttinn.
Nú fer ég með strákunum í háttinn.
Gott og vel, það gerir ekkert til.
Áður fyrr með ærnar út í haga.
Gott og vel, með ærnar út í haga.
Nú geng ég með tvíbura í maga.
Gott og vel, það gerir ekkert til.
58
TMM 2005 • 4