Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Blaðsíða 109
Bókmenntir
gesti ber reyndar að garði en þeir hverfa fljótt úr sögunni. Ljóst er að Rafael
styttir líf sumra, aðrir gufa upp og lesendur (sem sjá atburðina frá sjónarhorni
Billiear) grunar að þeir hafi kannski líka verið skotnir. Athyglisvert er að gest-
irnir eru oftar en ekki fulltrúar einhvers konar valds. Sá fyrsti er hermaður
eins og Rafael. Hann hverfur. Sama er að segja um þriðja gestinn, nunnu sem
er fulltrúi geistlegs valds og kallar sig friðarsinna. Hún hverfur líka sporlaust.
Rafael margsver reyndar að hann hafi ekki drepið hana en ekkert fer á milli
mála hvernig fer um gestina í miðjunni sem eru frá skattayfirvöldum, fulltrú-
ar peningavaldsins. Rafael býður þeim inn og skýtur þá svo. Valdið sem þeir
tengjast verður að engu andspænis valdi byssunnar sem er sjálfgefið í heimi
stríðsins. Rafael réttlætir drápið á mönnunum frá skattinum á þennan veg:
„Mig langaði ekki til að drepa þessa menn,“ sagði hann og horfði á pensilinn
teygja úr rauða litnum á blaðinu með rólegri ýtni. „Það er stríð og ég neyðist til að
taka þátt í því. Að sjálfsögðu hefðu þeir drepið mig hefði ég ekki drepið þá og hvað
hefði þá orðið um stúlkuna mína?“ (94)
„Að sjálfsögðu" segir hann. Og svo bendir hann Billie óbeint á valdalausa stöðu
hennar, minnir á að hún sé háð honum og lætur eins og hann heyri ekki þegar
hún svarar með orðunum: „Ég er kannski stúlka en ég er ekki þín.“ Rafael held-
ur einfaldlega áfram að útlista hversu góður hugur hafi búið að baki verknað-
inum og aðferðinni, hann hafi boðið mönnunum inn og lokað svo að Billie og
dýrin „þyrftu ekki“ að horfa upp á blóðsúthellingar. Og þetta hafi hann bein-
línis orðið að gera til að geta haldið áfram að gæta Billiear. Þvílíkt gæðablóð.
Hugrenningatengsl kvikna auðveldlega við ýmsa aðra stríðsmenn sem tala eins
og voðaverk séu í raun framin af manngæsku og umhyggjusemi.
Sagan vekur spurningar um alls konar vald, m.a. vald fólks, ekki síst barna, á
eigin lífi, og hvort fólk ræður eigin hlutverki sjálft eða lýtur vilja annarra. Billie
er t.d. ekki sátt við að Rafael kalli hana litla stúlku í byrjun, hún vill frekar láta
kalla sig litla konu í eitt skiptið, stóra stelpu í annað (19-20, 28). Hún reynir að
skilgreina sig sjálf en kemst samt ekki hjá því að aðrir skipi henni í hlutverk,
t.d. hefur mamma hennar þjálfað hana í „að tala frúarlega við ókunnuga" (12),
í hænsnakofanum er hún viss um að hænunum þyki hún vera kelling, sam-
kvæmt Rafael er hún prinsessa nokkrum línum seinna (93). Víðari skírskotun
hlutverkaleiksins birtist m.a. í talinu um Abraham sem strengjabrúðu og ekki
síður barbíleiknum sem bókinni lýkur á.
En það eru ekki bara stórar spurningar sem tengjast stríði og valdi sem
kvikna við lestur bókarinnar heldur ekki síður spurningar um hversdagsleik-
ann. Billie virðist ekki láta innrásina trufla sig við að íhuga hversdagsleg smá-
atriði eins og hvernig er að hanga í þakrennu, og hún ákveður hvernig hún ætli
að segja söguna af því ef hún verður spurð (83, 90). En kannski er það einmitt
út af stríðinu sem hún finnur sig knúna til að íhuga svona hversdagslega hluti
- kannski reynir hún að leggja veruleikann á minnið af þeirri ástæðu að þrátt
fyrir ungan aldur veit hún af eigin raun að tilveran getur breyst eins og hendi
sé veifað. Foreldrarnir eru horfnir og fólkið á barnaheimilinu er tvímælalaust
TMM 2005 • 4
107