Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Síða 49
Guðmundur Andri Thorsson
Thor
Ég heyrði einu sinni að jakki úr gallaefni væri af ungu fólki í Reykjavík
kallaður „thor“ vegna þess að Thor Vilhjálmsson er þekktur fyrir að
ganga alltaf í þessari einkennisflík amerískrar kúrekamenningar. Þetta
segir sína sögu um hann; af stærilæti rómantíkersins hefur hann helgað
sér sjálfa táknflík fjöldamenningar og rokktónlistar og gert hana ein-
stæða, umvafið hana áru listaverksins.
Því að Thor er Skáldið.
Okkur íslendingum er tamt að líta svo á að það sé ekki starf að vera
skáld heldur ástand, ekki val heldur hlutskipti. Enginn veit hvað veldur:
kannski velþóknun Óðins, kannski vanþóknun annarra guða - kannski
litningagalli: sumir hafa mislit augu, sumir eru skáld.
Skáldið nýtur virðingar á íslandi af því að skáldið hefur vald á Orð-
inu. Skáldið greinir ljósið frá myrkrinu, greiðir ástinni för, blíðkar Guð.
Skáldið færir veruleikann í orð og gerir orðið að veruleika: Þegar orðun-
um er rétt niðurkomið kviknar galdur: eitthvað tengist og vaknar. Þau
sem kunna þá list að láta orðin ljóma - eru skáld.
Til er það fólk sem finnst Thor of kröfuharður, of langorður, of mikill
- en ég hef á tilfinningunni að flestir telji samt sem áður að Thor láti
orðin ljóma. Það gildir einu þótt hann hafi einkum einbeitt sér að ritun
skáldsagna - hann er Skáldið og hann lætur orðin ljóma. Gallajakkinn
„thor“, rúllukragapeysurnar og sjómannabolirnir, gleraugun sem hanga
um hálsinn á honum samanflækt við pennana, skeggið, handaburður-
inn og hárið með ljóð í hverjum lokk hafa vissulega sitt að segja um
það að hann er Skáldið í vitund almennings - áran sem streymir frá
honum og umlykur hann - en samt eru það frekar öll vængjuðu orðin
sem fljúga út úr honum þegar hann fer að tala, svo að rýmið fyllist af
flögrandi og litríkum fuglum; það er spennan sem myndast þegar hann
er spurður að einhverju og hann fer að tala - og talar og talar en virðist
samt aldrei ætla að koma sér að því að svara upphaflegu spurningunni,
TMM 2005 ■ 4
47