Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Page 72
Olga Markelova
Megas - gamall og nýr
í þessari grein verður fjallað um samspil gamallar og nýrrar hefðar í kveð-
skap rokkskáldsins Megasar, bæði í innihaldi og formi. Notkun hefðar-
innar, innlendrar og erlendrar, í textum hans er mikil; til að sannfærast
um það er nóg að skoða lagatitla á hvaða plötu hans sem er. Á þeirri
fyrstu, sem kom út 1972, vísar t.d. titillinn „Dauði Snorra Sturlusonar“
til atburðar í íslandssögunni, „Ófelía“ vísar til leikrits Shakespeares,
„Heilræðavísur" tengjast kveðskap Hallgríms Péturssonar o.s.frv. En
tengslin eru stundum ólíkindaleg. T.d. virðist textinn sem ber heitið
„Litla stúlkan með eldspýturnar", eins og þekkt ævintýri H.C. Ander-
sens, vera saga um hrunið ástarsamband, og í textanum „Skúli fógeti“ er
sagt frá þessari sögulegu persónu eins og það væri bæjarslúður.
Spurningin er þá hvernig skáldið notar hefðina, hvað það fær út úr
henni og hvaða gildi hún fær í textunum. Viðfangsefnið leyfir mér að
skoða allan kveðskap Megasar sem heild án þess að einblína of mikið á
séreinkenni mismunandi tímabila í skáldskap hans.
Hafa ber í huga, að flutningur textanna (útsetning, tónfall söngvarans,
hljóðbrellur sem fylgja flutningi) myndar í flestum tilvikum aukamerk-
ingu sem ekki má horfa framhjá. Textinn lifir einskonar tvöföldu lífi:
annars vegar tengist hann skrifuðum skáldskap, hins vegar munnlegri
hefð, gamalli (rímum, sálmum og annars konar hefðbundnum kveðskap,
t.d. þjóðkvæðum) og nýrri (rokkmenningunni). Á síðustu áratugum
hafa sunginn kveðskapur (einkum svokölluð dægurlög) og skrifaður
skáldskapur ekki verið fyllilega aðskilin fyrirbæri, enda þróast þau hlið
við hlið og renna stundum saman. Hér og síðar í greininni verða hug-
tökin Ijóð/ kvæði og (laga)texti notuð sem samheiti, enda er ekki grund-
vallarmunur á sungnum og skrifuðum texta frá bókmenntafræðilegu
sjónarhorni, sömu rannsóknaraðferðum er beitt á hvort tveggja.
Megas hefur viðurkennt tengsl sín við innlenda ljóðahefð síðari alda
(Hallgrím Pétursson, Halldór Laxness o.fl.). Hjá honum koma þessi
70
TMM 2005 • 4