Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Qupperneq 81
MEGAS - GAMALL OG NÝR
sem „úrelts" (sjá: Skafti Þ. Halldórsson, 1977, 15) má telja undantekn-
ingu. En flutningur textanna er ekki það eina sem heldur kveðskapar-
heimi Megasar saman. í ljóðum sínum notar hann oft vísanir til sinna
eigin kvæða og skrumskælir gamla lagatexta sína.
Á plötuna Á bleikum náttkjólum (1977) setur hann t.d. kímið lag,
„Jón Sívertsen og sjálfstæðisbarningur ísfirskra“. Textinn er byggður á
kvæðinu „Jón Sigurðsson og sjálfstæðisbarátta íslendinga“ á fyrstu plötu
Megasar, en hann er brenglaður og settur inn alls konar fyndinn viðauki:
„.. .um dúntekju réttmætleg gögn öll og gæði/ og góð bílastæði / .../ frítt
fæði“ (Textar; 139). Merkingin gufar vissulega upp úr orðunum; þeim
er breytt og bætt er inn í línurnar vegna hljóms og bragarháttar. Orðin
„íslendingar“, „íslenskur“ víkja alls staðar fyrir orðunum „ísfirskur“, sjálf-
stæðisbaráttan er gerð enn staðbundnari með tilvísun til uppruna Jóns
Sigurðssonar og „sjálfstæðisbarátta“ verður „sjálfstæðisbaslið“. Stundum
býr skáldið til ný merkingarlaus orð, t.d. „geimréttarhagfræði“, „harð-
plastmódelkoppur". Þetta vísar til nonsense-ljóða breskra höfunda, eins-
og Edwards Lear og Lewis Carroll, sem Megas tileinkaði sér á unga aldri
að eigin sögn (Geir Svansson og Hjálmar Sveinsson, 2001). Útúrsnúning-
urinn fylgir frumtextanum nákvæmlega nema í þriðja erindi þar sem
textinn er gjörbreyttur. Þar er um að ræða baráttu fyrir „bjórneyslu og
innflutningsfrelsi“ í staðinn fyrir tungumálið og landið (líklega brýnasta
baráttumálið á þeim árum þegar bjór var ekki seldur í Ríkinu!). En það
fyrsta sem lesendum/hlustendum dettur í hug í sambandi við þetta Ijóð
er gamli textinn hans Megasar en ekki sjálfstæðisbarátta íslendinga gegn
Danaveldi sem slík. „Jón Sívertsen“ er skilinn sem framhald eða endurút-
gáfa á þessum texta. Málið snýst ekki um það hvort sjálfstæðisbaráttan
hafi tekist, einsog í frumkvæðinu, heldur hvort það hafi yfirleitt verið
nokkurt vit í henni. Einsog stendur í lokaerindinu verður landið fang-
elsi, þótt það sé „bólstrað og rósmynstrað og hurðalaust", sama hvort
„sjálfstæðisbaslið“ fyrir frelsi til allskonar óþarfra hluta heldur áfram eða
ekki. Nafnið „Jón Sigurðsson“ í ljóðinu þýðir alls ekki neitt - það er bara
eitthvert frægt nafn, svo það er engin furða þó að það brenglist og verði
„Sívertsen“. Það er ekki hægt að skilja og túlka ljóðið á réttan hátt nema
maður hafi alltaf fyrra kvæði Megasar um Jón Sigurðsson í huga.
„Heilræðavísur þriðja og síðasta sinni“ (sama, 209) er ennfremur
eðlilegt framhald af fyrri heilræðavísum Megasar og skopstæling á þeim.
Heilræðavísum er ætlað að veita áhyggjufullum einstaklingi huggun og
lausn vandamála. Vísurnar eru allar byggðar upp eftir sama munstrinu:
vandamálaþula í erindunum, lausn vandamálanna í stefunum og e.t.v.
lýsing sælu í hugsanlegu „himnaríki“ að lokum. Þriðju heilræðavísurnar
TMM 2005 ■ 4
79