Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Side 95
Menningarvettvangurinn
Bókaflóð
Manni varð eiginlega hálfbumbult við að lesa yfirlit yfir jólabækurnar í Les-
bókinni 8. október þar sem töfraorðin „glæpasaga“ og „spennusaga" standa á
eftir öðrum hverjum titli. Auðvitað er þetta gamla sagan af fótanuddtækinu: ef
einhver eignast eitthvað spennandi þurfa allir að eignast það - og ef einhverj-
um tekst vel upp þá þurfa allir að prófa líka.
Bækur sem ekki bera þennan stimpil sérstaklega en eru samt spennandi - og
fjalla jafnvel sumar um glæpi - eru þó nokkrar Vil ég einkum minna á bækur
Sjóns, Gyrðis Elíassonar, Jóns Kalmans Stefánssonar, Hallgríms Helgasonar,
Steinunnar Sigurðardóttur, Ólafs Gunnarssonar, Kristjáns Þórðar Hrafnsson-
ar og Jóns Atla Jónassonar. Einnig koma út fáeinar ljóðabækur, og er ein þeirra
þegar komin í fangið á mér þegar þetta er skrifað, Dyr að draumi eftir Þorstein
frá Hamri. Ljóðin eru mörg ljúfsár, eins og ekki kemur lesendum Þorsteins á
óvart, táknin margræð og þó skýr á sinn hátt, eins og í „Hinu máttuga keri“
(10):
I molum
hið máttuga ker.
Við freistum þess, skjálfandi fingrum,
að safna brotunum
saman, grannskoða
allt sem á mætti byggja
líkur varðandi lögun og blæ
þess draums, sem dýrastur er
og hefur það fram yfir sjálfan
hinn heilaga Gral: að liggja
við dyrnar,
reyndar á dreif -
en hjá okkur, hér.
Meðal annarra skálda sem eiga bækur á jólamarkaði eru Þórarinn Eldjárn,
Sölvi Björn Sigurðsson, Kristín Eiríksdóttir, Kristian Guttesen og Kristján
Karlsson. Reyndar hefur Þórarinn þegar gefið út eina ljóðabók þegar þetta er
ritað, sem þó telst ef til vill fremur þýdd en frumsamin. Þetta er endursköpun
hans á Völuspá, einu frægasta kvæði í Norðurálfu, ætluð ungum lesendum. Þar
er margt firnavel gert og til þess fallið að laða börn og unglinga - og jafnvel
fullorðna - að þessu mergjaða listaverki.
Svo ætla Nýhilingar að gefa út hvorki meira né minna en níu ljóðabækur í
vetur undir yfirskriftinni Norrænar bókmenntir, og koma þær fyrstu út um
sama leyti og þetta tímaritshefti eða um miðjan nóvember. Höfundar þeirra
bóka eru Eiríkur Örn Norðdahl, Óttar M. Norðfjörð, Örvar Þóreyjarson
Smárason og Haukur Már Helgason. í seinna hollinu í maí koma svo bækur
TMM 2005 ■ 4
93