Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Síða 99
Bókmenntir
Vetrarmegn skiptist í sjö hluta mislanga, þannig eru sá fyrsti og þriðji eitt
ljóð hvor en aðrir frá fjórum upp í fimmtán ljóð. Stíllinn er einnig misjafn,
stundum hátimbraður stuðlum en einnig má sjá opin Ijóð líkt og Jóhann hefur
fyrr sent frá sér og prósaljóð í lokakaflanum. Það er mikið ort um ferðalög og
í löngu ljóði þriðja hluta er nefnist „Ferð“ er fjallað um þá heima er skáldin
sækja í (bls. 23-4):
Ég stefndi á nýjan og nýjan áfangastað,
alltaf ókunnan,
og vaknaði síðan hér
á venjulegum morgni,
á raunverulegum degi.
Ferðaðist
frá víti til vítis,
sá Dante, sá Virgil,
ekki alveg gleymd skáld,
en enga stjörnu,
ekkert ljós sem sundraði rökkrinu.
Rökkurstemmingar eru vissulega nokkrar en engan veginn yfirþyrmandi. Og
í ljóðum eins og „Frábært" og prósaljóðunum „Sankti Pétursborg“ og „Drop-
inn“ tekst Jóhanni ágætlega upp í hæðni, ekki síst í því fyrstnefnda sem lýkur
þannig (32):
Frábært að una sér vel heima
og hafa ekkert að gera.
Frábært er að hafa ort ljóð
sem verður að minnsta kosti ódauðlegt.
Frábært að láta tilbrigðin
verða alltaf sem ný!
Og gegnt „Frábært" er stutt ljóð, „Segl“, er vísar til þekktra kvenna og kunnra
ferðalaga:
Við látum nótt sem nemur.
Vindum upp segl
þegar okkur verður hugsað
til Násíku og Kirku.
Komum svo heim til Penelópu.
Og ekki er síðra „Skarfurinn á Andakletti (hellissandur, haustmynd)“ (60).
Þannig má fletta þessari bók og tína fram hvert ljóðið af öðru, að því leyti er
þetta ein besta bók Jóhanns, ljóðið sem tókst upp af götu þinni olli þér sjaldnast
vonbrigðum, til að mynda „Rómur“ (38).
TMM 2005 • 4
97