Litli Bergþór - des. 2018, Blaðsíða 40
40 Litli-Bergþór
voru kannski í fyrsta sinni fjarri foreldrum sínum
og ekki mikið fyrir sveitalífið. Ég vil sérstaklega
taka fram að aldrei kom fyrir neitt slys meðan ég
var í Bræðratungu enda reyndi Valgerður mamma
þín að brýna fyrir okkur að fara okkur ekki að
voða. Það var ekki að ástæðulausu því hætturnar
voru margar.
Þú spyrð að því hvað unga kynslóðin geti lært
af þessu. Eins og við höfum talað um þá voru
starfshættir og lífsviðhorf fólks allt öðruvís
en nú er og eru þó ekki nema rúm 60 ár síðan.
Skólatíminn var miðaður við það að krakkarnir
gætu tekið þátt í sveitastörfunum og þjóðfélagið
ræktaði þetta hjá fólki; að það ætti að vinna. Nú
er það orðið svo að það er nánast lögbrot að láta
barn vinna áður en það verður 17 ára gamalt. Það
er verið að færa fólk svo langt frá lífsbaráttunni
og því hvaða ábyrgð hver og einn hefur á sjálfum
sér og öðrum. Mér finnst það ekki rétt og mér
finnst að börn og unglingar eigi að taka meiri þátt
í atvinnulífinu. Þau kynnast þá líka fleiru en bara
þröngri fjölskyldu sinni. Ég held að það sé partur
af því sem þroskar fólk að kynnast lífinu á sem
fjölbreyttastan hátt. Svo lærir það að taka ábyrgð
á lífi sínu og gjörðum og í því er fólginn mesti
lærdómurinn hvað sem allri skólaspeki líður.
Nokkur orð um viðmælandann
Magnús Gunnarsson.
Það var með nokkurri eftirvæntingu að ég
sem barn að aldri átti von á sumbörnum frá
Reykjavík heim til okkar í Bræðratungu. Það var
ef til vill vegna þess að ég átti enga leikfélaga í
Tunguhverfinu og svo fluttu sumarbörnin með sér
ferskan andblæ. Yfirleitt voru 4 – 5 sumarbörn
hjá foreldrum mínum enda gátu ekki fleiri verið
vegna plássleysis, bæði við matarborðið og annars
staðar. Einu sinni taldi ég 12 – 13 við matarboðið
og hefur það verið mikið verk fyrir móður mína
að elda ofaní mannskapinn og koma öllum fyrir.
Magnús Gunnarsson, sem hér segir frá þessum
eftirminnilegu árum, var ekki skyldur foreldrum
mínum né tengdur. Vinkona móðir hans hafði
verið á Torfastöðum og kom þessu í kring.
Það er skemmst frá því að segja að Maggi
vann brátt hug og hjörtu allra vegna glaðlyndis
síns og dugnaðar. Hann var í mörg sumur hjá
foreldrum mínum. Fljótlega kom frændi hans
Kristján Jóhannsson til okkar og kom sér jafn vel
og frændi hans þótt þeir væru ekki beinlínis líkir.
Síðan var Lína systir Magga tvö sumur í Ásakoti
og nokkur sumur í Bræðratungu og Kristín systir
þeirra var eitt sumar hjá Svenna og Siggu, en þá
var ég farinn að heiman.
Magnús fór í Verslunarskólann og Háskóla
Íslands. Gladdist ég mjög yfir því hvað hann
var vinsæll, bæði af kennurum og félögum og
kom mér það reyndar ekki á óvart. Eftir nám
var hann eftirsóttur til þess að veita félögum og
samtökum forystu og var t.d. framkvæmdstjóri
Vinnuveitendasambandsins um skeið og einnig
SÍF, Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda.
Síðastliðin 20 ár hefur hann rekið eigið fyrirtæki
sem fæst við ráðgjöf og fjárhagsleg málefni.
Hann er kvæntur Gunnhildi Gunnarsdóttur og
eiga þau tvö börn.
Frásögn hans af sveitalífinu í Tunguhverfinu
fyrir 60 árum er mjög upplýsandi fyrir þennan
tíma og mér þykir vænt um að Litli-Bergþór skuli
óska eftir að fá hana til birtingar.
Páll Skúlason frá Bræðratungu.
Ketilbjörn ehf.
Vinnuvélaverktaki
Syðri – Reykjum
Grímur Þór - Sími 892 3444
Gleðileg jól