Bændablaðið - 11.08.2016, Blaðsíða 12
12 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. ágúst 2016
Fréttir
Verslunin Bændur í bænum
gengur í endurnýjun lífdaga
Bændamarkaðurinn Bændur í
bænum í Nethyl hefur gengið í
endurnýjun lífdaga. Opnunarhátíð
var 16. júní eftir endurbætur á
versluninni, en það eru hjónin
Þórður Halldórsson og Karólína
Gunnarsdóttir, bændur á Akri í
Laugarási, sonur þeirra, Gunnar
Örn Þórðarson, og hans kona,
Linda Viðarsdóttir, sem standa
að rekstrinum.
Bændur í bænum bjóða upp á inn-
fluttar og innlendar lífrænar vörur,
auk þess sem þar er rekin netverslun
undir heitinu „Grænmeti í áskrift“.
Við sögðum frá því í júnílok að til
stæði að auka við þá þjónustu í júlí
og bjóða upp á heimsendingarþjón-
ustu. Að sögn Þórðar hefur ekki
ennþá tekist að koma þeirri þjón-
ustu í gagnið vegna tæknilegra örð-
ugleika, en hann bindur vonir við að
þau mál leysist innan tíðar.
Heimsent innan 90 mínútna
Þegar hin tæknilegu vandkvæði
leysast er gert ráð fyrir að netversl-
unin breytist í dagvöruverslun.
Sem stendur er boðið upp á viku-
legar sendingar þar sem vörurnar
eru afhentar á miðvikudögum og
fimmtudögum. Eftir breytingarnar
getur fólk pantað í gegnum vefinn
http://www. baenduribaenum.is/
og fengið heimsent upp að dyrum
innan 90 mínútna, eða eftir nánara
samkomulagi. Einnig getur fólk á
landsbyggðinni fengið sent daginn
eftir að pöntun er send inn. /smh
Bændamarkaðurinn Ljómalind í Borgarnesi:
Dafnar vel við Brúartorg
Bændamarkaðurinn Ljómalind
var stofnaður í maí 2013 og
var staðsettur fyrstu tvö árin
að Sólbakka, rétt norðan
við Borgarnes. Í maí í fyrra
flutti hann inn í Borgarnes að
Brúartorgi 4.
Sigurbjörg Kristmundsdóttir,
verslunarstjóri Ljómalindar, var
nýbúin að opna markaðinn þegar
blaðamaður átti leið um Borgarnes
rétt fyrir verslunarmannahelgi.
Ljómalind dafnar betur
á nýjum stað
Hún segir að verslunin dafni betur
eftir flutningana í fyrravor – enda
sé Brúartorg í alfaraleið ferðamanna
og bændamarkaðurinn vel sýnileg-
ur frá Hyrnunni, þjónustustöð N1,
handan götunnar.
„Við njótum góðs af umferðinni
sem fer þarna um og margir erlendir
ferðamenn hafa áhuga á að kaupa
íslenskar búvörur frá markaði eins
og þessum. Mest kaupa þeir af
handverki, en stöku sultukrukk-
ur og þess háttar fylgja oft með.
Flestir viðskiptavina okkar eru auð-
vitað Íslendingar og margir þeirra
eru fastakúnnar sem ganga hér að
ákveðnum gæðum. Við fáum til
að mynda ferskar kjötsendingar
frá bæjum hér af Mýrunum og
Borgarfirðinum á miðvikudags-
kvöldum – og eru þá tilbúnar hér
í kælum fyrir helgarinnkaupin. Þá
erum við alltaf með ferskt grænmeti
á sumrin,“ segir Sigurbjörg.
Matsnefnd tryggir gæðin
Bændamarkaðurinn Ljómalind
var stofnaður af 12 kvenna hópi
af Vesturlandi. Markmið hópsins
var að halda úti bændamarkaði þar
sem hægt væri að koma á fram-
færi vörum úr héraðinu. Hópurinn
fór í samstarf við Samtök sveitar-
félaga á Vesturlandi, Kaupfélag
Borgfirðinga og Vaxtarsamning
Vesturlands – og afrakstur þessa
samstarfs leiddi til stofnunar
Ljómalindar.
Nú standa 15 konur að rekstrin-
um og er fyrirkomulagið á þá leið
að þær skipta með sér vinnu í versl-
uninni, auk þess að leggja til vörur
inn á markaðinn.
Um 40 aðrir aðilar af Vesturlandi
leggja aukinheldur vörur inn á
markaðinn þar sem þær eru seldar
í umboðssölu.
Sérstök matsnefnd sér um að velja
inn vörur og þurfa allar vörur sem
eru seldar í markaðnum að fá sam-
þykki matsnefndarinnar þannig að
gæðin séu tryggð. Eingöngu vörur
af Vesturlandi eru í boði. /smh
Sigurbjörg Kristmundsdóttir tók við sem verslunarstjóri Ljómalindar í apríl síðastliðnum. Myndir / smh
Sigurbjörg við kjötkælinn sem var fullur af fersku nautakjöti frá Mýrunum
Sultur og olíur.
Kryddjurtir og grænmeti um sumarið.
Lopapeysur í öllum gerðum.
Mikið úrval er af alls kyns handverki í Ljómalind.
Vænn hópur bænda og sjálfboðaliða lagði hönd á plóg við réttarsmíðina. Mynd / Frímann Kristjánsson
Ný Gljúfurárrétt í smíðum
Um síðustu helgi var myndar-
legur hópur við smíðar á nýrri
Gljúfurárrétt.
Réttin sú er í Grýtubakkahreppi
en þar eru um 3.600 kindur á
fóðrum. Fjárbændur á svæðinu
og sjálfboðaliðar sinna verkinu.
Guðmundur Björnsson, bóndi í
Fagrabæ, er verkstjóri en hreppur-
inn stendur að framkvæmdinni.
Kostnaðaráætlun hljóðar upp á 12
milljónir króna. Stefnt er að því að
vígja nýja Gljúfurárrétt aðra helgi í
september. Mynd / Ásta F. Flosadóttir
Þórður Halldórsson (til hægri) er hér ásamt viðskiptavinum. Mynd / smh