Bændablaðið - 11.08.2016, Blaðsíða 32
32 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. ágúst 2016
Bændur höfðu kvarnarsmíði sem aukabúgrein á vetrum:
Kvarnarsteinaframleiðsla á Íslandi
Íslenskir kvarnarsteinar eru
varðveittir víðs vegar á Íslandi,
á Þjóðminjasafni Íslands, á
byggðasöfnum, heima við bæ í
sveitunum og jafnvel í görðum í
þéttbýli. Þegar almennt er rætt
um Skúla Magnússon landfógeta
og Innréttingarnar nýju á 18. öld
eru þéttbýlismyndun í Reykjavík,
ræktunartilraunir, þilskipaútgerð,
framfarir í ullariðnaði og brenni-
steinsvinnsla oft það helsta sem ber
á góma. Þessar framfaratilraunir
Innréttinganna skiluðu misjöfnum
árangri en eitt af því sem fékk byr
undir báða vængi í kjölfar þeirra
var innlend kvarnarsteinafram-
leiðsla.
Endurvakning
kvarnarsteinaframleiðslu
Eftir að kornyrkjutilraunir
Innréttinganna mistókust hrapalega
setti Skúli Magnússon fram þá hug-
mynd árið 1767 að auka innflutn-
ing á ómöluðu korni til Íslands og
að kanna þyrfti möguleika til fram-
leiðslu á kvarnarsteinum í landinu. Í
verkahring Landsnefndarinnar fyrri
var m.a. að meta þessar hugmyndir
landfógeta, hvort arðvænlegt væri
að koma upp handkvörnum, og
þá jafnvel litlum myllum, meðal
almennings. Rannsóknir sýna að
Íslendingar hafa smíðað kvarnir úr
íslenskum steini strax á víkingaöld en
eftir að kornrækt var hætt á miðöldum
hefur slík framleiðsla líklega dottið
upp fyrir um stóran hluta landsins.
Sumarið 1771 senda Finnur Jónsson,
biskup í Skálholti, og Guðmundur
Runólfsson, sýslumaður í Kjósar- og
Gullbringusýslum, Landsnefndinni
skýrslur og minnast þeir m.a. á að
íslenskt grjót sé nýtt í kvarnarsteina
í þeim tilgangi að mala villt korn
(melgresi) í Skaftafellssýslu og malt
á ónefndum stað, líklega á Suður- eða
Suðvesturlandi. Guðmundur bauðst
einnig til þess að senda nefndinni
sýnishorn af grjóti sem hann taldi
að gæti verið nýtanlegt í slíka fram-
leiðslu. Það var þó ekki fyrr en
síðla sumars árið 1775 að stiftamt-
maður, L. A. Thodal, sendi danska
Rentukammerinu í Kaupmannahöfn
sýnishorn af framleiðslunni, m.a. úr
Vestur-Skaftafellssýslu, sem mats-
menn töldu vel nothæfa til að mala
innflutt korn.
Konungsgjöf
Í apríl árið 1776 tilkynnti
Rentukammerið upphaf innflutnings
á ómöluðu korni og handkvörnum
til Íslands. Þessar innfluttu hand-
kvarnir áttu íslenskir embættis-
menn að nota til þess að lokka að
almúgann með góðu fordæmi, um
leið og steinarnir áttu að þjóna sem
fyrirmynd fyrir íslenska framleiðslu.
Fyrsta sendingin af kvarnarstein-
um kom til landsins sumarið 1776
og árið 1777 voru um 115 kvarnir
fluttar inn (líklega frá Noregi), en há
verðlagning Konungsverslunarinnar
1776 tryggði að aðeins mjög vel
stæðir bændur höfðu efni á að
kaupa slíkan grip erlendis frá. Í
apríl 1779 gaf svo danska ríkið 200
kvarnir sem dreift var á allar kaup-
hafnir á Íslandi. Sýslumaðurinn
í Vestur-Skaftafellssýslu, Lýður
Guðmundsson, afþakkaði þó þær
kvarnir sem þeim var úthlutað þar
sem hann taldi þar enga þörf fyrir þær
vegna nægs framboðs á innlendum
kvörnum.
Konungsverðlaun og
kvarnarsmiðir
Til þess að hvetja íslenska bændur og
búalið í framleiðslu á kvarnarsteinum
var verðlaunum heitið fyrir hvert par
og má finna heimildir frá árinu 1781
fram til 1790 um að menn hafi feng-
ið peningaverðlaun, bæði frá Hinu
konunglega danska landbúnaðarfélagi
og úr Mjölbótasjóði. Árið 1783 sam-
þykkti Konungsverslunin síðari að
taka við íslenskri framleiðslu í versl-
unina. Til þess að hvetja bændur var
stungið upp á því að smiðir fengju
flutningskostnað bættan að hluta ofan
á sett verð fyrir kvarnarsteinana sem
skilað var inn. Einnig áttu smiðirnir
að fá verðlaun fyrir hvert par. Í mars
1784 voru verðlaunin njörfuð niður,
16 skildingar fyrir litlar kvarnir, 24
skildinga fyrir stórar. Verðlaunin
skyldu haldast fram í mars 1787. Í
maí 1787 mælti Landsnefndin seinni
með því að verðlaunin héldu áfram
og var tíminn framlengdur fram í
mars 1790. Eftir það var veitingu
verðlauna hætt og aðkomu ríkisins
að íslenskri framleiðslu var lokið.
Safnað hefur verið saman nöfnum
þeirra sem verðlaunin fengu og eru
þeir a.m.k. 38 talsins. Þar má sjá menn
úr öllum landshlutum á aldrinum 25
ára og fram yfir sjötugt á þeim tíma
sem verðlaunin eru veitt. Safnað hefur
verið saman úr heimildum alls um
100 nöfnum manna víðs vegar um
landið sem tengst hafa kvarnarsmíði á
einhvern hátt frá 18. og fram á 20. öld.
Þar má sjá bændur, smiði, hreppstjóra,
presta, leiguliða, flakkara, húskarla og
vinnumenn. Flestir voru þó venjulegir
bændur sem höfðu kvarnarsmíði sem
aukabúgrein á vetrum þegar á þurfti
að halda.
Efnistaka og framleiðsla
Mjög fá örnefni hafa því miður fundist í
tengslum við framleiðslu af þessu tagi
en þó má nefna Kvarnarhlíðarhraun
í Hörglandshreppi, Kvarnarhraun í
Haugafjalli í Skriðdal (skriða) og
Kvarnarhraun í landi Gufuskála á
Snæfellsnesi. Alls hafa fundist heim-
ildir um 45 staði þar sem efni var
tekið í kvarnarsteina víðs vegar um
land en efni var sótt upp í skriður og
fjöll, út á mela, sanda og hraun, niður
í fjöru og jafnvel út í eyjar. Reynt
var helst að leita eftir hraunum og
bergi sem búið var að brjóta upp í
góðar hellur af náttúrunnar hendi. Þá
þurfti ekki að eyða tíma og tólum
í að kljúfa efnið í rétta þykkt. Þar
sem ekki var að finna víðáttumiklar
hraunbreiður á láglendi leituðu smiðir
oft hátt til fjalla og í stórar skriður,
líklega eftir yngra hrauni sem var
minna ummyndað og lítið var um
holufyllingar. Ekkert bendir til þess
að vöntun á þekkingu í steinsmíði eða
áhöldum hafi háð íslenskum bænd-
um. Flestir sem tóku að sér að búa til
kvarnarsteina smíðuðu þá þó aðallega
fyrir sjálfa sig og kannski ættingja og
næstu nágranna. Engin forsenda var
fyrir fjöldaframleiðslu á landsvísu
en framleiðsla Húsafellsbænda á
kvarnarsteinum fyrir Borgarfjörðinn
verður að teljast sú sem kemst því
næst. Lítt unnar grjóthellur úr
blöðróttu og/eða grófu bergi voru
fluttar heim í skemmu eða smiðju að
sumri til á hestum, á sleðum eða jafn-
vel á breiðu baki smiðsins. Á veturna
voru svo smíðaðir kvarnarsteinar úr
hellunum og þeir nýttir heima við,
gefnir eða seldir, annaðhvort til kaup-
manns eða milliliðalaust til kaupanda.
Endurnýting og varðveisla
Framleiðsla íslenskra kvarnarsteina
(bæði handkvarna og seinna einnig
myllusteina) hélst fram yfir 1900 en
notkun þeirra dó loks út um og eftir
1920. Eftir að kornmölun var hætt
voru kvarnarsteinar oft endurnýttir
t.d. sem lóð á saltkjötstunnur og hey-
stæður, sem byggingarefni og jafn-
vel sem dyraþrep. Í dag eru þeir oft
hafðir til skrauts í görðum og jafnvel
innanhúss. Hafa þessir steinar varð-
veist furðuvel í gegnum tíðina og
má finna mörg góð dæmi víðs vegar
um land, bæði á byggðasöfnum og í
einkaeigu. Gerð hefur verið tilraun
til þess að meta hversu margir stein-
ar gætu hafa varðveist í fórum einka-
aðila með því að taka fyrir valda
hreppa hringinn í kring um landið:
Neshrepp utan Ennis á Snæfellsnesi
(8 stk.), Saurbæjarhrepp í
Dalasýslu (6 stk.), Skriðuhrepp
(Hörgárdalur, 7 stk.) á Norðurlandi,
Skriðdalshrepp á Austurlandi (16
stk.) og Leiðvallahrepp (Álftaver,
Skaftártunga, Meðalland, 12 stk.)
á Suðurlandi. Að meðaltali fund-
ust um 10 kvarnarsteinar í hverjum
hreppi en út frá því má gróflega
áætla að um 2.000 kvarnarsteinar
hafi varðveist eins og staðan er í dag
og er mjög líklegt að allt að 70–80%
af þessum fjölda sé framleiðsla
framtakssamra íslenskra bænda.
Sólveig G. Beck
Sólveig G. Beck, doktorsnemi í forn-
leifafræði.
Kvarnarsteinn með upphleyptu krossmarki frá Vindheimum í Tungusveit í
Kvarnahraun efst í Haugahólum undir Haugafjalli í Skriðdal.
Myndir / Sólveig G. Beck
Kvarnarsteinar úr íslensku og norsku grjóti til skrauts í garði á Hellissandi.