Bændablaðið - 18.10.2018, Blaðsíða 8
Bændablaðið | Fimmtudagur 18. október 20188
FRÉTTIR
Lifandi samfélag – samtök um nágrannasamvinnu:
Málþing um nágrannasamfélög
– Þiggja ábendingar um lausar bújarðir undir starfsemina
Lifandi samfélag – samtök um
nágrannasamvinnu í sveit og
borg, stendur fyrir málþingi 3.
nóvember næstkomandi þar sem
ræða á nágrannasamfélög eldri
borgara; bæði hér á Íslandi og um
reynslu Dana af þeim.
Lifandi samfélag hefur þann
tilgang að vera regnhlífarsamtök
sem starfar að mismunandi
valkostum í búsetu fyrir alla
aldurshópa. Félagsskapurinn á rætur
í hugmyndum Árna Gunnarssonar,
fyrrverandi bónda á Reykjum í
Skagafirði, sem hafði áhuga á að
kanna áhuga fólks á sambýlum
eldri borgara til sveita – þar sem
stundaður væri frístundabúskapur
í smáum stíl og eftir atvikum hvað
eina sem aðstæður leyfðu. Öllu væri
stjórnað af íbúum sjálfum.
Lifandi samfélag var formlega
stofnað síðasta vor og tekur núna
til margs konar búsetuforma og
allra aldurshópa – hvort heldur í
þéttbýli eða dreifbýli – en kjarninn
um nágrannasamvinnu er þó enn
hornsteinn hugmyndafræðinnar.
Stjórnmálafólk hvatt til þátttöku
á málþingi
Árni, sem er stjórnarmaður í
samtökunum, segir að stjórn
félagsins telji mikilvægt að þar
sem þessum samtökum sé ætlað að
starfa á landsvísu væri heppilegt ef
sveitarstjórnarfólk af landsbyggðinni
sæi sér fært að mæta á fundinn, ganga
í samtökin og nýta sér þá fræðslu
sem þarna verði í boði. „Jafnframt
væri gott ef allir stjórnmálaflokkar
sendu fulltrúa sína til að kynna sér
fyrirhugaða starfsemi sem muni
að sjálfsögðu verða að einhverju
leyti rekin í sátt og samvinnu við
stjórnsýslu á hverjum tíma. Auk
þess sem í starfsemi af þessum toga
megi án vafa finna lausnir á þeim
vistunarúrræðum sem nú þegar sé
orðið aðkallandi að leysa – eftir
nýlegum fréttum að dæma. Einhverjir
félagsmenn eru þegar byrjaðir að
skima eftir álitlegum stöðum utan
borgarinnar til að geta hafist handa
þegar búið verður að ljúka skipulegum
undirbúningi,“ segir Árni.
Ábendingar um lausar bújarðir
„Við tækjum því fagnandi ef
einhverjir lesendur þekktu til
einstaklinga sem annaðhvort hefðu
sjálfir hug á að bjóða land eða bújörð
til starfseminnar, ellegar vissu um
eitthvað slíkt.
Við þurfum nauðsynlega að fjölga
fólki í samtökunum og tengjast vel inn
í alla landshluta.
Aflið felst í virkni fjöldans og
verkefnin eru vissulega mörg og
spennandi,“ segir Árni enn fremur.
Dagskráin 3. nóvember í Norræna
húsinu verður eftirfarandi:
• Aðalfyrirlesari: Rudy Madsen
frá Odense.
• Kl. 10.00 – Þátttakendur
boðnir velkomnir og kynning á
dagskránni – (Magni og Rudy).
• Kl. 10.10 – Saga samtaka um
nágrannafélög í Danmörku
og kostir þess að vera félagi –
Bofællesskab.dk.
• Kl. 10.30 – Hvernig
stofnar maður samtök um
nágrannafélög?
• Kl. 11.00 – Að byggja upp sterkt
samfélag.
• Kl. 11.30 – Að viðhalda og efla
nágrannasamfélag eftir stofnun
þess.
• Kl. 11.50 – Spurningum svarað.
• Kl. 12.00 – Hádegisverður.
• Kl. 13.00 – Hópar myndaðir til
að vinna úr upplýsingum.
• Kl. 13.15 – Hópavinna
með áherslu á að stofna
nágrannasamfélög.
• Kl. 14.45 – Kaffi og te.
• Kl. 15.00 – Hvernig vinnuhópar
eru myndaðir til að viðhalda
starfinu í samtökunum.
• Kl. 15.15 – Niðursstöður kynntar
úr hópavinnu.
• Kl. 16.00 – Mat, upprifjun og
námskeiðslok. /smh
Landbúnaðarráðherra Kína kom á
landbúnaðarsýninguna í Laugardal
Kínverski landbúnaðar ráð herr-
ann, Han Changfu, mætti með
fríðu föruneyti á landbún aðar-
sýninguna á laugar daginn var.
Ráðherrann var í fylgd sendi-
herra Kína á Íslandi ásamt
sendinefnd.
Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðar-
ráðherra, Sindri Sigurgeirsson,
formaður BÍ, og Ólafur M.
Jóhannes son, framkvæmdastjóri
sýningar innar, leiddu kínverska
ráðherrann um Laugardalshöllina
þar sem hann fékk meðal annars
að bragða á íslenskum búvörum.
Han Changfu stoppaði drjúga stund
á bás Bændasamtakanna þar sem
hann dreypti á bjórnum Segli og
snæddi veitingar í boði Mímis,
nýs veitingastaðar sem verður
brátt opnaður á Hótel Sögu. Þá var
förinni heitið á bás MS þar sem
kínverski ráðherrann kynnti sér
skyr og íslenska ostagerð.
Samstarf á sviði
landbúnaðarmála
Tilgangur heimsóknar Han
Changfu til Íslands var að skrifa
undir samstarfsyfirlýsingu um
samstarf Íslands og Kína á sviði
landbúnaðar- og matvælamála.
Nýlega undirritaði Guðlaugur
Þór Þórðarson utanríkisráðherra
samning við kínversk stjórnvöld
sem gera íslenskum bændum kleift
að hefja útflutning á lambakjöti til
Kína. Á næstunni standa vonir til
þess að sambærilegir samningar
verði undirritaðir fyrir lax, mjöl
og lýsi.
Á sunnudeginum fór kínverski
ráðherrann í ferð um Suðurland og
kynnti sér m.a. starfsemi kúabúa,
garðyrkjustöðva og ferðaþjónustu.
Auk fundar með íslenska
starfsbróður sínum heimsótti Han
Changfu fyrirtækin Stofnfisk og
Bláa lónið.
Han Changfu er fæddur árið
1954 og er meðal valdamestu
manna í Kína. Ásamt því að vera
landbúnaðarráðherra er hann
byggðamálaráðherra. Han Changfu
er með doktorspróf í lögum en áður
en hann varð ráðherra var hann
landstjóri í Jilin-héraði. /TB
Árni Gunnarsson er hér fyrir miðri mynd. Mynd / smh
Kínverski landbúnaðarráðherrann, Han Changfu, kynnti sér íslenskan
landbúnað á landbúnaðarsýningunni í Laugardal. Myndir / TB
Á bás Bændasamtakanna skálaði kínverski landbúnaðarráðherrann í bjórnum
Segli við íslenska starfsbróður sinn, sendiherra Kína á Íslandi og formann
BÍ. Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri í atvinnuvegaráðuneytinu,
fylgist með og fylgdarmenn Han Changfu standa álengdar.
Áfengur drykkur unninn úr íslenskri mjólk:
Rjómalíkjörinn Jökla kemur senn á markað
Rjómalíkjörinn Jökla sló rækilega
í gegn á landbúnaðarsýningunni
um síðustu helgi. Drykkurinn er
búinn til úr íslenskri mjólk og er
fyrsti sinnar tegundar hér á landi
og þótt víðar væri leitað.
Feðginin Pétur Pétursson og
Stefanía Ósk Pétursdóttir kynntu
Jöklu á bás Bændasamtakanna og
gáfu gestum að bragða. Pétur, sem
er mjólkurfræðingur að mennt, hefur
unnið að þróun Jöklunnar um árabil
og nú hillir undir að líkjörinn komi á
markað. Jökla er búin til úr íslenskri
mjólk og áfengið sjálft verður
unnið úr mysu í nýrri verksmiðju
Heilsupróteins í Skagafirði.
Framleiðslutæki á leið
til landsins
Pétur segir að það hafi tekið
langan tíma að þróa þennan fyrsta
alíslenska rjómalíkjör. „Samningar
um framleiðsluna eru í vinnslu
en ég vona að Jöklan komi í
vínbúðir ÁTVR og á veitingahús
um mitt næsta ár. Það eru að koma
framleiðslutæki til landsins og þá
tekur við að slípa framleiðsluferlið
til. Framleiðsluaðferðin sjálf og
uppskriftin er pottþétt eftir langt og
strangt þróunarferli. Viðtökurnar
sem við höfum fengið eru frábærar
og lofa góðu um framhaldið,“ segir
Pétur.
Á landbúnaðarsýningunni í
Laugardal lagði Pétur könnun fyrir
þá sem smökkuðu og segist hann
vera að vinna úr svörunum þessa
dagana. „Ég spurði fólk um álit
þeirra, t.d. um lykt og bragðupplifun.
Ég vil ná fram rjómabragðinu og
góðu samspili við bragðefnin,“ segir
Pétur.
Jöklan sem var í boði á sýningunni
var með lakkrísbragði og rann ljúflega
niður hjá gestum að sögn Péturs.
„Við gáfum 15 lítra á
laugardeginum og þeir kláruðust
á einum og hálfum klukkutíma.
Daginn áður vorum við á bás
Fóðurblöndunnar og þar var sama
sagan. Það var heilmikil ös og gaman
að geta kynnt Jökluna við þessar
aðstæður.“ /TB
Lagaumgjörð heimaslátrunar og -sölu:
Ráðherra er jákvæður
gagnvart breytingum
Í útvarpsþættinum Reykjavík
síðdegis á Bylgjunni á
mánudaginn lýsti Kristján
Þór Júlíusson sjávarútvegs-
og landbúnaðarráðherra því
yfir að hann væri jákvæður
gagnvart þeim möguleika að
breyta lagaumgjörðinni fyrir
heimaslátrun og -sölu kjötafurða
beint frá býli. Telur hann að
sauðfjárbændur ættu sjálfir að
geta slátrað heima sínum gripum
og selt afurðir þeirra til að auka
verðmæti þeirra, en það er ekki
heimilt í dag.
„Mér finnst sjálfsagt að skoða
allar leiðir fyrir bændur til að auka
verðmæti úr þeirri vöru sem þeir
eru að framleiða – og ef þetta er
liður í því, er það sjálfsagt mál,“
sagði Kristján Þór spurður um
hvort ekki væri kominn tími til að
breyta þessum lögum og bændum
yrði leyft að slátra heima og selja
afurðirnar þaðan. „Eðlilega þurfa
að vera einhverjar kröfur um öryggi
matvæla sem þyrfti að uppfylla en ég
hef enga trú á öðru en það sé hægt
að yfirstíga erfiðleika í því,“ sagði
Kristján Þór enn fremur. /smh
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs-
og landbúnaðarráðherra. Mynd / VH
Feðginin Pétur Pétursson og Stefanía Ósk Pétursdóttir kynntu rjómalíkjörinn
Jöklu á landbúnaðarsýningunni í Laugardal. Mynd / TB