Bændablaðið - 18.10.2018, Side 16

Bændablaðið - 18.10.2018, Side 16
Bændablaðið | Fimmtudagur 18. október 201816 Hrogn þykja herramannsmatur víða um heim og vinnsla þeirra er snar þáttur í sjávarútvegi á Íslandi. Lætur nærri að útflutningur hrogna sé um 5% af útflutningsverðmæti sjávarafurða og þau skiluðu um 9,7 milljörðum í útflutningstekjur á síðasta ári. Til viðbótar eru flutt út laxahrogn fyrir um það bil milljarð. Hrognin eru að koma, gerið kerin klár söng Bubbi Morthens hér um árið. Lagið varð til þegar vinnsla á loðnuhrognum fór í gang á Eskifirði árið 1978. Þetta lag kemur upp í hugann þegar farið er að skoða mikilvægi hrognavinnslu í íslenskum sjávarútvegi. Í texta lagsins er brugðið upp skemmtilegri mynd af hamaganginu sem fylgir vinnslu hrognanna þótt hér sé enginn lofsöngur á ferðinni um vinnslu sjávarafurða. Þvert á móti er textinn gagnrýni á verðbúðarlíf, aðbúnað farandverkamanna og vinnuþrælkun sem gerir hugann sljóan. Vorið er tími hrognanna Íslendingar hafa um árarðir gert sér mat úr hrognum og framleitt úr þeim verðmætar útflutningsvörur. Hrognaframleiðslan er árstíðar- bundin og er vorið eða seinni hluti vetrar tími hrognanna. Fyrir utan loðnuhrognin, sem nefnd eru hér að framanm eru unnar afurðir úr hrognum grásleppu og þorsks en fleiri fiskar og sjávardýra koma við sögu. Oft þarf þá að hafa hraðar hendur á til að bjarga verðmætum. Og þetta eru umtalsverðar fjárhæðir sem eru í húfi. Eftir því sem næst verður komist við skoðun á útflutningstölum Hagstofunnar nam útflutningur hrogna um 13.800 tonnum að verðmæti um 9,7 milljarðar króna árið 2017. Þar af voru söltuð eða fryst hrogn um 8,4 milljarðar en niðurlögð eða niðursoðin hrogn rúmir 1,3 milljarðar. Lætur nærri að útflutningur hrogna sé um 5% af heildarútflutningi sjávarafurða á árinu 2017. Í útflutningstölum Hagstofunnar eru frjó laxahrogn flokkuð með landbúnaðarvörum en sjálfsagt er að taka þau með í þessari samantekt. Þau skiluðu í kringum einum milljarði á síðasta ári í útflutningstekjur. Í heild er útflutningsverðmæti hrogna þannig um 10,7 milljarðar króna. Loðnuhrogn gefa mest Loðnuhrogn eru mikilvægasta afurðin í hrognaflokknum. Útflutningur þeirra var um 9.600 tonn að verðmæti um 6,8 milljarðar árið 2017. Aðallega eru þetta fryst hrogn en niðursoðin hrogn skiluðu um 100 milljónum. Stærstu markaðir fyrir loðnuhrogn eru í Austur-Asíu og Austur-Evrópu. Framleiðsla og útflutningur loðnuhrogna er mjög breytileg milli ári. Ræðst það einkum af birgðastöðu á mörkuðum, hve mikið má veiða af loðnunni hverju sinni og síðast en ekki síst hvernig gengur að ná loðnunni síðustu vikur vertíðarinnar. Ekki er ráðlegt að hefja vinnslu á loðnuhrognum að bestu gæðum, þ.e. hrogn sem eru hæf fyrir Japansmarkað, fyrr en þau hafa náð fullum þroska. Þá er stutt í að loðnan leggist til hrygningar. Á þessum tíma er loðnan nær eingöngu veidd vegna hrognanna. Viku bræla í lok vertíðar gæti þýtt það að þjóðarbúið yrði af milljörðum í útflutningstekjur. Þess má einnig geta að loðnuhrogn skapa virðisauka í annarri afurð, sem er heilfrystri loðna fyrir Japansmarkað. Mjög gott verð fæst í Japan fyrir frystar hrygnur þegar hrognafylling þeirra hefur náð ákveðnu hlutfalli. Grásleppuhrogn fyrir 1,4 milljarða Grásleppuhrogn koma í öðru sæti á eftir loðnuhrognum í útflutningsverðmæti. Þau skiluðu samtals tæpum 1,4 milljörðum króna á árinu 2017. Þar af voru söltuð hrogn í tunnum um 588 milljónir og grásleppukavíar í neytendaumbúðum um 795 milljónir. Þetta er aðeins samdráttur í tekjum frá árinu á undan vegna þess að magnið minnkaði. Svíar keyptu um 45% alls útflutnings af söltuðum hrognum miðað við magn en mest var flutt út af kavíar til Frakklands, eða 74%. Lengi vel var grásleppan veidd nær eingöngu vegna hrognanna. Var hún þá skorin úti á sjó, hrognin tekin úr henni en hveljunni eða fiskinum sjálfum hent fyrir borð, enda hvergi markaður fyrir hana. Fyrir nokkrum árum var grásleppusjómönnum gert skilt að koma með grásleppuna í land. Svo heppilega vildi til að á sama tíma hafði fundist markaður fyrir frysta grásleppu í Kína. Útflutningur á frystri grásleppu á síðasta ári var um 2.400 tonn að verðmæti rúmir 406 milljónir. Í heild skilaði því grásleppan um 1,8 milljörðum króna. Hér áður fyrr sáu grásleppu- sjómenn margir hverjir sjálfir um að salta hrognin og selja þau þannig til verksmiðja sem vinna kavíarinn, jafnt hér heima sem erlendis. Eftir að farið var að vinna grásleppuna sjálfa þurfti að landa henni heilli. Best þykir að hún sé unnin frá upphafi í fikvinnsluhúsum því skera þarf hana eftir kúnstarinnar reglum fyrir markaðinn í Kína. Þetta leiddi til þess að fiskvinnslur í landi tóku að mestu leyti yfir vinnslu á hrognunum. Sjómenn selja grásleppuna nú nánast eingöngu heila og óskorna, í beinni sölu eða á fiskmarkaði, og koma því lítið nálægt hrognavinnslunni. Verð á grásleppu hefur hækkað á milli áranna 2017 og 2018. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, áætlar að útflutningsverðmæti grásleppu, bæði hrogna og frystrar hvelju, fari yfir 2 milljarða á þessu ári. Þorskhrogn verðmæt hliðarafurð Þorskhrogn eru nýtt sem verðmæt hliðarafurð á vetrarvertíð. Á árinu 2017 voru flutt út um 2.330 tonn af þorskhrognum fyrir um 817 milljónir króna. Þetta eru aðallega fryst hrogn en einnig er eitthvað saltað og reykt eða niðurlagt eða niðursoðið. Frystu hrognin gáfu um 580 milljónir. Stærstu markaðir fyrir frystu hrognin eru annars vegar Spánn og Japan fyrir bestu hrognin og hins vegar Frakkland og Portúgal fyrir kramin hrogn til iðnaðar. Framleiðendur fá hrognin annað hvort af eigin skipum eða skipum sem eru í viðskiptum við þá. Einnig er líflegur markaður með þorskhrogn á fiskmörkuðum. Í heild voru seld frá áramótum 2018 um 910 tonn af þorskhrognum fyrir um 180 milljónir króna. Þorskhrognin eru einnig vinsæl matvara á innanlandsmarkaði en ekki liggja fyrir hjá Hagstofunni upplýsingar um hve mikið var selt af þorskhrognum til innanlandsneyslu á síðasta ári. Mikilvæg afgangsstærð Hér að framan hafa verið nefndar þrjár helstu tegundir hrogna og afurða úr þeim samkvæmt sundurliðun Hagstofunnar. Til viðbótar má nefna að önnur fryst hvítfiskhrogn en þorskhrogn gáfu um 130 milljónir í útflutningstekjur á síðasta ári og ígulker og ígulkerahrogn skila 28 milljónum. Þá er ótalinn tollflokkur sem nefnist „önnur niðurlögð eða niðursoðin hrogn“ sem gefur 410 milljónir. Þetta er allstór fjárhæð fyrir tollflokk sem virðist vera afgangsstærð án sundurgreiningar á tegundum hrogna. Líklegt er að inn í þennan flokk rati meðal annars niðurlagðar afurðir unnar úr loðnuhrognum, svo sem loðnukavíar. Kjartan Stefánsson kjartanst@simnet.is Málstefna er hugtak sem ekki er skýrt á einn ákveðinn hátt. Það getur snúið að því hvernig form eða efni tungumáls þróast. Það má taka sem dæmi hvernig stafsetning skuli vera, hvort nýyrði séu smíðuð eða erlent slangur notað, og hvaða leturgerð sé notuð. Málstefna getur einnig verið tiltekið skjal eins og stefna Íslensku málnefndarinnar frá 2008, Íslenska til alls. Málstefna getur verið ólík eftir löndum, stundum skýr og sýnileg en stundum dulin. Dæmi um sýnilega málstefnu er sú íslenska en hér starfar Íslensk málnefnd sem gefur árlega út ályktanir um stöðu tungumálsins og formleg málstefna er til. Almennt samþykki er hér á landi um hvernig íslenskan er, hvernig hún er töluð og hvernig málfræðin virkar. Dulin málstefna getur falist í því að til sé útgefin stefna í ríki en njóti ekki stuðnings almennings og undirliggjandi er allt önnur stefna. Þá til dæmis hið raunverulega samskiptamál sem er ekki samþykkt af yfirvöldum. Málstýring er undirhugtak málstefnu en það þýðir að koma málstefnunni í framkvæmd. Það má einnig nota hugtakið málrækt sem felst í því að reyna að gera tilraunir til að hafa jákvæð áhrif á þróun tungumáls með nýyrðasmíði og málstöðlun. Nýyrðasmíði er rík hér á landi og eru mörg dæmi um vel heppnuð nýyrði eins og sporbaugur, bílskúr og þota. Stundum heppnast nýyrðin illa og ná ekki að festa sig í sessi, það má taka sem dæmi orð eins og bjúgaldin (banani) og vindutjöld (rúllugardínur). Staðreyndin er að tungumál þróast og þá sérstaklega með aukinni tækni sem þarf að finna ný orð yfir. Sumum finnst málstýring geta gengið of langt og gæti þótt óþarfi að búa til nýyrði yfir alþjóðleg orð. Mannanafnanefnd gegnir að vissu leyti málstýringarhlutverki en ekki er hægt að skíra börn erlendum nöfnum nema að ströngum skilyrðum uppfylltum. Mörgum þykir þetta óþarfa forræðishyggja og í besta lagi að skíra börn nöfnum sem ekki samræmast íslenskum hefðum og hugmyndin sú að börnin græði á því í alþjóðlegu samhengi. Það er hentugt að samræming sé í formi máls í ríki, það er að beiting málsins sé áþekk, form í beygingum og stafsetningu sé eins. Á Íslandi er íslenska opinbert tungumál, bæði talað mál sem og hið séríslenska táknmál. Um þetta hafa verið sett lög nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Í öðrum löndum er algengara að margar mállýskur séu til staðar og jafnvel mörg tungumál. Yfirleitt er þá eitt eða fleiri opinber tungumál í landinu sem flestir skilja. Í Finnlandi eru bæði finnska og sænska opinber tungumál en minnihlutamálið samíska hefur aðeins lægri stöðu. Opinbert tungumál er það tungumál sem lög eru birt á og stjórnsýsla landsins starfar eftir og notar. Með opnari landamærum og sífellt stækkandi fjölmenningar- samfélögum eykst fjöldi tungumála í hverju landi, sem að sjálfsögðu er af hinu góða. Að halda í íslenska málstefnu til þess að vernda tungumálið getur þó verið þýðingarmikið, enda sýnt og sannað að íslenska tungan skipar stóran sess í sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar. Jóhanna Sif Finnsdóttir. STEKKUR NYTJAR HAFSINS „Hrognin eru að koma, gerið kerin klár“ Lengi vel var grásleppan veidd nær eingöngu vegna hrognanna. Var hún þá

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.