Bændablaðið - 27.06.2019, Page 8

Bændablaðið - 27.06.2019, Page 8
Bændablaðið | Fimmtudagur 27. júní 20198 FRÉTTIR Sóknarfæri í nautakjötsframleiðslu geta legið víða: Nærtækir möguleikar með ung- og alikálfa – og markvissri markaðssetningu Á ráðunautafundi Ráðgjafar­ miðstöðvar landbúnaðarins (RML) og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri á dögunum fór Jóna Þórunn Ragnarsdóttir, ráðunautur hjá RML, yfir stöðu og horfur í íslenskri nautakjötsframleiðslu og um möguleg sóknarfæri í greininni. Hún benti til dæmis á það hvort það mætti ekki huga meira að kálfakjötsmarkaði, með því að setja kálfana nýfædda í eldi fremur en í sláturhús. „Já, þetta var eitt af því sem ég benti á,“ segir Jóna um þennan sóknarmöguleika. „Þegar maður skoðar hversu margir kálfar fara nýfæddir í sláturhús vakna spurningar hvort bændur ættu ekki að skoða meira þann möguleika að spila meira á kálfakjötsmarkaðinn. Það er auðvitað dýr framleiðsla en það fæst líka verðmætt gæðakjöt í staðinn.“ Sóknarfæri háð góðri markaðssetningu Jóna beinir sjónum að tveimur kálfaflokkum; ungkálfar, nýfæddir mjólkurkálfar (UK), og alikálfar (AK) sem er slátrað innan við ársgömlum. Á bilinu 1.200 og 1.500 ungkálfum er slátrað nýfæddum árlega, sem gætu skilað 300–400 tonnum af skrokkum miðað við meðalfall ef þeir yrðu settir í eins til tveggja ára eldi. Sóknarfærin fyrir alikálfana eru að mati Jónu háð því að markaðssetning yrði mjög öflug, því slíkt eldi sé mjög dýrt. Hún áætlar fallþunga skrokkanna um 80–100 kíló og gerðarflokkar frá O- til P-, sumsé mest í lægri flokkum. Um 160 alikálfum var slátrað á síðasta ári. Nokkur heilræði fyrir betra nautkálfaeldi Jóna leggur til nokkrar ábendingar til framfara við eldi íslenskra nautkálfa. Mikilvægt sé að huga að því að nægt pláss sé, því plássleysi sé almennt vandamál og geti dregið úr fóðurnýtingu. Vanda skuli hönnun húsa og gott sé að láta gripi fylgjast að allan eldistímann. Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að kálfarnir drekki nægt vatn og setur spurningarmerki við það að fóðrun hafi almennt batnað. Hún leggur til að eldi verði hraðað og slátrað sé 18–20 mánaða frekar en 24 mánaða, þó þannig að lágmarksfall verði alltaf 250 kíló. Vænlegra gæti verið að hafa minni hópa, tíðari slátrun og meiri veltu gripa í gegnum húsið. Þannig geti verið mögulegt að ná 20–25 prósent fleiri gripum í sláturstærð og það geti minnkað þörf á viðahaldsfóðri. Víða pottur brotinn í holdanautaeldi Jóna telur að víða sé pottur brotinn í eldi holdagripanna, þar sem holdablendingarnir séu lítið þyngri en Íslendingarnir og ljóst að þar þurfi bændur að taka ýmis atriði til endurskoðunar. Í lok erindis síns vék Jóna máli sínu að möguleikum markaðs- setningar, þar væru nokkur atriði sem væru þess virði að gefa gaum. Hún nefndi möguleikana á heimtöku og eigin markaðssetningu, einnig fyrirbærinu REKO – þar sem bændur geti átt í milliliðalausum viðskiptum við neytendur í gegnum Facebook, mikilvægi markaðssetningar á staðbundnum matvælum sem innlegg í loftslagsumræðuna og að grasfóðrun hefði jákvæða ímynd fyrir gæði afurðanna og vegna dýravelferðar. Þá skipti framsetning kjötafurðanna máli og hlusta þyrfti eftir röddum neytenda og matreiðslumanna – en einnig eftir óskum þeirra sem væru óreyndir í eldhúsinu. Að lokum nefndi hún möguleikann á markaðssetningu á kjöti af kvígum í meira mæli vegna mögulegs offramboðs kvígna til ásetnings. Kjöt af þeim væri meyrara en af nautum – svipað uxakjöti. /smh Jóna Þórunn Ragnarsdóttir, ráðunautur hjá RML. Mynd / úr einkasafni Sauðfjárslátrun haustið 2019: SS hækkar verð fyrir dilkakjöt um átta prósent frá því í fyrra – Greiðir bændum álag fyrstu fjórar vikurnar og líka í lok sláturtíðar Sláturfélag Suðurlands (SS) hefur gefið út verðskrá fyrir innlagt kindakjöt haustið 2019. Verð fyrir dilka hækkar um átta prósent milli ára og verð fyrir fullorðið hækkar um fjögur prósent. Að sögn Steinþórs Skúlasonar, forstjóra SS, eru aðstæður á markaði að mörgu leyti góðar og því ekkert sem kemur í veg fyrir að gefa út verð núna. Stefna SS er að greiða samkeppnishæft afurðaverð og ef vel gengur að miðla hluta af rekstrarafgangi til bænda í formi viðbótar á afurðaverði. Eins og áður verður innlegg staðgreitt föstudaginn eftir innleggsviku. Slátrun hefst miðvikudaginn 4. september og lýkur miðvikudaginn 6. nóvember, sem er lenging um einn dag frá því í fyrra. Verðhlutföll hjálpa bændum að ákveða sláturtíma Á vef SS kemur fram að verðhlutföll hjálpi bændum til að meta hvenær hagkvæmast er að slátra eftir aðstæðum hvers og eins. Vikuna 4. til 6. september, eða 36 viku ársins, verður 20 prósent álag fyrir dilkakjöt og verður verðhlutfallið því 120 prósent af verðskrá, en fer síðan lækkandi. Með þessu hyggst SS reyna að fá bændur til að koma fyrr með fé til slátrunar og jafna fjölda yfir tímabilið. Reiknað er með að slátra um 2.000 fjár á dag fyrstu vikuna. Það fari síðan stigfjölgandi í 2.400, 2.500 og mest í 2.600 dilka á dag þegar mest lætur í vikum 40, 41, 42 og 43. Heimtaka á kjöti SS birtir einnig verðskrá fyrir heimtöku á kjöti. Ekki er hægt að taka heim skrokka eftir númerum. Ef bændur vilja taka valda gripi heim þarf að merkja þá á haus fyrir flutning í sláturhús. Gjald í haust fyrir heimtöku og 7 parta sögun er tvískipt. Fyrir magn sem er minna en 15 stykki á innleggjanda er gjaldið 3.800 kr./stk., en á það magn sem er umfram 15 stk. er gjaldið 4.900 kr./stk. Ef slög og hálsar eru lögð inn verður þetta gjald annars vegar 3.300 kr/stk. og hins vegar 4.400 kr./stk. á magn umfram 15 stk. Heimtaka á fullorðnu fé kostar 4.200 kr./stk. Fínsögun kostar aukalega 780 kr./stk. Félagið tekur ekki fullorðna hrúta til innleggs. /smh /HKr. Margvíslegur ávinningur af því að nota flatgryfjur: Stuttur byggingartími, minni plast- notkun og sparar tíma við heyskap Á bænum Garði í Eyjafjarðarsveit var fyrri part þessarar viku tekin í noktun ný flatgryfja. „Ávinningurinn er margvíslegur, en ekki hvað síst horfum við til umhverfissjónarmiða og drögum töluvert úr okkar plastnotkun með því að verka hey og geyma með þessum hætti,“ segja bræðurnir Aðalsteinn og Garðar Hallgrímssynir. Stuttur byggingartími og sterk steypa Flatgryfjan er frá hollenska fyrir- tækinu Boschbeton, en um er að ræða forsteyptar einingar sem hver um sig vegur tæp 4 tonn. Stæð gryfjunnar við Garð er 60 sinnum 12 og vegghæðin er um 2 metrar. Benedikt Hjaltason, sem flytur flatgryfjunar inn og sér um uppsetningu þeirra, segir að það sem einkenni þær sé óvenju sterk og endingargóð steypa, þannig að viðbúið sé að flatgryfjurnar standi um langa hríð án viðhalds. Benedikt hefur verið við uppsetningu á flatgryfjunni við Garð síðustu daga, en hann segir að einn af kostum gryfjanna sé stuttur vinnutími við uppsetningu. „Byggingartíminn er afskaplega stuttur, frá því menn panta einingarnar í Hollandi og þar til gryfjan er tilbúin til notkunar líða um þrjár vikur,“ segir Benedikt. Flatgryfjan við Garð er hin fyrsta þessarar tegundar sem sett er upp hér á landi, en Benedikt segir bændur forvitna um gryfjurnar og fjölmargar fyrirspurnir hafi borist. Gryfjan við Garð, þ.e. forsteyptu einingarnar og öll vinna við uppsetningu þeirra, kostar 6.250.000 þúsund krónur án virðisaukaskatts. Draga úr plastnotkun Aðalsteinn og Garðar eru hæstánægðir með nýju flatgryfjuna, en þeir segja að það magn sem komist fyrir í henni samsvari um það bil eitt þúsund rúllum. Sparnaður við kaup á plasti sé því þónokkur, líkast til um 400 þúsund krónur. Ekki síður megi horfa til umhverfissjónarmiða, bændur hafi verið hvattir til að stilla plastnotkun sinni í hóf sem kostur er. Með því að verka og geyma hey í flatgryfjum sé komið til móts við þau sjónarmið. „Við teljum okkur vera að svara því kalli með því að koma þessari flatgryfju upp,“ segir Aðalsteinn. Tímasparnaður við heyskap og gjöf Hann segir að Garðsbændur hafi áður verkað hey í flatgryfjur, en þær hafi verið annars konar. Hlakki menn til að sjá hver útkoman á nýju gryfjunni verður. Aðalsteinn segir að flatgryfjunni fylgi mikill tímasparnaður við heyskapinn þar sem ekki þurfi lengur að rúlla. Einnig verði töluverður tímasparnaður við hverja gjöf þegar kýr eru í fjósi, ekki þurfi þá lengur að taka til rúllur og rífa utan af þeim. „Þetta verður mun minni vinna og auðveldari, gjöfin mun ganga fljótar fyrir sig en þegar notaðar eru rúllur,“ segir Aðalsteinn. Þá bætir hann því við að eflaust henti flatgryfjur stærri búum betur en þeim minni. Fjárfestingin sé lengur að borga sig upp á minni búunum. /MÞÞ Garðar og Aðalsteinn Hallgrímssynir, bændur í Garði í Eyjafjarðarsveit, með Benedikt Hjaltasyni, sem flytur inn og setur hollensku flatgryfjurnar upp.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.