Fréttabréf Öryrkjabandalags Íslands - 01.06.1995, Blaðsíða 33

Fréttabréf Öryrkjabandalags Íslands - 01.06.1995, Blaðsíða 33
Fræðslurit MS félags íslands Okkur hefur borizt hingað vandað og læsilegt fræðslurit sem MS félag íslands gefur út. í inngangsorðum Gyðu Ólafsdóttur, formanns félagsins segir “að ritið sé einkum ætlað til fræðslu og kynningar þeim, sem vinna með MS sjúklingum, þótt það komi að sjálfsögðu öðrum að gagni”. Greinarnar sem þarna birtast eru þýddar úr dönsku, en þær eru ritaðar af dönsku fagfólki, sem greinilega hefur mikla þekkingu til að bera. Fyrst er grein um einkenni, sjúkdómsferli og meðhöndlun einkenna - grein sem lýsir ferlinu frá fyrstu einkennum og til hjálpartækja og þjálfunar. MS í faraldsfræðilegu ljósi er svo umfjöllunarefni næstu greinar, þar sem m.a. kemur fram, hve mikill munur er á algengi MS í heiminum og sérstaklega er fjallað um tilfellið Færeyjar, en þar var sjúkdómurinn óþekktur fyrir síðari heimsstyrjöld en síðan hafa komið nokkrir reglubundnir faraldrar. í kafla um erfðatilhneigingar er getið um það, að hérlendis standi einmitt yfir erfðafræðileg rannsókn á MS. Þá kemur að fræðilegri grein um rannsóknir á orsökum MS og þar m.a. fjallað um hina athyglisverðu retróveiru, og spurninguna um áhrif hennar, en að öðru leyti treystir ritstjóri sér ekki til þess að greina frá svo fræðilegri úttekt. Þvaglátstruflanir eru svo næst og í formála er minnt á yfirlýsingu margra MS sjúklinga: “Blaðran stjórnar lífi mínu”. Á þessu vandamáli og meðhöndlun þess er svo vel tekið. Alllangur kafli er svo um skerta kyngetu karlmanna með MS og meðhöndlun hennar; hvað veldur, hvaða áhrif hefur og sagt frá nýjum meðferðarúrræðum, en í lok kaflans er yfirlit yfir helztu hjálpartæki. Þá er fjallað um síbeygjukrampa eða “spasma” öðru nafni, en þetta er eitt alvarlegasta vandamálið er fylgir MS. Greint er glögglega frá meðferð við þessum krömpum svo og raförvun, sem mjög víða er farið að beita. Kaflinn um vitsmunalega sköddun er svo næstsíðastur, einkennum hennar lýst og um leið undirstrikað að þar sem hún gerist, sem ekki er almennt, langt í frá, þá sé mikilvægt að hún sé viðurkennd. Sálfræðileg viðhorf koma svo í lokin - stuðningur, meðferð, eigin afstaða. Þar er farið yfir hversu MS sjúklingurinn “mætir” greiningunni, hversu horfst er í augu við sjúkdóminn, hver ábyrgð er á eigin lífi tekin með virkri afstöðu tii sjúkdómsins og þannig náð að þroska innri styrk og svo að lokum hver nauðsyn getur verið á því að leita sér sálfræðilegrar aðstoðar og meðferðar til að þreyta sem bezt hina oft hörðu glímu. Fræðsluritið er vel úr garði gert og trúlega mun haustblaðið birta grein í heild úr þessu gagnmerka riti. Fræðsla er oft til farsældar bezt. h.S. FRÉTTABRÉF ÖRYRKJABANDALAGSINS Gátuvísur Magnúsar 1. Ýtt í vegg svo áfram plaggið uppi tolldi, sézt ef soðna vatnið vildi, veiki - og á miðjum skildi. 2. Eg í rjáfri áður hékk, áhrif hef á gengið, úrslit prófs ef illa gekk, oft við klifur fengið. 3. Selur upp við svala brún þar setur trýni, mannshár skorið fyrr á Fróni, fótstallur hjá veldistróni. 4. Beitt í glímu alltaf er af æfðum manni, þekkist súrt og sætt í munni, svik í slæmu merkingunni. 5. Feikn í skógi finnst af því, fréttir okkur gefur, rakvélinni er það í, egg og bakka hefur. 6. Hnýtt var oft með henni netið hér um árin, gras sem upp fær gægst á vorin, gerð með henni fjölmörg sporin. 7. Himinn skýlaus, hár og klár, ég hér það nefni, er það sæmd sem enginn hafni, aftast líka í kvenmannsnafni. 8. Skonsa dimm það er, ef einhver að því gætir, ástin það hjá ýmsum heitir, einnig bana snöggan veitir. 9. Skammaryrði, jags við él, jurtum held á vengi, kaffið drýgja kunni vel, kjöt er sagt þar héngi. 10. Lárétt er það leturröðin lestrarefna, að sér fiski oft mun safna, ending sumra kvenmannsnafna. Ráðningar eru á bls. 39 33

x

Fréttabréf Öryrkjabandalags Íslands

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Öryrkjabandalags Íslands
https://timarit.is/publication/1440

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.