Bændablaðið - 16.07.2020, Qupperneq 28

Bændablaðið - 16.07.2020, Qupperneq 28
Bændablaðið | Fimmtudagur 16. júlí 202028 Jón Magnús Jónsson og Kristín Sverrisdóttir, bændur á Reykjabúinu og eigendur Ísfugls: Skýr stefna að bjóða eingöngu upp á íslenskt kalkúna- og kjúklingakjöt – Mikil samkeppni einkennir markað með fuglakjöt en tollaumhverfið er skaðlegt íslenskum landbúnaði Á Reykjum í Mosfellsbæ búa þau Jón Magnús Jónsson og Kristín Sverrisdóttir. Þau eru þriðja kynslóð á býlinu en það er hvað þekktast fyrir kalkúnarækt og brautryðjendastarf í alifuglaframleiðslu á Íslandi. Börn þeirra eru Hrefna, María Helga, Jón Magnús og Sverrir. Bæði stunduðu þau hjónin nám við framhaldsdeild Bændaskólans á Hvanneyri. Jón Magnús lauk síðar BS-gráðu í alifuglarækt í Madison, Wisconsin í Bandaríkjunum og Kristín BS-gráðu í almennri búfjárrækt frá Hvanneyri. Saman reka þau Reykjabúið og eru eigendur Ísfugls sem slátrar og markaðssetur afurðir búsins og fleiri bænda. Hjá Ísfugli var mörkuð sú stefna að selja einvörðungu íslenskt alifuglakjöt. Jón Magnús og Kristín hafa skýra sýn á gildi þess að framleiða mat á Íslandi og sterkar skoðanir á rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar. Jón Magnús segir að núverandi tollaumhverfi sé bændum erfitt og hvetji til innflutnings. Bændur geti auðveldlega annað markaðnum og það sé hægur vandi að reka landbúnað á Íslandi ef þjóðin sameinast um það. Reykjabúið framleiðir fyrst og fremst kalkúna- og kjúklingakjöt en á Reykjum er einnig haldinn kalkúna- og holdastofn til framleiðslu frjóeggja. Þá er lítil heimaverslun á Reykjum þar sem seldar eru kalkúnaafurðir beint til neytenda. Árið 2012 tóku þau alfarið yfir rekstur Ísfugls sem er til húsa á Reykjavegi skammt frá búinu. Jón Magnús er alinn upp á Reykjum en Kristín er Reykvíkingur sem kynntist sveitastörfum frá barnsaldri hjá móðursystur sinni á Oddgeirshólum í Flóa. Á Reykjum hófst hænsnarækt árið 1946 og kalkúnarækt í litlum mæli stuttu síðar. Varphænur í Reykjabíói „Það er í raun grunnurinn að því búi sem við erum með í dag. Hér var hafin ræktun á varphænum á tveimur hæðum í gömlu bíói frá stríðsárunum, Reykjabíói,“ segir Jón Magnús. Faðir hans, Jón Magnús Guðmundsson, kom heim úr námi í Bandaríkjunum í búfjár- og hænsnarækt árið 1947 og hóf hænsnarækt samhliða kúabúskap. „Hann keypti svo hænsnabúið á sjötta áratugnum og í kjölfarið hófst framleiðsla kjötfugla á Reykjum. Pabbi fór aftur til Bandaríkjanna skömmu síðar að kynna sér strauma og stefnur í búgreininni, og eftir heimkomu hófst hann handa snemma á sjöunda áratugnum við að byggja kjúklingasláturhús. Eftir það hófst innflutningur á fuglastofnum fyrir kjötfuglaeldi. Fram að því höfðu Íslendingar látið sér nægja að borða afgangs fugla frá eggjaframleiðslu!“ segir Jón Magnús. Hefðbundin eggjaframleiðsla hefur ekki verið að neinu ráði á Reykjum að sögn Jóns. „Amma mín, Ingibjörg Pétursdóttir, var með töluvert af hænum og seldi nágrönnum og fleirum egg. Annars var hér fyrst og fremst útungun og framleiðsla á varphænum og kjúklingum. Þetta bú hefur aldrei verið í framleiðslu neyslueggja.“ Þriðja kynslóð tekur við búskapnum Jón Magnús og Kristín eru af þriðju kynslóðinni sem býr á Reykjum. Þau keyptu búið af fjölskyldunni árið 2005. Hvaða stefnu tókuð þið í búskapnum árið 2005 þegar þið eignuðust búið? „Við rýndum í reksturinn og reyndum að hagræða eins og kostur var,“ segir Kristín og bætir við að ýmsu hafi verið breytt í rekstrinum á þeim tímamótum, bætt við fleiri eldishúsum fyrir kalkúna og kjúklinga og framleiðslan aukin. Kristín Sverrisdóttir og Jón Magnús Jónsson, bændur á Reykjum. Þau hafa skýra sýn á gildi þess að framleiða mat á Íslandi og sterkar skoðanir á rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar. Hér eru þau í sveitaversluninni, sem opin er sídegis tvo daga í viku, þar sem boðið er upp á ferskar og frosnar vörur beint til neytenda. Myndir / TB Kristín og Jón Magnús hafa í mörg horn að líta á degi hverjum. Á Reykjabúinu eru um 10 stöðugildi og hjá Ísfugli eru um 40 starfsmenn. Spjallað við bændur Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is Sláturhús Ísfugls við Reykjaveg. Ísfugl er með um 20% markaðshlutdeild í alifuglakjöti og er með þá stefnu að selja eingöngu íslenskt kjöt.

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.