Fréttablaðið - 22.08.2020, Page 30

Fréttablaðið - 22.08.2020, Page 30
„Nú erum við komin heim með hjartað fullt af yndislegum minningum“ „Krakkarnir voru alsælir og strákurinn minn sem er þrettán ára vildi helst að við flyttum á Stykkishólm. Eitt stórt atriði í þeirri pælingu var skólalóðin, sem var alveg við hliðina á hótelinu en þar er risastór aparóla og uppblásið trampólín,“ segir glöð mamma í ferðasögu sem hún sendi til Hjálparstarfs kirkjunnar og við fengum leyfi til að birta hér í blaðinu. – ferðasaga Ég var svo heppin að fá ferðastyrk frá Hjálparstarfi kirkjunnar og valdi að fá þrjár nætur í hótelgistingu fyrir mig og börnin mín þrjú. Við fórum snemma af stað úr Reykjavík, með nesti fyrir hádegismat og keyrðum í gegnum Borgarnes í átt að Stykkishólmi. Áður en við fórum í Hólminn komum við við í Hákarlasafninu í Bjarnarhöfn og fengum fróðleik um hákarlaveiði fyrri tíma og smakk af hákarli með rúgbrauðsbita. Ég hef aldrei getað borðað hákarl en þetta smakkaðist bara ótrúlega vel. Svoldið eins og sterkur ostur frá Frakklandi. Svo fórum við áfram á Stykkishólm. Rétt áður en maður fer inní þorpið er lítið nestissvæði inní í skógrækt og krakkarnir príluðu í trjánum meðan ég lagði á borð með bláköflóttum dúk. Við keyrðum svo aðeins um bæinn áður en við fórum á hótelið. Þar fengum við þriggja manna herbergi og fyrra kvöldið var svoldið þröngt um okkur en svo var bætt inn dýnu á gólfið seinna kvöldið. Krakkarnir voru alsælir og strákurinn minn sem er þrettán ára vildi helst að við flyttum á Stykkishólm. Eitt stórt atriði í þeirri pælingu var skólalóðin, sem var alveg við hliðina á hótelinu en þar er risastór aparóla og uppblásið trampólín. Við nutum þess svo að ganga um þorpið og fengum okkur að borða á veitingastað um kvöldið. Þar nýttum við okkur Ferðagjöfina frá ríkinu en foreldrar mínir og bróðir gáfu mér sínar inneignir. Ég hafði líka fengið inneignarkort í Bónus frá Hjálparstarfi kirkjunnar og keypti meira nesti til að hafa við höndina. Daginn eftir fórum við í siglingu um Breiðafjörðinn sem var alveg ævintýra- legt, svo mikið fuglalíf og aðalfjörið var svo þegar trollinu var kastað og skeljar og ígulger svifu um borð. Hörpuskelin var borin fram hrá með sojasósu og wasabi eins og sushi og krökkunum þótti það ekki amalegt. Stóra stelpan mín, sem er algjör grallari þó hún sé orðin sautján, samdi við sjóarana um að fá að eiga fullan poka af hörpuskeljum sem var vandlega pakkað inní tvöfaldan plastpoka. Við fórum líka í sund í Hólminum og svo snemma að sofa seinna kvöldið. Yngsta barnið mitt sofnaði fyrst og við hin vorum að hvíslast á og spjalla og strákurinn minn sagði að þetta væri svolítið eins og þegar hann fór í skólaferðalag á Reyki, allir saman í herbergi og stemning á kvöldin. Ferjan fór svo snemma morguninn eftir. Við skildum bílinn eftir á bryggjunni og fórum úr í Flatey þar sem við áttum síðustu nóttina bókaða á Hótel Flatey. Það var ólýsanleg tilfinning að ganga þar um. Ég hafði barist við erfitt þunglyndi áður en ég fór í þessa ferð en í Flatey gerðist eitthvað kraftaverk og hrein hamingja fór að streyma um æðarnar. Ég sagði krökkunum að nú værum við í fríi og þau mættu bara gera allt sem þau vildu, hvort sem væri að horfa á Netflix eða leika niðri í fjöru. Þau tóku mig á orðinu og gerðu sitt lítið af hvoru. Við fórum í gönguferð upp á Lundahöfða, með prik við höfuðið til að verjast kríunni en hún var góð við okkur og gerði engar árásir. Ég sökkti mér svo í bók og við vorum öll alsæl með þessa ferð. Ég vil helst fara aftur í Flatey í sumar, kannski ein með tjald og leyfa mér að borða á hótelinu í staðinn fyrir ódýran gistimáta. En nú erum við komin heim með hjartað fullt af yndislegum minningum og bala úti á svölum fullan af breiðfirskum hörpuskeljum í bleyti sem bíða þess að vera hreinsaðar. Bestu þakkir, glöð mamma Fjölskyldur sem leita til Hjálparstarfs kirkjunnar hafa sagt félagsráðgjöfum okkar frá því að ferðalög innanlands og utan séu ekki á dagskrá sökum efnaleysis. Í sumar bauð Hjálparstarf kirkjunnar 21 fjölskyldu sem býr við kröpp kjör ferðastyrk til þess að ferðast innanlands á eigin vegum og til áfangastaðar að eigin vali. Alls nutu 45 börn og foreldrar þeirra góðs af ferðastyrknum og fara inn í haustið með minningar um samverustundir og ævintýri fjölskyldunnar. Og þeim er hægt að deila með bekkjarsystkinum. 6 – Margt smátt ...

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.