Morgunblaðið - 09.01.2020, Síða 70

Morgunblaðið - 09.01.2020, Síða 70
70 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 9. JANÚAR 2020 Gæðavörur frá Ítalíu Ferskleiki og gæði Rana ferskt pasta – Suðutími 2 mínútur Pastasósurnar frá Cirio Auðveldar í notkun. Hitaðu sósuna við lágan hita í 2-3 mínútur á meðan pastað sýður og hrærðu svo saman við fulleldað pasta. Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Eitt af meistaraverkum Antons Tsjekhovs, Vanja frændi, verður frumsýnt á Stóra sviði Borgarleik- hússins á laugardaginn, 11. janúar, í nýrri þýðingu Gunnars Þorra Pét- urssonar og leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur. Í verkinu segir af prófessor nokkrum sem kemur á sveitasetur látinnar eiginkonu sinn- ar með seinni eig- inkonu sinni, hinni ungu og heillandi Jelenu. Dóttir prófess- orsins af fyrra hjónabandi og Vanja, bróðir fyrri eiginkonu hans, hafa lagt á sig mikla vinnu við að sinna búinu en prófess- orinn er með róttækar breytingar á því í huga, orðinn gamall og með allt á hornum sér, eins og því er lýst á vef leikhússins. Örvænting og von- leysi heltekur Vanja og átakamikið uppgjör er óumflýjanlegt. Þrátt fyr- ir brostnar vonir og sorg þykir hið sígilda verk fullt af spaugi og nátt- úrulegum léttleika. „Í upphafi verksins hefur Vanja frændi vaknað upp við vondan draum: hann áttar sig á að hann er búinn að helga líf sitt tilgangs- og ástríðulausu striti fyrir mann sem stendur fullkomlega á sama um hann. Fótunum hefur verið kippt undan honum. Hann er í miðaldra- krísu, óánægður, ófullnægður og óviss um stöðu sína. Hann, eins og aðrir í verkinu, finnur engan til- gang, elskar ranga manneskju, ber tilfinningar sínar á borð fyrir ein- hverja sem ekkert geta fyrir hann gert og stærsta martröðin er orðin að veruleika: hann leikur auka- hlutverk í eigin lífi,“ segir Brynhild- ur. Á óræðum tíma og stað Brynhildur segist ekki reyna að færa verkið til nútímans í sinni nálg- un á það. „Við erum kannski í óræð- um tíma á óræðum stað og þetta er vissulega fólk í rússneskri sveit í kringum aldamótin 1900 en við er- um að skoða þetta út frá tilfinning- um þess. Margir hafa sagt að þetta sé bæði skemmtilegasta og aðgengi- legasta verk Tsjekhovs en að sama skapi það erfiðasta því atburðarásin er þannig að það er eins og ekkert gerist,“ segir Brynhildur. Verkið hverfist um tilfinningar söguper- sóna. „Draumurinn er að nútímatilfinn- ingarnar og viðhorf í þessum 120 ára gamla texta hljómi í gegnum sýning- una. Það sem verið er að segja um náttúruvernd, skógareyðingu og mannlegar tilfinningar, brostnar vonir og ófullnægðar þrár endur- ómar vonandi í nútímanum án þess að verið sé að sýna vídeó af skógar- eldum í Ástralíu eða benda með beinum hætti á kvíða, þunglyndi og andlega streitu,“ segir Brynhildur. Glatað að láta spæla sig „Verkið er um brostnar vonir og bældar þrár. Hvernig allt verður asnalegt þegar við reynum að ólm- ast og engjast við að rétta okkar hlut í mannlegum samskiptum sem enda ekki eins og við sáum fyrir okkur. Hvað það er glatað að láta spæla sig. Hvað það er ömurlegt að missa trúna á því sem maður lifði fyrir og helgaði sig. Hvað það er fallegt en sorglegt að vera mann- eskja, svo vitnað sé í Kærleikskúlu Ragnars Kjartanssonar listamanns en faðir hans, Kjartan Ragnarsson leikstjóri, setti síðast upp Vanja frænda í Borgarleikhúsinu,“ segir Brynhildur. „Þetta er einstigi að feta því það er ekkert epískt við þetta verk eins og t.d. Shakespeare-inn sem ég gerði í fyrra,“ segir hún og á þar við hina margverðlaunuðu sýningu Borgarleikhússins, Ríkharð III. „Hér er allt svo lágstemmt að allt sem er of kómískt verður hræðilegt og allt sem er of dramatískt verður hræðilegt. Þetta er hnífsegg.“ Töfrum líkast Brynhildur ber mikið lof á leikara sýningarinnar. „Ég er með firna- sterkan hóp, með Val Frey í farar- broddi sem Vanja frænda. Þau eru stórkostleg og þegar þau byrja að fylla hlutina innan frá er það töfrum líkast. Samspil leikaranna er allt í þessari sýningu, það eru þau sem kasta fjöregginu á milli sín. Þetta er flókin leikaravinna sem krefst mik- illar hlustunar. Ég sit fyrir utan og fínstilli, dáist að þeim og hvet til dáða.“ – Er þetta aðgengilegt verk fyrir almenning? Nú veit ég að margir forðast leikverk sem eru aldar- eða aldagömul og talin klassísk. „Já, það er eins og með Ríkharð III, menn hugsa með sér guð minn almáttugur, þetta hlýtur að vera svo þungt. En svarið er já, þetta er vel aðgengilegt almenningi – enda hinn almenni leikhúsgestur ansi klár. Ég reyni eftir bestu getu að hafa góðan slátt og hreyfingu í þessu þannig að við, nútímamanneskjur, heyrum hvað fólkið er að segja, get- um samsamað okkur þessum tilfinn- ingum og elskað breyskleika per- sónanna því öll erum við sérvitur og breysk. Það er það sem persónur Tsjekhovs eru, hann er meistari í því að sýna okkur fram á að enginn er fullkominn og að það eina sem fólk vill er pláss, að fá að elska og vera elskað og hafa tilgang,“ segir Brynhildur. Hún segist geta lofað því að verkið sé fyndið. – Eru persónur verksins okkur kunnuglegar? „Jú, jú, Vanja frændi og allt hans föruneyti, við hittum þetta fólk í öll- um jólaboðum og það stendur okkur mjög nærri. Og maður getur verið ískrandi af hlátri yfir vitleysunni í einhverjum og fattað svo að maður gerði það sama í gær,“ segir Bryn- hildur og hlær við. Nýr kraftur og annað bit – Þýðingin á verkinu er ný, hún hlýtur að hafa mikil áhrif? Er mál- farið fært meira til samtímans? „Í og með. Gunnar Þorri Péturs- son fræðimaður þýðir og hann hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin í fyrra fyrir Hin smánuðu og svívirtu eftir Fjodor Dostojevskí. Hann blés okk- ur aldeilis andanum í brjóst í upp- hafi æfinga. Hann er hafsjór af fróð- leik um tímabilið, um Rússland, rússneskar bókmenntir, listir og menningu og samstarf okkar hefur verið með miklum ágætum. Það er gríðarlega mikilvægt að fá nýjar þýðingar á klassískum verkum með jöfnu millibili. Hver kynslóð verður að skoða klassíkina og fara um hana höndum og því er mikið gleðiefni að vera komin með leikritaþýðanda af yngri kynslóð sem þýðir beint úr rússnesku. Það er ekki svo að skilja að við séum að færa tungumálið algjörlega til nútímans fyrir einhvern nútíma- mann sem skilur ekkert annað en Hverfisgata og Bónus. Við þurfum bara að fá nýjan kraft og annað bit í textann. Hann er meira brakandi, ferskari og fer beint á punktinn, það sem er verið að segja, í stað þess að reyna að vera upphafið og fágað mál,“ útskýrir Brynhildur og segist hæstánægð með þýðinguna. „Hún er bæði fyndin og það er bit í henni, hald í tungumálinu og auðvelt fyrir leikarana að senda þetta til okkar og finna samsömun inni í sér. Ég er mjög spennt að bjóða upp á þessa nýju þýðingu Gunnars Péturssonar sem einnig mun koma út á bók í rit- röð Borgarleikhússins. Það merkilegasta við verk Tsjek- hovs er hvernig honum tekst að láta okkur hlæja að okkur sjálfum. Það er okkur öllum nauðsynlegt og hollt. Tsjekhov er eins og meðal, enda var hann læknir sem kunni að búa til andlega næringu líka,“ segir Bryn- hildur að lokum. Ljósmynd/Grímur Bjarnason Gaman Halldór Gylfason, Valur Freyr Einarsson og Hilmir Snær Guðnason í hlutverkum sínum í Vanja frænda á Stóra sviði Borgarleikhússins. „Hittum þetta fólk í öllum jólaboðum“  „Það merkilegasta við verk Tsjekhovs er hvernig honum tekst að láta okkur hlæja að okkur sjálfum,“ segir leikstjóri Vanja frænda, Brynhildur Guðjónsdóttir  Frumsýning á laugardag Brynhildur Guðjónsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.