Morgunblaðið - 12.03.2020, Qupperneq 26
26 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 12. MARS 2020
Smiðjuvegi 34 • gul gata Kópavogi • biljofur@biljofur.is
Viðgerðir // Bilanagreining // Varahlutir // Smurþjónusta
Hjá Bíljöfri starfa þaulreyndir bifvélavirkjar með áralanga
reynslu að baki og hafa yfir að ráða fullkomnum tölvum
til að lesa og bilanagreina bílinn þinn
Sérhæfð þjónusta fyrir
544 5151
tímapantanir
VIÐTAL
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Mér finnst eitthvað skemmtilegt við
að vera öll saman lokuð inni á okkar
eigin heimili. Mér finnst ekkert mál
að aðlagast þessu, ég les heilmikið og
þarf ekki að fara neitt eða gera neitt,
af því að ég get það ekki. Engin
pressa að hitta fólk, skutla eða
sækja. Fyrir vikið er alveg nýr takt-
ur í heimilislífinu. Þetta er mjög gott
fyrir fjölskyldu að vera lokuð inni í
tvær vikur, vera saman í núinu.
Kannski er verið að segja okkur eitt-
hvað í stóra samhenginu, þegar við
erum tekin svona niður á jörðina og
út úr öllum hraða nútíma samfélags,“
segir Marta Nordal leikkona, leik-
stjóri og núverandi leikhússtjóri
Leikfélags Akureyrar, en hún fagnar
fimmtíu ára afmæli í dag í þeim
óvenjulegu aðstæðum að hún er í
sóttkví. Marta losnar úr sóttkví um
næstu helgi og þá ætlar fjölskyldan
norður á Akureyri, hún og eigin-
maður hennar, Kristján Garðarsson,
og börnin tvö, Hjördís og Sigurður
Kristjánsbörn.
Halda tvö heimili
„Við höldum tvö heimili, eitt hér
fyrir sunnan og annað fyrir norðan,
en ég bý alveg fyrir norðan, enda í
fullu starfi hjá Leikfélaginu. Við fór-
um öll beint í sóttkví hér fyrir sunn-
an þegar við komum frá Veróna þar
sem við vorum á skíðum. Ekkert
okkar hefur veikst, sem betur fer, en
ég hef áhyggjur af útbreiðslu veir-
unnar og áhrifa hennar t.d. á leik-
húsin, ef af samkomubanni verður á
Íslandi. Afleiðingarnar af slíku verða
auðvitað mjög alvarlegar.’’
Marta ætlar að halda upp á fimm-
tugsafmælið þó að það verði ekki
með þeim hætti sem hún hafði ráð-
gert áður en til sóttkvíar kom.
„Ég ætlaði ekki að halda neina
veislu en til stóð að við færum í aðra
skíðaferð í tilefni stórafmælisins til
Sviss og brottför átti að vera síðasta
sunnudag. Nú þarf að bregðast við
breyttum aðstæðum og við fjölskyld-
an ætlum að hafa galakvöld hér
heima hjá okkur, klæðum okkur upp
í okkar fínasta púss og ég ætla að
elda brjálæðislega góðan mat. Þetta
verður kampavín, kavíar og kósí í
litla sóttkvíarheiminum okkar, án
gesta.“
Ég er ekki pönkari í eðli mínu
Þegar Marta lítur yfir farinn veg
við tímamótin að fagna hálfrar aldar
afmæli, segist hún hafa átt góða
æsku.
„Ég var frekar meðfærileg lítil
stúlka og kát að eðlisfari. Ég átti
auðvelt með að aðlaga mig og var fé-
lagslega fær, frekar þæg og stillt. Ég
er yngst í sex systkina hópi og marg-
ir frekir komnir á undan mér, svo
það var ekkert verið að agnúast mik-
ið í mér. Systur mínar sáu heilmikið
um mig og reyndu að ala mig eitt-
hvað upp,“ segir Marta og hlær.
„Æskuheimili mitt var alla tíð
mannmargt, því pabbi, Jóhannes
Nordal, var í þannig starfi, seðla-
bankastjóri. Ég var því alin upp í
miklu fjölmenni. Foreldrar mínir
fóru oft til útlanda og fyrir vikið var
ég mikið í pössun hjá Hjördísi Guð-
mundsdóttur, æskuvinkonu mömmu.
Ég var mikið þar á ákveðnu tímabili
og átti þá í raun tvö heimili. Ég skírði
dóttur mína eftir Hjördísi, enda var
hún fóstra mín. Systkini mín fóru
ekki til Hjördísar og það var frábært
fyrir mig að fá ein svona mikla at-
hygli, sem ég fékk ekki eins mikið af
heima hjá mér. Ég var prinsessa hjá
Hjördísi.“
Marta segir það hafa verið góð ör-
lög að vera sett í pössun hjá Hjördísi,
því í sömu götu bjó Eva María Jóns-
dóttir.
„Við Eva kynntumst því við
þriggja ára aldur og höfum haldið
okkar vinskap allar götur síðan. Lífið
færir manni oft gjafir sem maður átt-
ar sig ekki á fyrr en löngu seinna
hversu dýrmætar eru. Allt hefur ein-
hverja merkingu, sumt gengur upp,
annað ekki, en það verður oftast til
þess að eitthvað annað bíður manns,“
segir Marta og rifjar upp að hún og
Eva hafi gert í því að klæða sig í
gömul og hippaleg föt þegar þær
voru á táningsaldri, sem vakti litla
lukku hjá foreldrunum.
„Ég er ekki pönkari í eðli mínu og
ég hef aldrei haft þörf fyrir að ganga
gegn mínu uppeldi eða umhverfi. Ég
fékk helst útrás í fatavali og slíkum
stælum. Ég var aldrei með uppsteyt,
þó að auðvitað hafi ég fiktað við hitt
og þetta, eins og allir unglingar.“
Marta æfði dans frá unga aldri og
leiklistaráhuginn kviknaði snemma.
„Ég lék í skólaleikriti í Laugar-
nesskóla og ég tók það mjög alvar-
lega, enda voru prufur fyrir val í
hlutverkin. Ég fór líka í leiklisti á
unglingastiginu í Laugalækjarskóla
og ég lék með Herranótt í fram-
haldsskóla. Ég veit ekkert hvaðan
þessi leiklistaráhugi kemur, reyndar
getur fyrsta kveikjan hafa verið
þegar ég var fimm ára og Salvör
systir mín tók mig með á sýningar á
Kardimommubænum í Þjóðleikhús-
inu, af því hún var að dansa í sýning-
unni. Systir mín þurfti oft að passa
mig og hún varð að gjöra svo vel að
taka mig með, þó svo að hún væri að
sýna. Hún fékk leyfi í leikhúsinu fyr-
ir því að ég sæti í gryfjunni hjá
hljómsveitinni, þegar hún þurfti að
druslast með mig með sér á nokkrar
sýningar. Þetta er mér afar minnis-
stætt.“
Enginn dans á rósum
Eftir að Marta útskrifaðist úr MR
langaði hana að læra leiklist en for-
eldrunum fannst það alveg fáránlegt.
„Pabbi vildi að ég færi í háskólann
og lærði „eitthvað almennilegt“. Ég
skráði mig í sagnfræði og pabbi var
mjög ánægður með það val, en ég fór
í prufur í leiklistarskóla í Englandi
og komst inn. Þá fékk ég fullan
stuðning heima fyrir. Að því námi
loknu fór ég að vinna hjá Leikfélagi
Akureyrar og síðar Leikfélagi
Reykjavíkur og minn leikaraferill
hófst,“ segir Marta og bætir við að
leiklistarbransinn sé enginn dans á
rósum. „Þegar ég lít til baka sé ég að
ég er reynslunni ríkari. Ég hef lært
mikið og ég hefði getað gefið sjálfri
mér ungri mjög góð ráð núna þegar
ég er orðin fimmtug,“ segir hún og
hlær.
„Það er sérstakt að vera komin á
þann aldur að geta miðlað til yngri
kynslóðar í mínu fagi. Mér finnst ég
hafa eitthvað að gefa, af því að ég hef
komið svo víða við, hef prófað margt í
þessum bransa og þekki vel að vera í
miklu harki. Þetta er orðinn litríkur
og skemmtilegur ferill. Ég er ekki
manneskjan sem hefur alltaf verið á
samningi hjá stofnun, eins og þeir
leikarar sem eru fastráðnir hjá stóru
húsunum. Fyrir vikið hafa launin
stundum verið stopul og ég þurft að
búa til mín eigin verkefni. Þetta er
mikil lexía og er veruleiki margra
listamanna, að þurfa að vera í stans-
lausu harki og geta aldrei séð neitt
fram í tímann. Ég var verkefnaráðin
á árssamningum hjá Borgarleikhús-
inu í nokkur ár, en var aldrei á sum-
arlaunum. Þegar ég hætti að leika
árið 2007 fór ég í lausamennsku sem
leikstjóri og stofnaði minn eigin leik-
hóp með Eddu Björgu. Ég fór í
óvissurússíbana, sem er veruleiki
margra í leiklist. Heil listamannsævi
sumra er þannig.“
Sunna Borg gaf mér gott ráð
Marta segir það hafa verið æðis-
legt að fá leikhússtjórastöðuna fyrir
norðan.
„Hjá Leikfélagi Akureyrar er mik-
il uppbygging í gangi og mörg tæki-
færi fyrir mig sem skapandi lista-
mann. Öll mín reynsla kemur heim
og saman í þessu starfi. Þarna hef ég
tækifæri til að miðla af minni reynslu
og gefa þeim listamönnum tækifæri
sem ég hef trú á. Maður þarf að hafa
innistæðu og þekkingu til að vita
hvaða listamenn er spennandi að
veðja á og hverja ekki. Þessi staða er
tækifæri fyrir mig til að hafa áhrif á
hvernig listin og leikhúsið þróast og
þroskast og hvaða samtal það vill
eiga í við samfélag sitt. Við viljum
teygja okkur til fólks og stuðla að
listuppeldi og vaxandi leikhúsáhuga.
Jafnframt viljum við vera djörf og
fara ótroðnar slóðir, taka áhættu og
spyrja spurninga. Fram undan eru
því geggjað spennandi tímar hjá
mér.“
Marta fór ung norður til Akureyr-
ar til að leika eitt af sínum fyrstu
hlutverkum, í Vefaranum mikla frá
Kasmír. „Ég kynntist frábæru fólki á
þessu eina og hálfa ári fyrir norðan
og fékk á tilfinninguna að ég ætti eft-
ir að koma aftur. Þegar ég svo fyrir
ári flutti norður til að taka við starfi
leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar,
öllum þessum árum síðar, þá var
þetta allt eitthvað svo rétt. Mér
finnst frábært að geta núna gefið
ungu fólki ákveðið veganesti út frá
því sem ég hef lært af minni reynslu,
meðal annars að verða fyrir mótlæti.
Ég held að bestu ráðin séu oft frá
manneskjum sem hafa ekki siglt
þægilega í gegnum sinn feril. Við
lærum mest af mistökum og að þurfa
að takast á við eitthvað. Ég segi við
mitt unga fólk í faginu að passa sig
að vera alltaf með jákvæða afstöðu til
vinnunnar, vera vinnusöm, hugrökk
og taka listrænar áhættur. Hlusta á
hjartað. Öðruvísi kemst maður ekk-
ert áfram hvorki sem manneskja eða
listamaður. Sjálf fékk ég rosagott
ráð frá Sunnu Borg leikkonu þegar
ég var ung að leika fyrir norðan. Hún
tók mig undir sinn arm, þessi drottn-
ing, og sagði:
„Marta, mundu að þeir fiska sem
róa. Ekki sitja og bíða, heldur sæktu
þér verkefni. Ekki halda að þetta
gerist alltaf sjálfkrafa, þannig er það
ekki í leiklistinni.“
Fagnar fimmtugsafmæli í sóttkví
Morgunblaðið/Eggert
Stórafmæli „Þetta verður kampavín, kavíar og kósí í litla sóttkvíarheiminum okkar, án gesta,“ segir Marta.
Frí Marta með börnunum sínum tveimur, Hjördísi og Sigurði, í fríi í útlandi.
Marta Nordal þurfti að bregðast við breyttum aðstæðum Hún lítur yfir farinn veg á stórafmælinu
Alin upp í fjölmenni Mestu skiptir jákvæð afstaða, vinnusemi, hugrekki og að hlusta á hjartað
Morgunblaðið/Þorkell
Í ham Marta í hlutverki Höllu í Segðu mér allt eftir Kristínu Ómarsdóttur í
Borgarleikhúsinu 2005. Marta var tilnefnd til Grímunnar fyrir hlutverkið.