Skessuhorn


Skessuhorn - 28.10.2020, Síða 16

Skessuhorn - 28.10.2020, Síða 16
2 Gefið út 28. október 2020 í tilefni 50 ára afmælis Brákarhlíðar 31. janúar 2021. Útgefandi: Brákarhlíð, hjúkrunar- og dvalarheimili, Borgarbraut 65 Borgarnesi. Ábyrgðarmaður: Björn Bjarki Þorsteinsson. Umsjón með útgáfu: Skessuhorn – Fréttaveita Vesturlands. Ritun efnis: Anna Rósa Guðmundsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Gunnhildur Lind Hansdóttir, Jón G Guðbjörnsson, Magnús Magnússon og fl. Ljósmyndir: Anna Rósa Guðmundsdóttir, Gunnhildur Lind Hansdóttir, Ómar Örn Ragnarsson, Magnús Magnússon, ljósmyndasöfn Brákarhlíðar og ljósmyndasafn Skessuhorns. Forsíðumynd: Ómar Örn Ragnarsson. Umbrot: Skessuhorn - Ómar Örn Sigurðsson. Dreifing: Til áskrifenda Skessuhorns og á öll heimili á starfssvæði Brákarhlíðar. Upplag 5000 stk. Prentun: Landsprent. Ágæti lesandi, Brákarhlíð á sér langa og merka sögu eins og rak-ið er hér í blaði þessu. Full- trúar Brákarhlíðar, stjórn og starfs- menn, hafa unnið að þessu afmæl- isblaði undir öruggri handleiðslu starfsmanna héraðsfréttablaðs- ins Skessuhorns og vil ég hér, f.h. okkar í Brákarhlíð, þakka því góða fólki gott samstarf við undirbún- ing og vinnu við þetta afmælisblað heimilisins. Það styttist í fimmtugsafmæli Brákarhlíðar sem verður 31. janúar 2021. Við höfðum sett okkur það markmið, fyrir um ári síðan, að hafa fimmtugasta starfsárið töluvert líflegt, með uppákomum og samkomum í tilefni þessara merku tímamóta. Sett var saman afmælisnefnd sem átti að halda utan um verkefnið. En svo kom Covid 19, sending sem enga óraði fyrir um áhrifin af. Allt var sett á ís varðandi hátíðarhöld, en eitt hélt sér. Það er þetta blað sem við vildum gefa út til þess að kynna fyrir samferðafólki okkar í héraði og öðrum vildarvinum fyrir hvað Brákarhlíð, hjúkrunar- og dvalarheimili, stendur. Eitt af því sem við höfum stefnt að nú á afmælisári er að byggja gróðurhús í og við garð heimilisins. Óformleg söfnun fór af stað og viðbrögðin urðu hreint út sagt ótrúleg. Félagasamtök og einstaklingar hafa nú þegar fært Hollvinasamtökum heimilisins til þessa verkefnis rúmlega tvær milljónir króna að gjöf. Hlé hefur verið á undirbúningi undanfarið en við vonumst til að í kringum hinn eiginlega afmælisdag getum við hrint af stað frekari vinnu og formlegri söfnun og að sumarið 2021 rísi gróðurhús hjá okkur. Gaman er að segja frá því að undanfarin tvö ár höfum við skreytt garðinn okkar með sumarblómum sem hefur verið sáð til af heimilis- og starfsfólki og nostrað við fram eftir vori innanhúss hjá okkur, gróðurhús myndi t.d. bæta þann aðbúnað verulega sem og auka möguleika okkar til frekari vinnu. Hollvinasamtök heimilisins voru nefnd hér að ofan. Þau samtök voru sett á laggirnar árið 2009 og síðan þá hefur nánast öllu gjafafé og styrkjum verið beint í þá átt. Minningarsjóður sem hefur haldið utan um sölu á minningarkortum hefur einnig runnið í sjóð Hollvinasamtakanna. Í gegnum Hollvinasamtökin höfum við á undanförnum tólf árum náð að endurnýja öll rúm heimilismanna auk þess að bæta annan tækjakost varðandi umönnun verulega. Þetta fimmtugasta starfsár hefur svo sannarlega verið lærdómsríkt. Það hefur sýnt Brákarhlíð í fimmtíu ár okkur að við mannfólkið ráðum ekki öllu því sem gerist í kringum okkur eins og við héldum fyrir nokkrum mánuðum síðan. Ef einhver hefði sagt mér fyrir tíu mánuðum síðan að við myndum loka fyrir heimsóknir, skipta starfsmannahópnum upp í hópa, við myndum fara með andlitsmaska út að versla, eða hvað það nú er sem við fáumst við þessi misserin, hefði ég haldið að viðkomandi væri í besta falli galinn. Starfsfólk heimilisins hefur nánast verið í sjálfskipaðri sóttkví og nálgast viðfangsefnið af mikilli auðmýkt sem er alls ekki sjálfgefið en sýnir hug þess til heimilismanna í verki. Raunveruleikinn er á tíðum miskunnarlaus á margan hátt og eru Covid áskoranir ein birtingarmynd þess. Vil ég hér nota tækifærið til þess að þakka heimilisfólki í Brákarhlíð, okkar frábæra starfsfólki, aðstandendum og öðrum vildarvinum fyrir einstök viðbrögð á allan hátt við þeim aðgerðum sem við höfum gripið til, það er ómetanlegt að finna þann hlýhug allan og mörgum verður seint fullþakkað. Brákarhlíð er á margan hátt sérstakur vinnustaður þar sem að jafnaði eru um 80 manns á launaskrá í mismunandi starfshlutföllum. Við starfsfólkið störfum inn á heimili þeirra sem í Brákarhlíð búa, heimilismenn eiga sínar vistarverur og í kringum það þarf að skapa bæði notalegan heimilisbrag sem og skilvirkan vinnustað á ýmsan hátt. Heimilismenn eru á bilinu 52 til 58 eftir því hverjar heimildir okkar eru frá ríkisvaldinu. Þannig að við erum um 130 manns sem myndum það samfélag sem í Brákarhlíð býr og starfar, einstaklingar á aldursbilinu 16 ára og upp í stundum 100 ára, og já allt upp í 104 ára gamalt fólk, sem myndar samfélag sem samsvarar íbúatölu í litlu þorpi. Við höfum verið lánsöm hvernig úr hefur spilast og þar skiptir mannauður okkar og kunnátta í starfsmannahópnum öllu máli. Á þeim tíma sem undirritaður hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra heimilisins hef ég verið lánsamur með samstarfsfólk. Allur starfsmannahópurinn skiptir þar máli, þær Halla Magnúsdóttir, sem er forstöðumaður þjónustusviðs, og Jórunn María Ólafsdóttir, sem er forstöðumaður hjúkrunarsviðs, mynda stjórnendateymi heimilisins og höfum gert það síðan snemma árs 2008. Einnig höfum við verið lánsöm hvað varðar skipan einstaklinga í stjórn heimilisins sem ber ábyrgð á rekstri heimilisins. Brákarhlíð er sjálfseignarstofnun með trygga bakhjarla í sveitarfélögunum þremur sem eru á starfssvæði heimilisins en það eru Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur og Skorradalshreppur. Einnig hefur, frá fyrstu tíð, Samband borgfirskra kvenna og kvenfélögin öll verið ötulir bakhjarlar. Stjórn nú er þannig skipuð að Jón G. Guðbjörnsson er formaður, varaformaður er Magnús Smári Snorrason og aðrir stjórnarmenn eru Lára Kristín Gísladóttir, Sigrún Ólafsdóttir, Guðsteinn Einarsson og Páll S. Brynjarsson. Áskoranir þær sem við blöstu þegar undirritaður tók við góðu búi af Margréti Guðmundsdóttur voru töluverðar. Um árabil hafði verið í gangi barátta við ríkisvaldið um heimild til að komast í endurbætur á húsakosti heimilisins og hafði því miður lítt miðað. En loks tókst það og fór allt á skrið árið 2010. Þá tóku við nýjar áskoranir við skipulagningu nýs húsnæðis og aðrar áskoranir við að halda starfseminni gangandi þrátt fyrir framkvæmdir innan- og utanhúss. Þegar sá tími, framkvæmdatíminn allur sem varði í raun um fjögur ár, frá 2010 til 2014, er rifaður upp getur maður ekki annað en dáðst að æðruleysi starfsmanna og heimilisfólks. Hávaði, rykmyndun og skert aðstaða haggaði ekki nokkrum manni og hlutirnir gengu sinn gang í þeirri bjargföstu trú að betri tíð væri í vændum, og svo fór, 17. júní 2014 var endurbætt Brákarhlíð komin í gagnið þó eilítill frágangur væri eftir. Enn eru áskoranir í rekstri Brákarhlíðar og það gerir dagana bara meira ögrandi að fást við heldur en ef allt væri á lygnum sjó. Samskipti við ríkisvaldið taka sinn tíma og við erum ætíð að berjast fyrir fjölgun rýma því biðlistinn er langur og ennfremur er barátta um að fá tryggari rekstrargrundvöll því alltaf viljum við gera betur fyrir heimilisfólk og okkar góða starfsfólk. Heildarvelta Brákarhlíðar er farin að losa 600 milljónir á ári og koma um 95% tekna heimilisins í gegnum svokölluð daggjöld sem ríkisvaldið greiðir til heimilisins. Aðrar tekjur eru vegna sölu á matarbökkum og leigutekjur og síðan höfum við notið húsnæðisframlags frá sveitarfélögunum og þannig náð að standa algerlega í skilum vegna lántökukostnaðar sem kom til vegna gríðarlegra endurbóta á húsakosti og stendur það framlag einnig undir viðhaldskostnaði á húsakosti okkar. Á tímamótum sem þessum er mörgum sem ber að þakka, einstaklingar og félagasamtök hafa verið dyggir stuðningsaðilar okkar, samanber áðurnefnd kvenfélög, Lionsklúbbana í héraði og fleiri og fleiri sem hafa fært heimilinu að gjöf stórar og verðmætar gjafir sem nýst hafa til búnaðarkaupa. Einnig hafa núverandi og fyrrverandi starfsmenn verið óþreytandi við að aðstoða við ýmis verkefni, innan og utan vinnutíma og líka eftir að starfsmenn hafa verið hættir að vinna, samanber aðstoð við kaffihús sem starfrækt var síðastliðinn vetur og við vonandi getum endurvakið fljótlega, allt ómetanlegt á svo margan hátt. Það er ósk okkar sem að þessari blaðaútgáfu stöndum að þetta afmælisrit veiti ákveðna innsýn í það umhverfi sem við störfum í. Brákarhlíð, áður Dvalarheimili aldraðra, hefur allt frá upphafi notið mikillar velvildar í héraðinu öllu, vonandi verður svo áfram og að heimilið nái, og fái, að vaxa áfram og dafna, öldruðum íbúum á starfssvæðinu og samfélaginu öllu til heilla. Björn Bjarki Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Brákarhlíðar. Hluti starfsfólks og íbúa í Brákarhlíð á fallegum haustdegi nýverið. Ljósm. Gunnhildur Lind Hansdóttir. Björn Bjarki Þorsteinsson.

x

Skessuhorn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.