Morgunblaðið - 03.12.2020, Page 43

Morgunblaðið - 03.12.2020, Page 43
MINNINGAR 43 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 3. DESEMBER 2020 við fórum yfir lífshlaupið fyrir stuttu var hans upplifun sú að hann hefði lifað skemmtilegu lífi. Hann átti tvenn unglingsár, seinna tímabilið í París, en þau að mestu án mín. Allt frá æsku, skólaárum, hjónabandinu, lífinu í París og Íslandi var það skemmtilegasta sem hann hafði gert og hann sæi ekki eftir neinu. París var uppáhaldið hans og heimsókn þangað var mikið æv- intýri, hvort sem það var í menningartúr eða að hlaupa á línuskautum ásamt hundruðum annarra skautara. Að upplifa upplýsta borgina, kaffihús og menningu með þeim hætti er ógleymanlegt. Hann lýsir þessu í ljóðinu „Too much love will kill you“, en benti líka á að lesa þarf ljóðið um leið og hlustað er á samnefnt lag Queen í botni. Og frönsku vínin áttu að vera með græna tappanum, þá lærði mað- ur það! Gunnar var fagurkeri, um það vitna þær framkvæmdir sem hann tók sér fyrir hendur; gistiheimilið, íbúðin hans í Garðastrætinu, falleg list með upprunalegum frágangi. Vestur- gatan, heimili þeirra Eddu, var listaverk, sem og Sjólyst, sum- arhúsið á Fáskrúðsfirði. Hvert horn var hugsað til enda. Lista- verk á veggjum og upprunalegir skrautmunir Muggs, sem hann byrjaði að safna löngu áður en þeir urðu aftur vinsælir. Ljóðin, nýútgefin í TAKK og tileinkuð móður hans, eru með sama blæ; allt hugsað alla leið og djúp merking í hverju orði og orðaröðun. Og flest er með skírskotun í eitthvað sem kannski enginn veit nema Gunn- ar hefði getað útskýrt og tengt við atriði í lífi sínu eða annarra. Ég náði að fara yfir rúmlega hálfa bókina með honum daginn áður en hann lést og það stóð til að klára það. „Komdu fljótt aft- ur“ voru kveðjuorðin hans til mín, skrifuð í stílabók. Við brölluðum margt frá því við vorum litlir pollar og aldrei bar skugga á vináttuna. Við átt- um saman dúfur, sýndum dans í sjónvarpi og víðar, stálum löx- um, brutum rúður, sátum nið- urlútir alltof ungir í lögreglu- bílnum eftir fyrsta fylleríið, heilluðumst af Queen og Bowie, Hallærisplaninu, kynntumst stelpum, skíðuðum, fórum í úti- legur, vorum saman í sjó- mennsku, vorum mótorhjólatöff- arar, stóðum næturvaktir við færibandið í bakaríinu í Svíþjóð eins og Chaplin og við Auður urðum samferða þeim Eddu í barnauppeldinu og fjölskyldulíf- inu. Gunnar var bæði góður vin- ur og bróðir og hans verður sárt saknað. Guðmundur Tryggvi Sigurðsson. Fyrir sautján árum eða svo, um haustið, sóttum við Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, vinkona mín, málþing í París á vegum Société de Géographie á Boule- vard Saint-Germain þar sem fjallað var um Ísland. Við kom- um þangað á bíl alla leið frá Normandí. Málþingið var mjög áhugavert, þar töluðu miklir öð- lingar, meðal annars Vigdís Finnbogadóttir og Sigurður Pálsson heitinn, minnir mig. Eftir málþingið var samkoma og þar hitti ég konu að nafni Sigríður Albertsdóttir, guð hvað ég var glaður að hitta hana af því að ég hafði lesið bókmennta- greinar og ritdóma eftir hana sem höfðuðu mikið til mín. Á þessari samkomu var líka maður sem ég þekkti ekki en hafði auðvitað heyrt um af því að hann kenndi íslensku í Sor- bonne-háskóla: Gunnar Þor- steinn Halldórsson. Um leið og við Sigríður og Gunnar fórum að tala saman gerðist eitthvað sem gerist ekki oft, eitthvað mjög fallegt. Ég fann strax að við smellpössuðum saman, að við yrðum strax vinir út af lífinu – sem reyndist vera dagsatt. Við fengum okkur glas á bar á Bou- levard Saint-Michel, röbbuðum, hlógum, töluðum á léttum og djúpum nótum til skiptis, um allt mögulegt. Svo kom líka í ljós að við áttum sameiginlegan vin: Þröst Brynjarsson. Síðan höfum við Gunnar alltaf haldið sambandi, við hittumst þegar ég var í París, einu sinni kom hann til Normandí á Boré- ales-hátíðina með móður sinni, sem varð líka vinkona mín um leið – og þessar stundir eru mér kærar. Í hvert skipti sem ég kom til Íslands hittumst við, oftast gisti ég hjá Þresti en stundum hjá Gunnari í fallega húsinu hans við Garðastræti. Við vinirnir fengum okkur mat saman, hann eldaði yndislega rétti ofan í okk- ur og við spjölluðum langt fram á nótt. Gunnar var brosandi maður sem þótti vænt um aðra, kunni að njóta lífsins, hann var vinur sem mann langaði að knúsa og knúsaði bara. Ég á enn erfitt með að trúa að hann sé farinn, tekinn frá okkur af þessum hræðilega sjúkdómi. Haustið er komið til Frakklands, himinninn grætur, Gunnar er farinn, mig langar bara að segja einföld orð: Far þú vel, hjartað mitt, takk fyrir allt og allt, það voru mikil for- réttindi og hrein hamingja að fá að kynnast þér og vera vinur þinn, en mig langar líka að segja að þú ert samt hér hjá mér, hjá okkur öllum sem þótti vænt um þig, því þeir sem mað- ur hefur elskað hverfa manni aldrei. Ég, Claude, eiginkona mín, og Jeanne, tengdamóðir mín, viljum votta fjölskyldu þinni, Eddu, börnum og móður þinni Önnu dýpstu samúð. Eric Boury. Gunnar Þorsteinn Halldórs- son, vinur okkar og söngbróðir, var einstaklega lífsglaður mað- ur. Hann naut þess að vera í góðum félagsskap og var óspar á að deila gleði sinni með öðr- um. Það var alltaf stutt í smit- andi hláturinn hjá Gunnari og sá hlátur sló tóninn fyrir sam- veru okkar vinanna, hvort sem tilefnið var kórsöngur eða visk- ísmökkun. Þetta tvennt fór raunar oft saman á æfingum, enda ljóst að viskísopinn er söngolía góð og að vinátta og samsöngur nærist vel á „lífsins vatni“. Leiðir okkar lágu fyrst sam- an í Háskólakórnum, þar kvikn- aði áhuginn á að stofna hóp til að syngja lög í léttlyndari kant- inum. Úr þessum jarðvegi spratt acapella-oktettinn Norð- urhjaratröllin vorið 1985 og þar söng Gunnar 1. bassa eins og hann gerði ávallt síðar. Að námi loknu dreifðumst við söngbræð- ur vítt um veröld, en tíndumst svo heim hver af öðrum undir lok síðustu aldar. Þá fórum við aftur að hittast, dusta rykið af gömlum uppáhaldslögum og finna ný sem okkur langaði að syngja. Um síðir vorum við komnir með nógu viðamikla efn- isskrá til að halda okkar fyrstu eiginlegu tónleika. Þeir fóru fram í Hlaðvarpanum í júní 2002 og þar urðu fagnaðarfundir með gömlum félögum úr Háskóla- kórnum, auk annarra vina. Gleðipinninn Gunnar átti stóran þátt í að gera tónleikana að söngskemmtun. Hátindi frægð- arinnar náðu Norðurhjaratröllin þegar þau hituðu upp fyrir Fræbbblana á Vídalín sama ár. Eftir það var sungið við ýmis tækifæri næstu 3-4 árin en síð- an tvístruðust tröllin upp um fjöll og firnindi. Gunnar var þó staðráðinn í því að hóa okkur vinunum aftur saman til söngs í sextugsafmæli sínu í apríl sl., en þá skyldi blása til mikillar gleði- veislu eins og Gunnari einum var lagið – tilhlökkunin var mik- il hjá okkur. Acapella-söngur í sínu tær- asta formi er söngur án undir- leiks og án stjórnanda. Söngv- ararnir þurfa því að reiða sig náið hver á annan, stilla saman raddir, finna taktinn, mynda og varðveita samhljóminn. Virk hlustun skiptir miklu máli í slík- um söng en ekki síður ánægjan og lífsfyllingin sem menn upp- lifa við það að rödd þeirra renni, um stund, saman við aðrar og myndi stóra og fallega heild. Allra mikilvægust er þó vinátt- an – vinátta sem er stærri en hljómurinn sjálfur. Menn koma ekki saman ár eftir ár til að syngja nema þeir hafi unun af því að hittast – söngurinn er því líka óður til vináttunnar. Þar var Gunnar í essinu sínu, hann geislaði frá sér söngelsku, góð- vild og lífsgleði og því voru fundir með honum ávallt fagn- aðarfundir. Gunnar var hagur á hönd sem hug og hagmæltur vel, eins og lóan gat hann kveðið burt öll leiðindi. Það var Gunn- ari líkt að þakka sínum nánustu og kveðja með útgáfu ljóðabók- ar í miðjum veikindum sínum. Við kveðjum góðan vin með söknuði og trega. Skarð hans verður vandfyllt en eftir sitja minningarnar. Orðin, hnyttnin og hláturinn óma enn í huga okkar sem horfum á eftir vini inn í Sumarlandið. Gunnar Þor- steinn Halldórsson auðgaði til- veru okkar allra og brosið hans lifir áfram í söng okkar og hjarta. Hvíl þú í friði, elsku vin- ur. F.h. Norðurhjaratröllanna, Þorvarður Árnason. Elsku vinur okkar Gunnar Þorsteinn lést eftir stutta og snarpa baráttu við krabbamein. Hann var sextugur að aldri og elskaður af börnum sínum þremur, móður, systkinum, barnabörnum, fjölskyldu og vin- um. Við kynntumst Gunnari fyrst fyrir rúmlega 20 árum þegar við keyptum húsið sem hann og Edda höfðu búið í ásamt börnum sínum á Vest- urgötu 44. Einn daginn kom hann við með dóttur sína Bjarn- eyju og tilkynnti okkur að einn góðan veðurdag myndi Bjarney kaupa húsið aftur – hvort sem okkur líkaði betur eða verr! Við urðum vinir upp frá því. Gunnar hafði endurbætt þetta gamla hús byggt árið 1882 af þeirri snilld sem honum var einum lagið. Hann var einstaklega handlaginn og hvert einasta handtak við endurbætur á Vest- urgötunni var úthugsað. Hann hafði hannað draumahúsið okk- ar. Þær eru ófáar íbúðirnar og húsin sem Gunnar endurbætti með miklum sóma. Húsið hans Sjólyst á Fáskrúðsfirði ber því fagurt vitni sem og gistiíbúð- irnar sem hann átti og rak síð- ustu árin. Þeir eru ófáir gest- irnir sem orðið hafa á vegi okkar í gegnum árin sem lofuðu gestgjafa sinn hástöfum. En við minnumst Gunna fyrst og fremst fyrir dásamlegar stundir í París í gegnum árin. Gunnar kenndi íslensku um ára- bil við Sorbonne-háskóla og var dáður af nemendum sínum. Það var einstaklega gefandi að vera árlegur gestakennari hjá honum og ræða við franska nemendur hans sem höfðu einlægan áhuga á öllu því sem viðkom Íslandi. Gunnar hafði einstakt lag á því að virkja nemendur og samræða um íslensk stjórnmál var skemmtileg. Það var alltaf tilhlökkunar- efni að koma til ástarborgarinn- ar og vita að við ættum fund með Gunna í vændum. Þá hitt- umst við iðulega í Mýrinni og sátum úti á L’Open Cafe eða Les Marronniers svo Gunni gæti reykt smávindlana sína á meðan við slúðruðum, hlógum og skoðuðum alla sætu strák- ana. Gunni hafði kjark og þor til að brjóta af sér hlekki sam- félagsins og vera hann sjálfur. Hann Gunni var svo skemmtilegur. Alltaf skarpur og hugsandi en líka jákvæður, póli- tískur og listrænt þenkjandi. Nú síðast í upphafi árs áttum við dásamlegar stundir í París þar sem við þræddum sögufrægar götur Mýrarinnar og uppáhalds- barina okkar. Gunnar kenndi okkur að njóta borgarinnar. Hann var mikill íslenskumað- ur og hafði einstakt lag á mál- inu. Hann var pólitískur, ein- staklega vel inni í íslenskri þjóðfélagsumræðu þrátt fyrir að dvelja langdvölum í París og fór ekki leynt með afstöðu sína til þjóðþrifamála ef sá var á honum gállinn. Gunni var réttsýnn mannréttindasinni. Gunnar gaf út ljóðabók á síð- ustu dögum lífs síns. Hún er al- gjörlega mögnuð og vitnisburð- ur um hnyttni hans, gáfur, tilfinningalíf og orðsnilld. Bókin heitir Takk og móðir hans og systir komu með eintak til okk- ar á Túnsberg eftir andlát Gunnars. Hann hafði sjálfur skrifað persónulega kveðju til okkar: „Með hlýjum kveðjum og hjartans þökk fyrir vináttustu- ndir og margar góðar minningar héðan og þaðan.“ Okkar er að þakka elsku vinur. Takk fyrir allt. Við munum sakna þín sárt. Far í friði. Fjöl- skyldu Gunnars vottum við inni- lega samúð. Felix og Baldur. Gunnar Þorsteinn vinur minn var hvers manns hugljúfi. Glað- værð, elja, örlæti og vinnusemi eru orð sem koma upp í hugann á kveðjustund. Eins og gerst hefði í gær man ég þegar við Gunnar hitt- umst fyrst, þótt liðnir séu rúm- lega þrír áratugir. Ungu kenn- arahjónin, Gunnar og Edda, voru nýlega komin til kennslu- starfa á Fáskrúðsfirði, sem hlýr, ferskur sunnanvindur. Áður en langt um leið voru þau komin á kaf í félagslífið á staðnum, kirkjukórinn, leik- félagið og hjónaballsnefndina – voru allt í öllu af eldmóði og glaðværð. Mörgum þótti glap- ræði að kaupa Sjólyst, elsta íbúðarhús bæjarins, til að end- urgera það. En þau létu það sem vind um eyru þjóta og með þrotlausri vinnu tókst ætlunar- verkið. Alla tíð síðan hefur Sjó- lyst verið bæjarprýði hin mesta. Völundurinn útsjónarsami hafði lyft grettistaki, einu af mörgum. Gunnar var einstaklega bón- góður. Það var auðsótt að fá Sjólyst að láni hvort sem var til dvalar eða til að halda boð fyrir heiðursgesti Franskra daga með hlátrasköllum og söng sem barst um allan fjörð. Það var tómt mál að tala um að greiða leigu fyrir. Bara njóta, drekka kaffið úr Bessastaðastellinu og skrifa í gestabókina. Fullir bjartsýni fyrir tæpum aldarfjórðungi stofnuðum við ásamt fleirum félag sem hafði það að markmiði að endur- byggja Franska spítalann á Fá- skrúðsfirði. Óbilandi trú hug- sjónamannsins Gunnars kom sér vel í risastóru verkefni. Þó að félaginu hafi ekki orðið káp- an úr því klæðinu hélt það draumnum á lofti, uns Minja- vernd tók verkið að sér. Gunnar var harðduglegur ævintýramaður, gerði upp íbúð- ir á sumrin, sem hann leigði jafnharðan út, en bjó í París á veturna, fyrstu árin við ís- lenskukennslu í Sorbonne. Æv- inlega stóðu dyr hans í Mýrinni opnar fyrir vinum og fjölskyldu. Þaðan er margra dýrðardaga að minnast. Meðal annars eru ljós- lifandi unaðsstundir í Lúxem- borgargarðinum með baguette, pylsur og osta í félagsskap móð- ur Gunnars, Önnu, sem nú sér á bak öðrum syni sínum yfir móð- una miklu. Mikill harmur er nú kveðinn að henni og fjölskyld- unni allri. Í París orti Gunnar ljóð sem flest voru geymd niðri í skúffu. Þegar hann var orðinn sárþjáð- ur af krabbameini tók hann þá ákvörðun að gefa nokkur þeirra út á bók og sendi vinum og kunningjum árituð eintök. Ljóð- in eru forkunnarfögur og bera vitni fljúgandi greind hans, næmi og listfengi. Draumur Gunnars var að sitja við opinn glugga í Sjólyst í ellinni, semja ljóð og skáldsög- ur, anda að sér sjávarilminum og hlusta á fagran fuglasöng í bland við öldugjálfrið. Það hefði farið honum vel. Blessuð sé minning Gunnars í Sjólyst. Albert Eiríksson. Fáir hafa markað jafn djúp spor á lífsleiðinni og Gunnar gerði hjá árgangi ’73 á Fá- skrúðsfirði. Árgangi sem hafði lært það í gegnum skólagöng- una að hann væri óalandi, óferj- andi og ekki húsum hæfur, enda baldinn og hress hópur. Fyrstu átta árin af skólagöngunni ein- kenndust af miklum kennara- skiptum, nýr umsjónarkennari hvert ár, jafnvel tveir. Í upphafi skólaárs 8. bekkjar var enn og aftur von á nýjum umsjónarkennara og veðmálið var: hversu fljótt náum við að fæla hann í burtu! Inn stormaði hann, smellti saman hælunum á klossunum svo glumdi í og sagði skælbrosandi: „Sæl.“ Það varð ekki aftur snúið, hann náði okk- ur, gróf sig inn í hjörtu okkar og liðlega 30 árum seinna er hann þar enn. Ungi kennarinn sýndi okkur traust, virðingu og vináttu og uppskar það allt margfalt til baka. Margs er að minnast og höf- um við rifjað upp mörg skemmtileg atvikin frá skóla- göngunni við þessi kaflaskil. Dönskumaraþonið, hvaða kenn- ara dettur í hug að láta óstýri- látan hóp unglinga sitja heilan sólarhring og læra dönsku fyrir áheitasöfnun í níundabekkjar- ferðalag? Gunnari – og við til í það. Skólaferðalagið hringinn um landið, þar sem kennarinn las upp úr Íslendingasögum og sagði það góðan undirbúning fyrir lífið. Stilltari hópur hefur ekki farið hringinn á vegum skólans; margar hugmyndir voru uppi um ýmis prakkara- strik en voru saltaðar jafnóðum, vildum ekki koma kennaranum í klandur. Það áttu allir skjól hjá Gunnari; þeir sem gáfu lítið fyr- ir lærdóminn og þeir sem vildu læra meira og meira. Hann hvatti okkur til þess að hugsa stórt, vera jákvæð og hafa trú á okkur, hann hafði alltaf trú á okkur. Þegar við hittumst fyrir ekki svo löngu og héldum upp á 30 ára ferming- arafmæli kom ekki annað til greina en Gunnar og Edda tækju þátt í því með okkur og áttum við notalega og skemmti- lega stund í Sjólyst. Já, margs er að minnast og verður sér- stakt að rölta um á frönskum dögum án þess að rekast á Gunnar og eiga við hann gott spjall. Við kveðjum okkar lífsins mentor og mikla vin með mikl- um söknuði og þakklæti. Börnum hans sendum við okkar innilegustu samúðar- kveðju, Önnu móður hans, Eddu okkar og aðstandendum öllum. Megi minningarnar um góðan mann og lífskúnstner umvefja ykkur. Fyrir hönd árgangs ’73 Fá- skrúðsfirði, Dýrunn Pála Skaftadóttir. Vesturhlíð 2 | Fossvogi | s. 551 1266 | utfor@utfor.is | utfor.is VIÐ ÞJÓNUM ALLAN SÓLARHRINGINN Útfararþjónusta í yfir 70 ár Sálm. 86.11 biblian.is Vísa mér veg þinn, Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.