Börn og menning - 2017, Blaðsíða 3

Börn og menning - 2017, Blaðsíða 3
Ég man hvað það var mikill skellur þegar ég áttaði mig á því á gamals aldri að kjötsnúðarnir sem frænka Kims í samnefnd- um bókaflokki trakteraði sögu- hetjurnar á væru í raun ósköp venjulegar kjötfarsbollur. Í rúm tuttugu ár hafði þetta framandi orð „kjötsnúðar“ kallað fram ótal myndir í huga mér. Voru þetta ef til vill snúðar þar sem brauðdeigi og kryddaðri hakk- blöndu hafði verið snúið saman eða kannski þunnar kjötsneiðar sem rúllað hafði verið upp með spennandi fyllingu? Miðað við dálæti Kims á þessu framandlega fyrirbæri var að minnsta kosti ljóst að þetta var eitthvað alveg einstakt og ótrúlega gott. Þegar sannleikurinn kom í ljós þarna löngu síðar áttaði ég mig ekki bara á hve óraunhæfar hugmyndir ég hafði gert mér um elda- mennsku frænku Kims heldur opinberaðist endanlega fyrir mér hve mikill máttur þýðenda væri í raun og veru. Mögulega hafði það sitt að segja að ég las Kim- bækurnar tæpum þrjátíu árum eftir að þær komu fyrst út á íslensku en mér sýnist reyndar að orðið kjötsnúður hafi meira að segja þótt nokkuð fornfálegt þegar fyrstu bækurnar í flokknum voru þýddar í kringum 1960. Þetta eina orð hafði töluverð áhrif á lestrarupplifun mína og greindi hana væntanlega frá upplifun þeirra jafnaldra minna sem lásu bókina á frummálinu. Um leið og starf þýðandans er ákaflega mikilvægt getur það því verið töluvert snúið. Þýðendur geta opnað framandi heima fyrir lesendum, aukið skilning þeirra og víðsýni, kynnt þá fyrir nýstárlegum menningarfyrirbærum og skapað samhljóm meðal þjóða. En þeir geta líka – með- vitað eða ómeðvitað – breytt áhrifum frumtextans, vak- ið upp aðrar hugsanir og skapað allt aðrar tilfinningar hjá lesendum en höfundurinn sjálfur hafði ætlað sér. Í þessu vorhefti Barna og menningar einblínum við á þýddar barnabækur og þær áskoranir sem íslenskir þýðendur hafa þurft að takast á við í gegnum tíðina. Ármann Jakobsson skoðar þýðingar á ýmsum verk- um Enid Blyton og Magnea J. Matthíasdóttir skrifar grein um elstu þýddu barnabækurnar á íslensku og það bessaleyfi sem þýðendur þeirra tóku sér í vissum tilfell- um. Sigríður Ásta Árnadóttir rannsakar úr hvaða tungu- málum við höfum þýtt bækur fyrir börn og ber saman tvö tímabil, 1982−1986 annars vegar og 2010−2014 hins vegar. Og loks skrifar Sigfríður Gunnlaugsdóttir um Emmu- bækur Noels Streatfeild sem komu út á íslensku á árun- um 1973–1976. Við leggjum líka áherslu á þýdd verk í bókarýninni og fjöllum um glænýjar þýðingar úr ensku, norsku og hollensku auk þess sem við skoðum íslenska myndskreytta barnabók. Og svo skellum við okkur í leik- hús eins og vera ber. Með þessu vorhefti kveð ég sem ritstjóri Barna og menningar og skil blaðið eftir í tryggum höndum Ingi- bjargar Valsdóttur sem tekur við frá og með haustinu. Kveðjustundin er tregablandin því vinnan við tímaritið hefur verið ákaflega skemmtileg, gefandi og lærdóms- rík. Það eru sannkölluð forréttindi að hafa fengið að starfa með öllu því frábæra fólki sem komið hefur að blaðinu á síðustu misserum, fólki sem brennur fyrir barnabækur og gerir sér grein fyrir mikilvægi faglegrar umfjöllunar um þær. Mig langar að þakka stjórn IBBY á Íslandi fyrir að treysta mér fyrir blaðinu og fyrir allan þann stuðning sem hún hefur veitt mér á þessu tímabili. Ritnefndarmeðlimum gegnum tíðina þakka ég óeigin- gjarna vinnu, hugmyndaauðgi og yfirlestur, hönnuði blaðsins fyrir gott samstarf og öllum þeim fjölmörgu höfundum sem skrifað hafa fyrir okkur greinar og rýni þakka ég fyrir þeirra dýrmæta framlag til íslenskrar barnamenningar. Síðast en ekki síst langar mig að þakka lesendum blaðsins sem hljóta að vera í algjörum sérflokki því þeir geta ekki einu sinni sagt áskriftinni upp án þess að vera glaðir, þakklátir og fullir stuðnings! Takk fyrir mig – og gleðilegt sumar! Guðrún Lára Pétursdóttir Þetta eina orð hafði töluverð áhrif á lestrar- upplifun mína og greindi hana væntanlega frá upplifun þeirra jafnaldra minna sem lásu bókina á frummálinu. Frá ritstjóra

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.