Börn og menning - 2017, Blaðsíða 29
29Illskan holdi klædd
Það er heldur ekki ofsögum sagt að Alberta frænka
sé ill. Hún er hreint út sagt andstyggileg og skákar auð-
veldlega þekktum illvirkjum úr heimi barnabókmennt-
anna. Þarna er Walliams á sömu slóðum og í Grimma
tannlækninum. Alberta vílar ekki nokkuð fyrir sér gagn-
vart barnungri frænku í sinni djöfullegu áætlun. Ef til
vill er það með ráðum gert að skapa svo lygilega vonda
persónu. Alberta frænka verður hálf fáránleg í illsku
sinni. Í augum hinna fullorðnu næsta ótrúverðug, en
fyrir yngri lesendum nánast trúðsleg. Þannig verður
hún ómanneskjulegri, sem gerir hana ef til vill minna
ógnvekjandi fyrir unga lesendur sem eru vanari að lesa
um óbermi á borð við ófreskjur, nornir og aðrar illar
vættir.
Walliams fetar ekki beinlínis nýjar slóðir í þessari
sögu. Hann er raunar á mjög svipuðum nótum og í t.d.
Grimma tannlækninum enda ef til vill ekki ástæða til
að breyta sigurformúlunni. Viðskiptajöfurinn Bótólfur
er reyndar fjarverandi úr sögum Walliams í fyrsta sinn
og var nokkuð saknað. Við feðgar tökum undir með
honum sjálfum, en hann ritar höfundi kvörtunarbréf í
lok bókarinnar. Forni, gamli brytinn, var upp að vissu
marki staðgengill hans sem eins konar fulltrúi leikhúss
fáránleikans.
Stelpur geta líka verið í aðalhlutverki
Stíll Walliams er einfaldur og knappur og á hann
einstaklega auðvelt með að kalla fram bros á vörum
ungra sem aldinna lesenda. Þá brýtur hann bókina
reglulega upp með því að setja fram lista sem varpa
skýrara ljósi á persónur eða atburði. Þetta vakti kátínu
hjá bræðrunum enda listarnir einmitt ætlaðir til þess. Á
þeim augnablikum nýtur Walliams sín hvað best, enda
býr hann yfir mikilli reynslu af því að búa til litla, snotra
brandara.
Einn af helstu kostum bókarinnar er aðalpersóna
hennar, lafði Stella. Walliams til hróss hefur hann ekki
fallið í þá gryfju í bókum sínum að skrifa einvörðungu
um stráka en bæði í Hr. Fnyk og Rottuborgara voru aðal-
persónurnar stelpur. Hér stekkur lafði Stella fram á sjón-
arsviðið og á í fullu tré við Albertu frænku og gott betur.
Þeir ungu lesendur sem hafðir voru með í ráðum
við ritun þessarar bókarýni nefndu einmitt það hversu
snjöll Stella var í því að sleppa úr klóm Albertu sem
það besta við bókina. Í karllægum heimi þar sem strákar
hafa tilhneigingu til að lesa bara um stráka er einstak-
lega gleðilegt að sjá einn snjallasta og vinsælasta rithöf-
und samtímans færa börnum flotta kvenhetju. Að þessu
leyti á bókin fullt erindi til lesenda í dag. Að sjálfsögðu
geta stelpur líka tekist á við ævintýralega illsku og leyst
sakamál!
Áfram Walliams
Þýðing Guðna Kolbeinssonar er vel úr garði gerð eins
og við var að búast. Sagan líður átakalaust áfram og
hinn hressilegi húmor Walliams skilar sér vel. Það er
ekki auðvelt að koma til skila ensku rímnaslangri, og
svo sem ekki víst hvort eitthvað hefur farið fyrir ofan
garð og neðan, en það er engin hindrun í lestrinum.
Teikningarnar eru eftir Tony Ross, líkt og í öðrum bók-
um Walliams. Þær eru svarthvítar og draga fram aðal-
atriði hvers kafla.
Bókin er rúmar 400 blaðsíður og helst til of löng að
mínu mati, sérstaklega var atburðarásin undir lokin
örlítið langdregin. Eftir að óvænt flétta hefur skapast
um miðbik sögunnar og risi er náð er ekki laust við
að undirritaður hafi orðið æði óþreyjufullur eftir að
hnútarnir væru leystir.
Líkt og nefnt var í upphafi hefst bókin á því að
persónur sögunnar og sögusviðið er kynnt með mynd-
um. Hér má staldra aðeins við og velta þessari aðferð, að
byrja bók á því að sýna lesendum hvernig sögusviðið og
persónurnar líta út, fyrir sér. Á þessu eru skiptar skoð-
anir. Sumir vilja halda því fram að þetta letji lesendur
með ríkt ímyndunarafl og svipti þá valdinu til að búa sér
til sínar eigin myndir í gegnum lesturinn. Á hinn bóg-
inn getur þessi aðferð kveikt áhuga tvístígandi lesenda.
Þeir sem þurfa ef til vill hvatningu til lesturs gætu tekið
því fagnandi að fá allan pakkann ef þannig má að orði
komast. Í tilfelli þeirra bræðra voru þeir hæstánægðir
með þetta.
David Walliams slær á kunnuglega strengi í Vondu
frænkunni. Hann er enda löngu búinn að koma sér vel
fyrir í efstu hillu þeirra rithöfunda sem skrifa fyrir börn
og gerir það af virðingu og metnaði. Bækur hans höfða
jafnt til drengja sem stúlkna og þær virka vel fyrir breið-
an aldurshóp. Í það minnsta höfðum við feðgar mjög
gaman af henni þrátt fyrir nokkurn aldursmun. Við
hlökkum sannarlega til að njóta verka Walliams áfram
og við vorum ekki vitund hræddir við vondu frænkuna,
ja nema á stöku stað.
Höfundur er grunnskólakennari.