Börn og menning - 2017, Blaðsíða 39

Börn og menning - 2017, Blaðsíða 39
… algerlega frámunalega stórkostlegt að byrjað sé að gefa aftur út bækurnar um æskuvini mína Viggó, Sval, Val, Ástrík, Lukku-Láka og meira að segja litlu bláu sníkjudýrin, Strumpana. Þegar ég var að alast upp var frönsk- um og belgískum teiknimyndasögum bókstaflega mokað út um hver jól. Eitt árið komu til dæmis út ellefu bækur um einmana beljublókina Lukku-Láka. Þetta reif ungdómurinn í sig, við mis- jafna hrifningu þeirra sem eldri voru. Oftar en ekki voru bækurnar lesnar upp til agna. Víða má finna ummerki um súkkulaðikámuga putta, kramin skordýr og vandlega vaxlitaðar síður í þessum bókum, sem leynast gjarnan í sumarbústöðum, á háaloftum og gleymdum pappakössum. Upp úr 1980 komu svo til sögunnar allskonar af- þreyingartæki, vídeó og leikjatölvur sem ruddu þess- um evrópsku blekhetjum burt. Spurðist lítið til þeirra næstu áratugina, nema helst Tinna sem bókaútgáf- an Fjölvi þrjóskaðist við að endurútgefa. Með tíð og tíma þroskaðist smekkur Íslendinga fyrir myndasögum og þessi merka grein bókmennta fór að njóta meiri virðingar. Íslenskir myndasöguhöfundar spruttu fram og svo tók Hollywood ástfóstri við ýmsar amerískar myndasöguhetjur og blés í þær þrívíðu lífi á hvíta tjaldinu. Lítið spurðist þó til fyrrnefndra góðkunningja minna um árabil. Þar til nú nýlega. En Froskur útgáfa hefur sumsé hafið stórsókn í útgáfu þessara bóka. Ekki veitir af, enda fjölmargar bækur óútgefnar á íslensku. Margar þola líka vel endurútgáfu, enda illfáanlegar um árabil. Hafa þær gengið kaupum og sölum, dýrum dómum – og þykja hinir mestu dýrgripir hjá miðaldra bókaorm- um í dag. Fjölmargir þýðendur hafa komið að þessum bóka- flokkum í gegnum tíðina. Þorsteinn Thorarensen vakti yfir þýðingunum hjá Fjölva og þýddi sjálfur megnið af Lukku-Láka. Loftur Guðmunds- son þýddi þar Tinna og Þorbjörn Magnús son þýddi Ástrík framan af og sýndi þar snilldartakta. Hjá hinum risanum í skrípóbrans- anum, Iðunni, var Jón Gunnarsson atkvæðamestur framan af. Má þar nefna seríur eins og Sval og félaga, Viggó viðutan og Hin fjögur fræknu. Hann hefur líka verið bendlaður við hina alræmdu þýðingu á Strumpun- um, sem margir menningarpostular litu hornauga. Þýðandinn þar naut þó jafnan nafnleyndar og var titlað- ur „Strumpur“. Síðar tók Bjarni Fr. Karlsson við keflinu og þýddi mest af þessum titlum Iðunnar. Setberg og Örn & Örlygur blönduðu sér líka í leikinn, en þó í mun minna mæli. Fleiri þýðendur mætti að sjálfsögðu telja til, en margir þýddu einn og einn titil í íhlaupum. Enda atgangurinn mikill, þegar mestu var mokað út. Það er til að mynda áhugavert að Geirlaug Þorvaldsdóttir, frönskukennari við MH, þýddi fyrstu bókina um þá Sval og Val, Hrak­ fallaferð til Feluborgar. Og er hún því sennilega ábyrg fyrir heitum þeirra kumpána – og ýmissa samferða- manna – og dýra þeirra. Já, ég er ótrúlega kátur með það að nýjar bækur um þessa góðvini mína séu farnar að birtast aftur í hillum bókaverslana. Vonandi verður þar framhald á. Og svona í leiðinni væri ekki úr vegi að kynna íslenska lesendur fyrir nokkrum teiknuðum belgískum kvenhetjum, eins og til að mynda flugfreyjunni úrræðagóðu Natösju. En þær urðu því miður útundan í öllum útgáfuatganginum þarna á áttunda áratugnum. Það hefur örugglega verið óvart. Höfundur er tónlistar­, auglýsinga­ og íslenskumaður. Ljósmynd af höfundi tók Guðm. Kristinn Jónsson. Bragi Valdimar Skúlason „Mér finnst …“ lýsir skoðunum höfunda fremur en ritstjórnar eða stjórnar IBBY samtakanna. Mér finnst …

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.