Fræðaþing landbúnaðarins - 08.02.2008, Blaðsíða 367
MÁLSTOFA H - FERÐAMÁL OG SAMFÉLAGSGERÐ | 365
útskýra og færa rök fyrir ákvörðunum sínum með einhverjum hlutlægum skýringum
frekar en huglægum. Þegar grannt er skoðað, kemur þvi í ljós að þó ýmsir þættir auki
líkur á búferlaflutningi, svo sem aldur, menntun, kyn, atvinnu- og
afþreyingarmöguleikar, þá sé máttur tilviljana og huglægra orsaka sem erfitt er að
meta, mæla eða sjá fyrir, svo sem samfélagsandi og almenn búsetuánægja fólks það
sem mestu ræður um ákvörðun einstaklinga og fjölskyldna um búferlaflutninga
(Stefán Ólafsson, 1997; Byggðstofhun, 1999; Stefán Ólafsson, 1999; Axel Hall,
Ásgeir Jónsson og Sveinn Agnarsson, 2002; Byggðstofnun, 2004; Tryggvi Þór
Herbertsson og Grétar Þór Eyþórsson, 2003). Því er mjög mikilvægt að huga betur að
þessum þáttum til að efla byggðarlögin í landinu.
Samfélagsandi
Rannsóknin Samfélagsandi og nýsköpunarstarf sem fram fór á völdum
landsbyggðasvæðum, leiddi í ljós stóran mun á samfélagsanda milli byggðarlaga sem
staðsett eru í mikilli nálægð hvort við annað, og búa við sambærilegar landfræðilegar
og ytri aðstæður. Þetta bendir til þess að varast beri að meta stöðu byggðarlaga aðeins
út frá staðsetningu og ytri aðstæðum, heldur verði að horfa til samfélagsins og þess
anda sem þar ríkir. í þessari rannsókn og greinargerðinni Bjartsýni og
búferlaflutningar sem fjallar um nokkrar byggðakannanir, kemur fram að tengsl eru
milli þess anda sem ríkir í hverju byggðalagi og þess hversu virkir íbúar, fyrirtæki og
einyrkjar í sömu byggðarlögum eru í nýsköpunarstarfi. Rannsóknir virðast því benda
sterklega í þá átt, að með því að efla jákvæð viðhorf fólks í samfélaginu til svæðisins
og þess er framtíðin kann að bera í skauti sér, þá stuðli það að fjölgun raunverulegra
verkefna og viðburða á svæðinu, sem síðan stuðli að allri almennri þróun til hins betra
í samfélaginu. Út frá þessum niðurstöðum er því auðvelt að sjá fyrir sér að ríkjandi
almenn viðhorf í nærumhverfi fyrirtækja, hafi raunveruleg áhrif á viðgang
fyrirtækjanna, innleiðingu nýjunga í atvinnulífl, og þar með á framþróun atvinnulífs
og búsetu almennt í viðkomandi byggðarlögum. Samkvæmt því sem hér hefur verið
rakið, má halda því fram að aðgerðir sem ætlað er að efla bjartsýni, drifkraft og
jákvæð viðhorf meðal almennings bæði gagnvart sjálfum sér og því samfélagi sem
fólk býr í, megi telja til aðgerða sem ætlað er að efla búsetu og nýsköpunarumhverfi
byggðarlaga (Elín Aradóttir og Kjartan Ólafsson, 2004a; Elín Aradóttir og Kjartan
Ólafsson, 2004b).
Þau landsbyggðarsvæði sem byggjast mest upp á frumvinnslugreinum atvinnulífsins
eins og landbúnaði og fískvinnslu, hafa fengið hvað lakasta einkunn frá íbúunum í
rannsóknum á íslandi varðandi samfélagsandann, búsetuskilyrði og búsetugæði. Það
styður kenningar um að búsetumat almennings skýri að einhverju leiti búsetuþróunina
í landinu, þar sem hnignun byggðar hefur verið hvað mest á þessum svæðum (Stefán
Ólafsson, 1997; Byggðstofnun, 1999; Stefán Ólafsson, 1999; Axel Hall, Ásgeir
Jónsson og Sveinn Agnarsson, 2002; Byggðstofnun, 2004; Elín Aradóttir og Kjartan
Ólafsson, 2004a; Elín Aradóttir og Kjartan Ólafsson, 2004b). Mismunandi landssvæði
hafa mismunandi eiginleika og möguleika, því er mikilvægt að þekkja veikleika og
styrkleika byggðanna, og vita hvar möguleikar svæðanna liggja til að geta brugðist við
búseturöskuninni með því að nýta þá kosti, gæði og auðlindimar sem svæðin hafa yfir
að ráða til að byggja upp ímynd svæðanna og styrkja þannig sjálfsmynd samfélagsins.