Strandapósturinn - 01.06.1976, Qupperneq 24
daginn og var þá oft rólegt hjá smalanum. Þó var ein vika á
sumrinu ákaflega erfið fyrir smalann, en það var þegar æti-
sveppirnir urðu fullþroska, ærnar voru svo gráðugar i ætisvepp-
ina, að þær voru á æði í leit að þeim og mátti smalinn vera á
sífelldum hlaupum til að týna ekki úr hjásetunni. Þetta ástand
stóð yfir um það bil vikutíma eins og áður er sagt og kallaði
smalinn þetta gorkúluvikuna.
Ekki hafði smalinn klukku til að fara eftir og fór hann eftir
eyktamörkum, en eyktamörk voru, þegar sólina bar yfir ákveðið
skarð eða hnjúk á fjöllunum og voru þessir staðir nefndir eftir
því hversu áliðið var dags, til dæmis ,,Hádegishnjúkur“, „Nón-
skarð“, „Miðaftansfell“, og svo framvegis. Oft virtist smalanum
sólin fara sér ótrúlega hægt, þegar honum leiddist i hjásetunni,
en við því var ekkert að gera, hann mátti ekki halda heimleiðis
fyrr en sólin var komin yfir ákveðið eyktamark. Smalinn gerði sér
ýmislegt til dægrastyttingar í hjásetunni, smíðaði dýr og fugla úr
birkikvistum, eða hann fékk sér hressandi bað i á eða tjörn þegar
heitt var í veðri. Það var frekar illa séð af húsbændunum, ef
smalinn hafði bók með sér í hjásetuna, ekki af því að þeir hefðu
neitt á móti því að smalinn læsi bækur, heldur af því að hann
kynni að gleyma sér við bókalesturinn og týna úr hjásetunni.
Stundum leitaði smalinn uppi leirflag og æfði sig þar í skrift
og reikningi, eða hann teiknaði myndir í leirinn, sem í hans
augum urðu listaverk og hver veit nema sumar teikningarnar
hafi verið listaverk. Eitt af mörgu, sem var eftirsótt af smalanum,
var að finna sandstein, helst rauðan eða grænan og búa til úr
honum útskornar styttur og einnig lágmyndir á breiðari fleti.
Sumir smalar áttu lítinn kofa (smalakofa) til að vera í, sér-
staklega var það notalegt þegar verra veður var. Smalakofinn
var yfirleitt byggður þar sem sá vel yfir hjásetuplássið og gott var
að fylgjast með ánum, hvert þær rásuðu og hversu langt mætti
sleppa þeim áður en farið væri í kring um þær.
Oft átti smalinn illa ævi við hjásetuna þegar veðrátta var
vond, hvassviðri og rigning, en engin hlífðarföt til að verjast því
að verða holdvotur. Þá var ekkert annað að gera en hlaupa um
og berja sér til að krókna ekki úr kulda, en sem betur fór voru
22