Strandapósturinn - 01.06.1976, Blaðsíða 120
einfaldar almennar skýringar, svo sem þær, hvílíka nauðsyn
bæri til þess, að hásetar skildu rétt skipanir formanns og hlýddu
þeim. Allur misskilningur og röng framkvæmd gæti kostað
skipshöfnina lífið.
Ekki hef ég heyrt þess getið, að Guðmundur hlyti óvinsældir
nemenda sinna, þótt sum uppeldisbrögð hans kunni að þykja
kyndug nú. Flestir þeirra eða allir báru hlýjan hug til hans síðar
á ævinni.
Aldrei lét Guðmundur menn fara svo um, að þeir þægi ekki
einhverjar góðgerðir. Fór hann þar ekki í manngreinarálit. Ef
krakka eða unglinga af næstu bæjum bar að garði, en það var
helst í smalamennsku, kallaði hann á þá út í skemmu og spurði
þá, hvort þeir hefðu fengið nokkuð gott í bænum. Ef svo varekki,
hyglaði hann þeim í skemmunni. Þar voru góðgerðir hans
rausnarlegar, en sá böggull fylgdi skammrifi, að aldrei rétti
hann þeim nema eina tegund matar, svo sem eintómt smjör,
hákarl eða fisk. Gömul kona sagði mér, að eitt sinn hefði hún
komið dauðsvöng úr smalamennsku að Ingólfsfirði. Guðmundur
var úti við, heilsaði henni vingjarnlega og sagði, að hún þyrfti að
fá eitthvað gott. Fór hann út í skemmu, kom með stórt smjör-
stykki, fékk henni það og mælti: „Ettu þetta, barnið gott, það
beinsvíkur þig ekki“.
Þótt Guðmundur væri fornbýll og lumaði á ýmsu, var þó
stundum þröngt í búi hjá honum. Eitt sinn bað kona hans hann
um efni í brauð handa börnum þeirra, en Guðmundur sagði eins
og var víst satt, að ekkert mjöl eða korn væri til. En er kona hans
leitaði oftar eftir hinu sama, gekk hann með hana út á tún skar
þar upp torfusnepil og mælti: „Taktu nú þarna brauð“.
Einu sinni var kona hans að kafna í reyk í eldhúsinu. Kvartaði
hún yfir þessu við mann sinn og bað hann að laga strompinn. Þá
varð Guðmundi að orði: „Lítt myndir þú þola fordæmdra gufu“.
Kona nokkur þar í sveitinni hafði haldið framhjá manni sín-
um. Barst þetta í tal í Ingólfsfirði. Segir þá Guðmundur: „Hann
hefur verið alltof góður við hana. Það veitir ekki af því að berja
sumar konur“. Kerla hans svarar: „Að þú skulir, segja þetta,
Guðmundur. Aldrei hefur þú barið mig“. Þá byrstir karl sig:
118