Strandapósturinn - 01.06.1987, Blaðsíða 59
var kölluð Byssa og bar það nafn með sóma langa og farsæla
hundaævi. Þetta hefur víst verið mikil skynsemdarskepna. Hún
fylgdi húsbónda sínum, Þorsteini gamla í Hrafnadal, hvert sem
hann fór. Eg sá hana oft, því Þorsteinn kom oft að Ljótunnarstöð-
um. Eg man að hún bar alltaf stein í kjaftinum þegar hún kom og
fór. Eg held að það hafi verið sami steinninn sem hún tók með sér
þegar hún fór og sá sem hún kom með.
Samskonar kyngreiningarskekkja átti sér stað löngu seinna.
Það var ónefndur bóndi í ónefndri sveit sem kom þar við sögu.
Hann eignaðist hvolp sem hann lét heita í höfuðið á þjóðhöfðingja
þeim er Stalin hét. Manninum var töluvert mikið í nöp við Stalin
þennan og gerði honum það til háðungar og svívirðu að láta hund
heita í höfuðið á honum. En sökum þess að Stalin þótti heldur
óþjált í munni, þegar kallað var á hundinn, var það ntildað og
breytt í nokkurskonar gælunafn, eða Stalla, enda átti hundurinn
enga sök á því að Stalin þótti ekki góður stjórnarherra.
Nú þótti, sem fyrr, ekki hlýða að tíkur bæru karlkyns nöfn. Var
því brugðið á það ráð að Stalla var breytt í Stella og bar tík þessi
Stellunafnið með sóma og prýði alla sína hundstíð. Stalinsafnið
gleymdist svo von bráðar, enda mun eiganda tíkarinnar ekki verið
mikið um það gefið að það væri haft í hámælum.
Næst á eftir Týru gömlu kom hundur sem hét Kátur. Við
urðum ágætir leikbræður, enda var ég þá kominn á þann aldur að
ég hafði mikið yndi af að leika mér við hunda. Kátur varð víst
nokkuð gamall og það varð einu sinni að mér datt sá óknyttur í
hug að hrekkja hann alsaklausan.
Það hefur víst verið um það leyti sem ég var sjö ára. Ég hafði
eignast leikfang sem ég hafBi mikið dálæti á. Það var postulínskúla
sem símaþræðir voru festir á. Þessi kúla hefur víst verið eitthvað
skemmd, svo símamennirnir höfðu fleygt henni. En ég hafði svo
slegið eign minni á hana eftir að símamennirnir voru horfnir.
Svo var það eitt kvöld veturinn eftir að ég sat á rúminu og
handfjallaði kúluna, en Kátur sat við rúmstokkinn og horfði upp á
mig brosleitur og kankvís. Þá dettur mér í hug, svo sem eins og í
hálfkæringi eða galsa, að ég skuli skella kúlunni ofan á kúpuna á
Kát, ef til vill í þeim tilgangi að setja á hann einhverskonar kórónu,
57
L