Strandapósturinn - 01.06.1987, Blaðsíða 73
um voru allir í önn við heyskap. Var mér síst rótt að vera á
ferðalagi og vita þörf fyrir að vera heima um „hásláttinn“ eins
og tíðum var til orða tekið. Segir ekki af ferðum mínum, fyrr en
ég kem á móts við Stakkanes. Þar ætlaði ég mér reyndar ekki að
koma, en sá þá að þar voru menn og hestar á hlaðinu. Kom mér
í hug að þarna gæti verið einhver á leið norður yfir heiði.
Bóndinn Sigurður Gunnlaugsson stóð úti, og ungur gjörvilegur
ferðamaður, sem ég bar ekki kennsl á, með tvo hesta, annar, að
mig minnir, með töskur. Heyri ég að maðurinn er ókunnugur,
því hann er að spyrja bónda um hvernig Selá sé yfirferðar. Lætur
bóndi vel af, hún sé með minnsta móti og því enginn farartálmi.
Hvert er nafn þitt spyr bóndi. Ég er búin að gleyma nafni hans,
en Sveinsson var hann. „Ertu þá sonur Sveins í Hveravík?“ Hinn
kvað nei við því. „Og hvert er ferð þinni heitið?“
„Fyrst til að byrja með,“ ansaði maðurinn, „að Hveravík og í
Bjarnarfjörð, svo áfram norður í Árneshrepp til að athuga sund-
laugarstæði á þessum slóðum.“
Þegar kom í ljós að ég var Ágústsdóttir, segir Sigurður hlýlega:
„Þú ert þó ekki dóttir Ágústar í Kjós?“
Ég þekkd hann og hann kannaðist þá við mig, því ég var
kunnug tveim dætrum hans og hafði komið á heimili þeirra
hjóna, Guðbjargar Ágústsdóttur og hans, þá búendum á Geir-
mundarstöðum í Selárdal, og lengst af við þann bæ kenndur,þó
hann á seinni árum færði sig um fet. En því minnist ég á spurn
bónda að „eftir lifir mannorð mætt, þó maðurinn deyi.“
Ohætt er að segja að faðir minn var öllum sem hann þekktu
að góðu kunnur.
Er ekki að orðlengja það, að þessi ókunni maður slóst í för
með mér, eftir að Sigurður hafði gengið úr vafa um að öllu væri
óhætt hvað Selá snerti. Annars bauðst hann til að fara með
okkur. En þess gerðist ekki þörf, ég hafði farið ána fyrir stuttu,
og síðan ekki komið dropi úr lofti.
Allt gekk að óskum yfir Selá, og skildu leiðir fyrir ofan túnið á
Bólstað. Ég spretti af Mósa mínum svo hann gæti velt sér. Tók
fram úr honum beislið, hafði það aðeins um háls hans. Hér
þekkti hann sig vel og vanur því að njóta nokkurrar hvíldar,
71