Strandapósturinn - 01.06.1987, Blaðsíða 66
við ásáttir um að hér myndi vera átt við Jón Dungal bónda í
Bæ. Við höfðum heyrt ávæning af öllum þessum atburðum en
ekki tekið þá mjög hátíðlega. Við gerðum því einnig skóna, að
stefnur okkar til Borðeyrar væru ekki tilkomnar til að sanna eða
afsanna ásakanir dýraverndunar-greinarinnar, heldur til þess að
hafa upp á þeim skaðræðismanni er skrifað hefði nefnda grein.
Þegar sá dagur rann upp að við skyldum mæta fyrir réttinum
að Borðeyri lögðum við Guðmundur af stað þangað fótgangandi,
enda er leiðin þangað ekki nema tólf eða þrettán kílómetrar.
Það var leiðindaveður, norðan svælingur en þó ekki mjög
hvasst.
Við drápum dyra hjá sýslumanni á tilsettum tíma og kom hann
sjálfur fram og lauk upp. Hann bauð okkur að ganga í bæinn og
vísaði okkur til stofu, en dyr voru úr stofunni til skrifstofunnar.
Ekki höfðum við setið lengi þegar sýsli kallaði á mig inn á skrif-
stofuna, en Guðmundur var eftir í stofunni.
Á skrifstofunni voru fyrir sýsluskrifarinn og tveir réttarvottar.
Þegar inn kom var mér boðið sæti en síðan áminntur um sann-
sögli. Síðan var ég spurður hvort ég hefði eitthvað heyrt um
hálsskurðinn hjá Dungal bónda. Eitthvað hafði ég heyrt á hann
minnzt. Þá var ég spurður um álftadrápið. Nei, ég hafði aldrei
heyrt á slíkt minnzt. Að því búnu var ég spurður eftir hundinum,
sem átti að hafa fengið skot í rassinn, hvort ég hefði orðið var við
slíkt eða heyrt um það rætt. Að síðustu var ég svo spurður um
hvort ég gæti einhverjar fleiri upplýsingar gefið. Nei, ég gat engar
fleiri upplýsingar gefið og þar með var yfirheyrslunni lokið.
Löngu síðar minntist ég þess, að einhverntíma þegar ég var að
elta kindur inn í Bæjarnes heyrði ég skot einhversstaðar nálægt og
eftir því fylgdu skrækir í hundi eða hundum.
Þá var kallað á Guðmund. Hann hefur víst strax sýnt að hann
var eitthvað taugaóstyrkur, því hann talaði meira en í meðallagi
hátt og var því líkast að hann væri eitthvað að þrefa við sýslumann.
Og sýslumaður fór einnig að brýna röddina, þó jafnaðist þetta að
nokkru er á yfirheyrsluna leið, en aldrei gat ég þó greint orðaskil.
Það var aðeins hin hvella og skýra rödd sýslumannsins sem ég
heyrði glöggt, þegar hann var að lesa skrifaranum fyrir.
64