Strandapósturinn - 01.06.1996, Síða 83
°g þegar við höfðum komið okkur fyrir í trillunni var kúrsinn
tekinn út fjörð í svalri morgungolunni. Við vorum svo settir í land
við lítinn tanga skammt fyrir utan Borgabæinn. Á Borgum kom-
um við beint í morgunkaffið hjá fósturforeldrum Þóris, systkin-
unum Ólafi og Ingibjörgu. Næst stoppuðum við í Skálholtsvík hjá
Jóni Magnússyni og Guðrúnu Grímsdóttur frá Kirkjubóli. Jón,
sem var móðurbróðir þeirra Fremri-Brekkubræðra, Torfa og
Ástvaldar og Benedikts á Neðri-Brunná, bauðst til að flytja okkur
á trillu sinni fyrir Víkurhöfðann og yfir að Eyrarlandi, rétt við
Krossárósinn. Við afleggjarann að Gröf skildu leiðir, Dalamenn
héldu suður Krossárdal en ég fór heim að Gröf. Þar frétti ég að
Siggi í Litla-Fjarðarhorni væri frammi á Gili og ætlaði norður yfir
hálsinn nú fljótlega. Ákvað ég því að hinkra við til að hafa sam-
fylgdina yfir hálsinn, sem ég hafði ekki farið síðan ég var f 0 ára og
þá með fleira fólki að sumarlagi. Ekki þurfti ég lengi að bíða eftir
Sigga og við stikuðum af stað upp hálsinn og fórum mikinn.
Þurfti ég að taka á honum stóra mínum til að fylgja honum eftir,
enda seta á skólabekk allt haustið ekki góður undirbúningur.
Göngufæri var gott, frost og aðeins snjóföl á jörð. Eftir að hafa
notið góðgerða og hvíldar í Litla-Fjarðarhorni lagði ég af stað í
síðasta áfangann heim, venjulega fórum við fjallið þegar þessi leið
var gengin, en nú fannst mér ráðlegra að fara veginn, þótt það
væri nokkru lengra. Veðrabrigði höfðu orðið í ljósaskiptunum,
frostið dottið niður, komin austan spýja, svarta myrkur og sleipa á
jörð. Draugalegt fannst mér að ganga fyrir Hvalsárlendinguna og
Rauðabergið enda var mikið brim og skruðningar sem því fylgir
jafnan þarna. En heim að Heydalsá kom þreyttur og blautur
maður og varð hvíldinni feginn.
Jólin liðu fljótt við söng og gleði eins og venjulega heinia. Hinn
árvissi aðalfundur ungmennafélagsins fyllti svo upp í skarðið
milli hátíðanna eins og venjulega með ýmsum skemmtiatriðum
og dansi fram undir morgun. Veðurfar þessa daga var þó frekar
stirt og hlóð niður miklum snjó. Á nýársdag þegar ég hélt aftur af
stað í skólann var komin kaffenni og ófærð. Pabbi fylgdi mér á
leið yfir háfjallið, því nú var sú leið farin. Gott hefði verið að eiga
81