Strandapósturinn - 01.06.1996, Blaðsíða 156
kannski reyna aftur.“ En það vildi sá gamli ekki, dæsti við um leið
og hann gekk að rúmi sínu og talaði um tröll. Oft þurfti hann að
finna að hátterni félaga míns, var sí og æ að leggja honum ein-
hverjar lífsreglur, sem hinum tókst, að því er virtist, misjafnlega
að fara eftir, taldi víst að Strandastrákurinn væri ekki til neinnar
fyrirmyndar hvorki til orðs né æðis og að best væri að hafa varan á
þegar hann ætti í hlut. Gummi hafði stundum gaman af því að
leggja þarna orð í belg ýmist mér til málsbóta eða öfugt, en engu
breytti þetta um vinskap okkar félaganna. Við vorum alla vertíð-
ina hinir mestu mátar.
Það fiskaðist lítið á þessari vertíð, hálfgerð ördeyða um allan sjó
og hluturinn varð því ekki hár, en þetta var samt sem áður viss
upplifun og góð reynsla fyrir óvana unglinga. Það voru mér allir
góðir og ég kom heim um vorið ekki nálægt því eins bláeygur og
ég áður var. Lífið var að vísu keimlíkt þarna vestra, en ekki alveg
eins. Á Hesteyri var fleira fólk en á Horni og meira um samkomur
og mannfagnaði.
Ég hafði svo ekki mikil kynni af Gumma Ben fyrr en nokkuð
mörgum árum síðar er ég fékk vinnu að sumarlagi á síldarstöð
Kveldúlfs h/f þarna innar með firðinum. Gummi var þar þá
einnig við störf eins og fleiri sveitungar, og þótt unnið væri á
vöktum hittumst við annað slagið og röbbuðum saman um dag-
inn og veginn, þar á meðal um ýmsar skoplegar tiltektir sumra
sem þarna unnu. Ég hafði svolítið gaman af því á þessum árum að
herma eftir vissum samtíðarmönnum og þótt ég væri nú enginn
snillingur á því sviði fremur en öðrum, höfðu sumir gaman af
þessu, að mér skildist, og þar á meðal Gummi. Hann virtist alltaf
vera léttur í lund og hafa yndi af smávægilegum glettum. Oft vék
hann sér að mér með kankvíst bros á vörum og vildi eindregið fá
að heyra, hvernig þessi eða hinn hefðu orðað vissar óvæntar
uppákomur. Átti ég þá að svara með þeirra orðfæri og raddblæ,
hvað ég reyndi stundum viðstöddum til geðs.
Ég kom æði oft á heimili Gumma Ben meðan ég átti heima í
sveitinni og þar var manni alltaf vel tekið, húsfreyjan glaðvær og
gamansöm, og andrúmsloftið viðkunnanlegt. stundum tók hún
málstað minn, ef ég lenti í klandri sem oft kom fyrir á þessum
154