Strandapósturinn - 01.06.2010, Page 31
29
íslenskum hosum og varning sem þeir töldu vafalaust ætlaðan til
sölu á Íslandi, tóbak, brennivín, járnpotta (í öðru skipinu 120
stykki), striga, sápu, salt, rúsínur og krydd svo eitthvað sé nefnt.
Ekki tókst Hollendingunum að sannfæra sjóréttinn á Brimarhólmi
um að þeir hefðu ekki haft verslun í huga.15 Og hver veit, kannski
eiga Strandamenn nokkrar lykkjur í þeim þúsundum para af
hosum og vettlingum sem lentu á markaði í Hollandi á fyrri hluta
sautjándu aldar.
Þá má velta vöngum yfir þeim fjölda af reykjarpípum sem
fundust á Strákatanga. Jón Indíafari segist hafa séð tóbak í fyrsta
sinn þegar hann hóf utanferð sína 1615. Fyrsta dæmið um tóbak
í öðrum heimildum er bréf frá Arngrími lærða til Óla Worm
1631. Arngrímur, sem þá bjó í Miðfirði, segist hafa vitneskju um
tóbak frá sjómönnum, væntanlega við Húnaflóa, og á þeim tíma
varla íslenskum.16 Tóbaksfíknin hefur fljótlega tekið menn föstum
tökum því í annarri vísitasíuferð Brynjólfs biskups 1643 þurfti
hann að taka fyrir kærumál gegn prestinum á Óspakseyri sem var
orðinn svo mikill fíkill að hann tók sér hvíld í miðjum
embættisverkum til að „drekka tóbak“ eins og reykingar voru
kallaðar í þá daga.17 Og einhver hefur ólögleg verslun með tóbak
verið á Ströndum fyrst alþingi lagði 1666 blessun sína yfir dóm úr
Strandasýslu um „kaup ólíðanleg á tóbaki og öðru klattaríi“, einn
fyrsti dómurinn um tóbak sem alþingi tók fyrir.18 Sú staðreynd að
sumar pípurnar sem fundust á Strákatanga hafi aldrei verið
reyktar vekur að sjálfsögðu þá hugmynd að einhver hluti þeirra
birgða sem hvalfangararnir höfðu með sér hafi verið hugsaður
sem verslunarvara.
Meðal þess sem litið er til við rannsóknina á Strákatanga eru
sambærilegar stöðvar sem grafnar hafa verið úr jörð annars staðar
þar sem hvalveiðar voru stundaðar á svipuðum tíma. Við Red Bay
í Labrador hafa verið rannsakaðar miklar leifar eftir hvalveiðar
spænskra Baska á sextándu öld og á Svalbarða þar sem
Hollendingar stunduðu veiðar í áratugi hafa verið grafnar upp
hvalstöðvar sem um margt líkjast því sem komið hefur í ljós á
Strákatanga. Á báðum stöðunum hafa fundist grafir hvalveiði-
manna sem ýmist hafa látist af völdum sjúkdóma og slysa en einnig
beðið bana við hættulegasta starfið, að róa að stórhvölum með
skutla og lagvopn. Það lá því beint við að kanna hvort eitthvað