Strandapósturinn - 01.06.2010, Side 36
34
stækka og stækka. Fullri stærð náði það beint á móti okkur undan
Hamrinum. Þá fór það að minnka á ný er komið var inn á
Eyjasundið nálægt Hrútey. Þegar skipin nálguðust Borðeyri gáfu
þau hljóðmerki, píptu eins og við kölluðum það, og einnig er
látið var úr höfn.
Pabbi og Þorbjörn föðurbróðir minn, alltaf kallaður Bjössi (dó
1932), létu sig aldrei vanta í uppskipunarvinnu. Sama má segja
um Elís frænda í Laxárdal. Frá Hlaðhamri að Borðeyri eru um 8
km (eins og hálfs tíma gangur). Þeir bræður fóru að vetrarlagi
alltaf gangandi. Ég man að einhverju sinni er við Villi bróðir
vorum úti á hlaði að fylgjast með Brúarfossi að pabbi kallar: „Hvar
er Fossinn núna?“ „Hann er að byrja að minnka,“ sögðum við. Þá
erum við að verða of seinir, heyrðist pabbi segja. Hann vissi
nákvæmlega hvar skipið var statt, þurfti ekki að spyrja nánar um
það.
Kolamolar í fjörunni innan við Hamarinn
Það kom einstöku sinnum fyrir er langvarandi stillur voru, að
fjörðinn lagði út fyrir Borðeyri. Þá var skipað upp í Kjörseyrartanga.
Einu sinni man ég að lagís náði út undir Hrútey. Það mun hafa
verið í febrúar 1931. En einmitt á þeim stutta tíma sem lagísinn
náði svona langt út fjörðinn kom skip, mig minnir Lagarfoss, og
komst ekki nema rétt inn fyrir Hrútey. Skipið var með ýmsar
vörur, m.a. svolítið af kolum sem skipað var upp í Hamarinn
heima. Allt var flutt á sleðum til Borðeyrar, nema kolin sem
afgreidd voru á staðnum og sá Bjössi frændi um það. Dálítið var
eftir af kolum þegar gerði þíðu og ofsarok af landsynningi. Öldur
gengu á land og sópuðu í sjóinn töluverðu af kolum, sem ekki
höfðu verið borin nógu langt upp á land. Í mörg ár mátti finna
einstaka kolamola sem rak upp í fjöruna innan við Hamarinn.
Skipakomum fækkar til Borðeyrar
Eftir að frystihúsið brann þurfti að aka sláturafurðum í frystihús.
Fyrst var kjötið flutt í Borgarnes og í nokkur ár dálítið til
Hvammstanga og Akraness, en fljótlega var farið að flytja það til
Reykjavíkur. Ég held að eftir miðja 20. öld hafi mestallt kjötið
verið flutt til Reykjavíkur. En síðast var slátrað á Borðeyri 1996.