Strandapósturinn - 01.06.2010, Síða 47
45
lautir, virtist samt nýfallinn, og reyndist klofófærð en nú var ekki
á öðru völ og vorum við sem þekktum landið meðvitaðir um það.
Veðrið var heldur ekki gott, í viðbót við að komið var myrkur,
norðaustan vindur og snjókoma var veðrið alveg í fangið. Ekki var
ástæða að óttast að við myndum villast þrátt fyrir myrkur og
dimmviðri, símastaurar voru með fram gönguleiðinni og einnig
nokkrar hlaðnar grjótvörður frá gamalli tíð. Erfitt reyndist
stundum að halda sleðanum á réttum kili og þurfti þá að laga
farminn, og allt tafði það fyrir. Áfram var haldið og fór það svo að
alltaf styttist heldur milli áningarstaða en áfram miðaði samt.
Þreyttust hjónin, Sigrún og Trausti, fljótt og höfðum við áhyggjur
af að þeim mundi verða þetta ofraun, en allt fór þó vel. Þar kom
þó að komið var á há-Skörðin en þá tók við snarbrött brekka niður
á undirlendið. Erfitt reyndist að draga sleðann upp frá Naustvík
en nú tók við öllu brattari brekka en verið hafði upp frá
Naustvíkurbænum. Vissulega var það léttir en menn máttu hafa
sig alla við að missa ekki sleðann frá sér því þá hefði illa farið. Þar
kom að brekkan var að baki og við vorum komin á undirlendið.
Var gangan nú léttari og komið betra veður heldur en verið hafði
yfir Skörðin. Var nú léttara yfir hópnum og stefnan tekin á Bæ.
Síðasti áfanginn reyndist léttur og var komið eitthvað fram á kvöld
þegar þangað var komið. Höfðum þá verið hátt í fjóra klukkutíma
á leiðinni milli bæja. Ekki var að spyrja að móttökunum hjá þeim
hjónum, Jensínu Óladóttur og Guðmundi P. Valgeirssyni, frænda
mínum, og voru allir ferðalangarnir drifnir í hús. Þeir sem blautir
voru og hraktir voru færðir í þurr föt og í alla staði veittur hinn
besti beini. Sýnt var að við myndum ekki ná í áfangastað, heim að
Steinstúni, þetta kvöldið en úr því sem komið var var það ekki
áhyggjuefni. Réðst það svo að Sigrún og Trausti gistu í Bæ en ég
fór að næsta bæ, Árnesi, og fékk gistingu hjá frænda mínum,
Benedikt Valgeirssyni og konu hans, Oddnýju Einarsdóttur, og
var ekki í kot vísað. Böðvar póstur fór að Finnbogastöðum sem var
einnig steinsnar frá Bæ, þar var póstafgreiðsla og þar þurfti hann
að koma við og skila hluta af póstinum og gisti þar um nóttina.
Sveinn var sá eini sem komst á leiðarenda, að Melum, enda er
stutt þangað frá Bæ og með sjó að fara.
Er svo ekki að orðlengja að daginn eftir komumst við á
leiðarenda sem var bærinn Steinstún í Norðurfirði.