Strandapósturinn - 01.06.2010, Blaðsíða 94
92
og ást 7/1. 1935 og haldið tvær skemmtanir (ótilgreint hvers
konar) í mars 1936. Mjög sennilegt er að það séu einmitt sýningar
á Jeppa á Fjalli því að Saklausi svallarinn var sýndur 7/2. 1937.
Skátafélagið Hólmherjar (1939–44) sýndi nokkur leikrit.
Léku skátarnir sjálfir öll kvenhlutverk, þar sem eintómir strákar,
12–15 ára, voru í félaginu og höfðu takmarkaðan aðgang að
kvenfólki. Þessi leikrit finnast sum í fundabók félagsins og eru
önnur ártöl áætluð:
1940 Dalbæjarprestssetrið.
1941? Happið eftir Pál J. Árdal.
1942, mars: Öskudagurinn eftir Þ. Egilsson (2 sýningar).
1943? Jói getur allt.
MacDonald hét skoskur hermaður, annar tveggja sem höfðust
við í Skeljavík á stríðsárunum og höfðu þar varðstöðu í gamla
bænum með samþykki hreppsnefndar 1943. Þeir dvöldu þarna
alllengi, sennilega til stríðsloka, og fór lítið fyrir þeim og voru
hinir viðkunnanlegustu menn. Áttu þeir lítið að erinda við
þorpsbúa, helst var að þeir kæmu inn á Riis-planið að snapa sér
fisk í soðið, sem var guðvelkomið. Eitt sinn var þeim boðinn
steinbítur, afar fallegur, feitur og bústinn. Hrollur virtist þá fara
um stríðshetjurnar af viðbjóði, en boðið var vel meint. Unglingar
náðu vinsamlegu sambandi við þessa pilta, einkum þeir sem búnir
voru að læra nokkur orð í ensku hjá Jóni kennara.
Skátafélagið færði eitt sinn upp smáleikritið Jói getur allt.
Skammbyssa var þar á meðal leikmuna. Lengi vel fannst ekki
annað ráð en láta smíða eftirlíkingu úr tré og mála svarta. Þá datt
Lúðvík Hjaltasyni það snjallræði í hug að leita til MacDonalds,
sem umsvifalaust hristi skotin úr skammbyssu sinni og léði honum
við sýningarnar. MacDonald og félagi hans voru heiðursgestir á
frumsýningunni. Lúðvík tók leiklistarbakteríuna á þessum tíma
og virtist kominn á harða sprett að hressa upp á leiklist staðarins.
En hann fluttist rúmlega tvítugur frá Hólmavík með foreldrum
sínum og var mjög fljótlega kominn á fjalir Þjóðleikhússins í
Reykjavík. Örfáum árum síðar var hann allur. Hvað hefði annars
getað orðið? Lúðvík hafði margt til að bera til að verða
stórleikari.