Strandapósturinn - 01.06.2010, Qupperneq 107
105
veginn finnst mér hún ekki eins köld og Drangavíkuráin. Kannski
virkar kuldinn hressandi á þreytta fætur eða er það tilhlökkunin
að komast heim í Ófeigsfjörð. Þar á maður von á góðum
viðtökum hvar sem borið er niður, hjá Siggu, Ingibjörgu eða
Ellu.
Þegar við stöndum á hlaðinu í Ófeigsfirði er næstum komið
myrkur. Okkur er tekið með kostum og kynjum, við tökum af
okkur pokana og erum drifnir í hús. Það verður gott að sofna í
kvöld.
Morguninn eftir vöknum við snemma. Við ætlum út á Seljanes.
Þar búa systir mín og mágur og afi minn. Við höfum sofið vel um
nóttina og notið gestrisni fólksins í Ófeigsfirði. Við þökkum fyrir
okkur með handabandi, kveðjum og höldum út með firðinum,
förum með sjónum. Einar er ekkert að skima eftir rebbum, hann
veit að þeir eru ekki mikið að snuðra á þessu hættusvæði þar
sem hver maður fer um vopnaður. Við erum fljótir, langt innan
við klukkutíma og er við komum á Nátthagaklettana sé ég að
afi er úti við. Ég kvíði svolítið fyrir að heilsa honum, því hann
tekur í vörina og afa sínum heilsar maður með kossi. Þá er alltaf
spurningin hvort hann sé nýbúinn að spýta. Ef hann er nýbúinn
er allt í lagi, annars er hætta á að eitthvað af tóbaksleginum
lendi á röngum stað. Þegar hann sér okkur kemur hann til móts
við okkur og heilsunin gengur vel, ekkert tóbak. Hann býður
okkur í bæinn og þar taka Gústa og Benni á móti okkur með
glaðværð.
Við þiggjum veitingar, ég mjólk og kökur en Einar vill kaffið
svart. Hann er yfirheyrður um ferðalagið, segir veiðisöguna. – Ég
hélt að ég hefði misst af henni, helvítis tæfunni, hefði ekki hitt
hana í fyrra skotinu. Svo sá ég að hún stakk við og þá lét ég hitt
vaða á eftir henni. Þá var þetta búið, hún lá þarna steindauð. –
Eftir rabb og skemmtisögur, því Benni er allra manna
skemmtilegastur er farið að tygja sig til ferðar. Hann vill endilega
setja undir okkur hesta inn í Ingólfsfjörð, en Einar segir það
óþarfa, okkur sé engin vorkunn að rölta þetta inn með firðinum
í góðu færi. Svo kveðjum við alla með virktum og afi biður Einar
fyrir kveðju til Betu sinnar. Ég sé að það er glettnisglampi í
auganu á afa. Ég veit ekki hvers vegna.
Inn í Ingólfsfjörð er um klukkutíma gangur. Mér finnst það