Strandapósturinn - 01.06.2010, Page 114
112
var ljósbauja og manni bar að passa hana þar til ,,ræst var“ til að
draga línuna. Látið var reka 10–15 mínútur eftir því hve hratt
bátinn rak, þá var keyrt aftur að ljósbaujunni og látið reka að
nýju. Eiginlega gat maður ekkert annað gert en að ,,syngja“ á
baujuvaktinni með lokaða glugga þannig að ekki heyrðist fram í
lúkar þar sem karlarnir sváfu.
Undir lok baujunnar, en þá var ég búinn að keyra nokkrum
sinnum að ljósinu, er ég að dóla að ljósinu og þar sem Mummi
var búin að kenna mér að nota klukku og áttavita skynjaði ég að
ég átti að vera kominn að því, en var samt að keyra með stefnuna
á ljós sem ég sá fram undan. Tíminn passaði ekki og ég stoppaði
Hilmi og ræsti Mumma sem kom hið snarasta upp, án þess að
fá sér kaffi. ,,Nú, nú, ég skil þetta nú ekki“ sagði hann og spurði
mig um strik og tíma. Maggi og Dúddi voru komnir upp og þótti
ekki gott í efni, ,,baujan týnd“ hjá stráknum. Mummi dólaði af
stað út í myrkrið á strikinu og við stóðum á útkikki með kveikt á
kastaranum og viti menn; án þess að baujan sæist, því slokknað
hafði á henni, þá skrönglaðist hún með fram borðstokknum
stjórnborðsmegin, þannig að við náðum henni með krókstjaka
og fórum að draga línuna sem ekkert væri. Þetta var dæmigerður
Mummi á Hilmi ST 1 upp á punkt og strik.
Það var nú vissara að vanda sig við að hringa niður línuna svo
landmennirnir yrðu ekki trompaðir yfir þessum ,,flækjudrætti“.
Þeir vildu helst að dregið væri af eins og í stokk og þá reyndist
Maggi Ingimundar vel í fyrstu tilsögn: láta taum og krók snúast
ofan af línunni á þeim 2 metrum sem voru frá spili að bala, helst
átti krókurinn að krækjast í eigin hring um leið og línan féll
niður í balann. Þetta tókst ekki alltaf, en mikið var reynt til að
þóknast beitningamönnunum.
Þrettándi róðurinn var svolítið vandamál eftir áramótin og
byggðist á gamalli hjátrú eða einhverju sem hafði gerst á árum
áður á Hilmi og tengdist þrettánda róðrinum, sem ég kann ekki
að greina frá. Við snerum tvisvar við utan við Grímsey, í þriðja
sinn lögðum við línuna inni á Steingrímsfirði og var aflinn lítill
í það sinn.
Þótt Hilmir væri frábært sjóskip munaði einu sinni litlu að illa
færi. Við vorum að enda við að draga línuna út af Reykjarfirði.
Það hafði verið norðan undiralda og gott í sjóinn, svo fór hann