Strandapósturinn - 01.06.2010, Page 122
120
Eymundi Magnússyni, eftir tilskilið 6 ára nám í skólanum, um að
prófað væri, hvort hann hefði öðlazt þessa menntun og þennan
andlega þroska. Eymundur hafði fulla ástæðu til þess að halda,
að hann hefði öðlazt þetta, að hann stæðist prófið, hafði aldrei
fallið á prófi í skólanum. Vetrareinkunnir hefðu átt að vera til
um þessar mundir (um miðjan marz 1934), þegar Eymundur var
rekinn, en þær finnast ekki eða voru þær kannski aldrei gefnar.
Í skólasskýrslum MR stendur ekkert um málið, nema sú stutta
athugasemd er gerð við nafn Eymundar, að sagt er, að hann hafi
ekki verið í skólanum „allt skólaárið“.
Tryggvi spurðist fyrir um það hjá kennslumálaráðherra,
munnlega og líklegast einnig skriflega, hvort Eymundur, bróðir
hans, fengi að taka stúdentspróf utanskóla, en fékk ekkert svar.
Upplestrarfríið leið, Eymundur fór til Kaupmannahafnar, systir
hans bjó þar, en hugmyndir hans um danskt stúdentspróf voru
ekki raunsæjar. Skólanámi í „æðri“ skólum var lokið, við tók
iðnnám í nokkur misseri, Eymundur flutti inn á Hótel Lux
í Moskvu. Hann varð fyrsti fulllærði prentmyndasmiðurinn á
Íslandi. Áratugir liðu, og þá frétti Eymundur, hvaða yfirkennari
hafði staðið fyrir brottrekstrarsamþykktinni og einnig, að
menntaskólarektor og kennslumálaráðherrann, sem þagði,
hefðu verið systkinasynir.
Orð ráðherrans, Jónasar Jónssonar, sem setti skólareglugerð-
ina, um að nemendur mættu ekki skrifa um pólitísk málefni „út
á við“, rifjast upp. Þegar nemandi féll á gagnfræðaprófi vegna
lélegrar einkunnar í stærðfræði og hrökklaðist úr skóla, hafði
Jónas ráðherra þessi orð um hann: „lífsþráður hans var skorinn
í sundur í sálarlausri prófvél.“ Aðstandendanefnd betri borgara
í Reykjavík kom árið 1931 á kennarafund í nemendaverkfalli
áðurnefnds skóla, þegar lá við brottrekstri nemenda í stórum
stíl. Þá var talað um sorg foreldranna, ef nemendur yrðu látnir
víkja úr skólanum, og slíkt gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir
allt landið. Einlæg ósk foreldranna var, að reynt yrði að ráða
fram úr málum, jafnvel mátti skilja á aðstandendanefndinni,
að svo gæti farið, að skipt yrði um yfirstjórn í skólanum og þá
um r..... líka?!! Þetta mál var leyst og enginn rekinn. Sagnfræði
grefur upp það, sem grafizt hefur undir og fellir sína dóma.