Strandapósturinn - 01.06.2010, Side 124
122
unnið í stálverksmiðju í Moskvu, en það mun einmitt hafa verið
opinbera skýringin á dvöl Hallgríms þar, að hann hafi unnið
í verksmiðju. Frá hinu mátti ekki uppljóstra, að hann hefði
verið þar í skóla Kominterns. Fengu nemendur skjal, sem átti
að staðfesta verksmiðjuvinnuna, og því máttu þeir framvísa,
þegar komið var heim. Í greininni í Iðnnemanum segir, að í
verksmiðjunni, sem var ný, hafi unnið 7.000 manns og átti eftir
að fjölga, því hún var ekki komin í notkun að fullu. Eins og við
aðrar stórar sovézkar verksmiðjur, þá var þar rekinn verkskóli,
og við hann voru 3.000 nemendur. Lýst er, hvernig nám og starf
tengist saman. Iðnnemar fengu námsstyrk og kaup skv. akkorði.
Í blaði liðs Félags ungra kommúnista í Iðnskólanum í Reykjavík,
sem hét Iðnneminn, en kom aðeins út í einu tölublaði, snemma
árs 1932, er birtur kafli úr sendibréfi frá Sovétríkjunum um
iðnnema í kúluleguverksmiðju í Moskvu og kjör þeirra (Iðnnemar
Sovjet-Rússlands). Sú grein kemur vel heim og saman við þá, sem
áðan var lýst. Þessi seinni grein er ómerkt, og verður ekkert sagt
frekar um, hver er höfundur hennar.
Í Strandapóstinum frá 2009 er vikið að bréfaskiptum Agnars
Kofoed-Hansens og Eymundar 1935, en Agnar var þá að ljúka
liðsforingjanámi í Danmörku. Hvaða upplýsingar Agnar Kofoed-
Hansen fékk frá Eymundi, vitum við ekki, en í Skinfaxa ritaði
Agnar 1937: „Rússneska æskan hefir gripið svifflugið enn fastari
tökum, og með meiri áhuga en annarstaðar eru dæmi til.
Rússneska æskan er í öllum sínum frístundum í loftinu.“ (Um
svifflug. Skinfaxi. Tímarit U.M.F.Í., 18. árg., bls. 62–67, 1937.)
Kunnugt er um eitt viðtal við Ásgeir Blöndal Magnússon um
þessa tíma og dvöl hans í Moskvu. Það tók Haraldur Jóhannsson
við hann sumarið 1978 (Þá rauður loginn brann. Rvk 1991).