Strandapósturinn - 01.06.2011, Blaðsíða 85
83
Þarna nokkru ofar í holtinu var byggt tófubúr yfir tófuyrðlinga
sem Óli hafði náð lifandi á greni. Voru þeir síðan aldir þarna í
búrinu en undu ófrelsinu skiljanlega illa. Við Kitti Lyngmó fórum
stundum með mat til þeirra – dauða fugla eða annað ætilegt fyrir
þá.
Einu sinni sem oftar vorum við komnir þar með saðningu fyrir
tófurnar, opnuðum hurð á byrginu og ætluðum að henda til
þeirra fæðunni, þá veit ég ekki fyrr til en ein tófan – mórauð að
lit og sérlega falleg – tekur undir sig stökk og stekkur á mig með
krafti þannig að ég hrekk undan – og um leið smaug hún út á
milli okkar og var fljót út í frelsið – og þar með auðvitað okkur
glötuð. Við vorum heldur framlágir þegar heim kom og sögðum
tíðindin. Stuttu síðar var þetta tófueldi lagt af.
Þarna nálægt – undir holtbarðinu ekki langt frá fjárhúsunum,
var lítil falleg lind með tæru og hreinu vatni sem seytlaði undan
barðinu. Var sagt, að þetta væri lind, sem Guðmundur góði hefði
vígt á sínum tíma og væri vatnið úr lindinni heilsusamlegt og
ágætt að dreypa því á augu og enni til heilsubótar. Maður staldr-
aði stundum við þessa lind og naut vígða vatnsins og hugsaði um
það hvernig þetta vatn gæti verið heilagra en annað vatn og
heilsubætandi, þó einhver góður biskup hefði vígt það fyrir
hundruðum ára, og þá auðvitað allt annað en þetta vatn sem nú
rann. En trúin flytur fjöll – og gott er að treysta á mátt hins góða
og fagra.
Mér varð líka oft hugsað um lífið og dauðann, þó ungur væri,
þegar ég sat við leiði Hallvarðar og horfði á krossa og krans, þar
sem englar voru á verði yfir mönnunum og gættu þeirra líka, sem
farnir voru. Allt var þetta umhugsunarefni um þetta líf og hvað
tæki við að því loknu – þó auðvitað hafi ég ekki þá hugsað það á
slíkum nótum sem barn, enda þótt mitt lífsstarf hafi síðar snúist
um eðli tilverunnar og trúna á almáttugan Guð.
Brúin á Sunndalsá
Á leiðinni frá Höfnum og heim að bæ í Skjaldarvík er Sunn-
dalsá – á sumrin oftast vatnslítil, en getur orðið allvatnsmikil í
leysingum og þegar mikið rignir. Var því talið nauðsynlegt að
brúa ána, þar sem menn fóru iðulega þarna um vegna lending-
arinnar í Höfnum, alllangt frá bænum.