Strandapósturinn - 01.06.2011, Page 99
97
til áræðis og frama og höfðu þegar bollalagt sitthvað um framtíð-
ina. Jón ætlaði að verða stórbóndi, Nikulás hneigðist til skáldskap-
ar og Þorsteinn var ráðinn í að verða prestur eins og faðir þeirra.
Einmæltir voru þeir bræður um það, að láta búskap sinn ekki
verða hið gamalkunna hokur þar sem aldrei mátti sælast til mun-
aðar af neinu tagi og vergangsstígurinn hlykkjaðist bak við næsta
leiti, enda að langfeðgatali komnir af Guðmundi Arasyni á Reyk-
hólum, einum auðugasta manni sem uppi hefur verið á landinu.
Þótt þeir bræður tryðu allir nokkuð freklega á mátt sinn og megin
voru þeir sér vel meðvitandi að til þess að koma djörfum framtíð-
aráformum í kring þurfti – það sem nú í tíma og ótíma er nefnt
fjármagn – en þá var notað hið einfalda heiti gull.
Oft höfðu þeir rætt það sín á milli, hver óhæfa væri að láta
gullið í Mókollshaug liggja ónotað um aldur og ævi, engum til
nytja í stað þess einfaldlega að moka ofan af því og koma því í
arðbæra eign. Og eina stjörnubjarta nýársnótt þegar álfar þeystu
yfir hjarn og himintjöld bröguðu af norðurljósum, stóðu þeir
bræður úti í hlaðvarpanum á Felli og strengdu þess heit að láta til
skarar skríða næsta vor og sjá hvort mætti sín meira, atfylgi og þor
ungra manna eða gamlar kerlingabækur. Það vorar hægt á Vest-
fjörðum, lengi vel er úthaginn grár yfir að líta, þótt önnur byggð-
arlög hafi þegar skrýðst grænu. En loksins mettast tún og engi af
óvenju kjarnmiklum gróðri. Kollafjörður, þessi litla hlýlega sveit,
verður grænn upp á efstu brúnir og dalirnir innar af móka í frjó-
semd og kyrrð. Einn slíkan vordag þegar allur klaki var úr jörð og
móar og melar orðnir þurrir og greiðfærir, héldu þeir Fellsbræð-
ur fram á Mókollsdal með rekur og reiptögl og allan tiltækan
búnað til að opna hauginn og hefja fjársjóðinn úr iðrum hans.
Segir ekki af verki þeirra fyrr en þeir höfðu fundið kistu með stór-
eflis hring á loki og undið hana langleiðis upp með böndum.
Verður þá einum þeirra, væntanlega Þorsteini tilvonandi presti,
að orði: „Nú tekst ef Guð vill.“ En þá svarar annar hinna sem orð-
inn var helst til sigurviss: „Nú tekst, hvort sem Guð vill eður ei.“
En um leið slapp hringurinn af kistulokinu og misstu þeir hana
niður aftur. Samtímis varð þeim litið heim til bæjar og sýndist
þeim öll hús þar standa í ljósum logum. Hlupu þeir þá allir til og
vildu hjálpa en er þangað kom var engan eld að sjá. Sneru þeir þá
aftur til haugsins en hann var luktur sem fyrr og engin ummerki