Strandapósturinn - 01.06.2011, Side 104
102
að komast í útlent skip, enda oftast gnótt erlendra fiskiskipa upp
við landsteina á þessum tímum. Næst þegar til þeirra spyrst eru
þau komin vestur í Dýrafjörð og hafa vafalaust fengið hesta á Felli
til þeirrar langferðar, því óhugsandi er að Sigríður hafi gengið
alla þá leið komin að falli. Á Dýrafirði gekk þeim greiðlega að
komast í skip sem var í þann veginn að leggja af stað til Bretlands.
Horfði nú allvel málum þeirra og virtist svo sem þau væru sloppin
úr klóm réttvísinnar. En ekki var siglingin fyrr hafin en Sigríður
var orðin fárveik – með öngvitum og örvæntingarorðum. Er lík-
legt að mögnuð sjóveiki hafi bæst ofan á annan sjúkleika hennar,
því svo fór að hvorki hún sjálf né hinir ensku sjómenn, treystu
henni til að leggja í svo langa sjóferð sem fyrir höndum var. Var
því siglt upp að landi öðru hvoru megin við Breiðafjörð og Sigríð-
ur flutt í land og gefin á vald örlögum sínum ein og óstudd. Þar
skildi með þeim Jóni, því hann hélt áfram til Englands og vegnaði
þar vel að því er sagan segir. Sagt var að hann kæmi síðar upp að
Íslandsströndum á fiskiskipi og var þá kvæntur maður ytra. Er
ekki ólíklegt að hann hafi þá spurt frétta úr Breiðafjarðarbyggð-
um, svo mikið sem hann skildi þar eftir.
Ekki er vitað hvar Sigríði bar fyrst að garði þegar hún steig af
skipsfjöl og leitaði aðframkomin á náðir manna. En hver sá, sem
þar réð húsum, brá skjótt við og framseldi hana yfirvöldum, enda
mun alþýða manna í þá daga hafa óttast mjög allar yfirhylmingar
með sakamönnum.
Og sýslumaðurinn, Jón Magnússon, lét ekki á sér standa að
reiða upp refsivöndinn, enda hefði hann tæplega orðið mosavax-
inn í embætti sínu, ef hann hefði reynt að láta sér sjást yfir afbrot
þessarar bersyndugu konu. Þó var dokað við uns hún hafði alið
barn sitt, því lögum samkvæmt voru ófrískar konur ekki teknar af
lífi, þá var líka um tvö líf að ræða, annað sárasaklaust.
Sigríður mun hafa verið færð til dómþings á Ballará, miðsum-
ars 1610. Þar var hún dæmd til lífláts og dómnum framfylgt þar í
landareigninni að bragði.
Ekki veit ég hvernig fámennum hópi tötralegra bænda hefur
verið innanbrjósts þegar þeir, undir umsjón yfirvalds síns, færðu
þessa ungu konu í bönd og vörpuðu henni í hylinn í Deildargili.
Líklega hefur þeim fundist þeir vera að vinna fyrir kónginn eða
það sem meira var, hinn ógnarlega refsiguð sem þeir trúðu á.