Strandapósturinn - 01.06.2011, Side 166
164
Í Grímsstaðaannál, rituðum af Jóni Ólafssyni á Grímsstöðum í
Breiðavík á Snæfellsnesi, segir við árið 1763:
Þjófar tveir teknir á Dröngum í Trékyllisvík, Eyvindur og Abra-
ham að nafni … það var skömmu eftir páskana.
Með vísan til þessara orða í Grímsstaðaannál leyfði Ólafur
Briem sér að álykta, svo sem eðlilegt var, að kofinn í Bjarnarfirði
myndi hafa verið bústaður Fjalla-Eyvindar. Ólafi var ekki kunnugt
um frásögn Halldórs Jakobssonar, sýslumanns Strandamanna, af
handtöku Eyvindar og Höllu 13. apríl 1763 né heldur um vitnis-
burði liðsmanna Halldórs af gangi mála við leitina að útlögunum
fyrir handtökuna en þau gögn eru varðveitt í skjalasafni amt-
manns.
Hér hefur áður verið getið um frásögn Halldórs sýslumanns af
dvöl Eyvindar, Höllu og Abrahams í Drangavíkurfjalli og lýsingu
fylgdarmanna hans á nánasta umhverfi bústaðar þeirra þar (sjá
hér bls. 159–60). Í bréfi sínu til amtmanns, rituðu 25. apríl 1763,
greinir Halldór frá því að þann 11. apríl hafi hann, ásamt fylgd-
armönnum sínum, komið að útilegumannabælinu í Drangavík-
urfjalli. Halldór tekur fram að nóttina áður hafi fólkið sem þar
átti samastað flúið en hins vegar hafi þau náðst „norðan Dranga“
hinn 13. sama mánaðar. Orðalagið „norðan Dranga“ getur vart
falið í sér aðra merkingu en þá að þau hafi verið handtekin ein-
hvers staðar í landareign Dranga en fyrir norðan bæinn á Dröng-
um því fráleitt virðist að sýslumaður hefði látið vera að nefna
Skjaldabjarnarvík, sem er næsta jörð fyrir norðan Dranga, ef
handtakan hefði átt sér stað í hennar landareign.
Öll austurströnd (suðurströnd) Bjarnarfjarðar er í landi Dranga
og kofinn, sem Ólafur Briem taldi hafa verið bústað Fjalla-Eyvind-
ar og fyrr var á minnst, því í landareign þeirrar jarðar. Halldór
sýslumaður og leitarmenn hans nefna ekki þann bústað. Engu að
síður er líklegt að Eyvindur og hans fólk hafi hafst þar við um
lengri eða skemmri tíma og hugsað sér að snúa þangað á ný ef
þau slyppu við handtöku. Orðalagið „norðan Dranga“ gefur líka
eindregið til kynna að þau Eyvindur og Halla hafi verið handtek-
in þar í grennd, það er að segja í Bjarnarfirði eða á svæðinu milli
bæjarins á Dröngum og fjarðarins.