Bændablaðið - 23.09.2021, Blaðsíða 52
Bændablaðið | Fimmtudagur 23. september 202152
LÍF&STARF
Það sem hafa þarf bak við eyrað er farið er í sveppamó:
Áhugafólk getur óhikað tínt sér til matar
Þó nokkuð er um sveppatínslu
fólks hér á landi þegar líða tekur
að hausti og gæta þarf þess að
ganga í verkið áður en jörð frystir.
Vinsælastir eru kúalubbi og
lerkisveppir, sem má finna víða auk
þess sem kantarellur þykja spennandi,
en þær eru heldur fágætari. Leggja
margir land undir fót til að finna það
hnossgæti sem ferskir sveppir eru,
en hins vegar er nóg að skreppa rétt
út fyrir borgarmörkin og skiptir þá
litlu hvort haldið er í Hvalfjörð eða
nálægt Bláfjöllum.
Næringarríkt góðgæti
Sveppir eru próteinríkir auk þess að
innihalda mikið af B-vítamínum,
kalíum og járni og því er vert að
kynna sér íslenska matsveppi.
Auk áðurtalinna sveppa þykja
furusveppir góðir þó fjarlægja þurfi
himnuna af hatti sveppsins áður en
hans er neytt. Furusveppur finnst
víða um land og þá oft nálægt
byggð. Kóngssveppur er annar,
oft kallaður ætilubbi, og líkt og
kantarellan oft falinn undir gróðri.
Kóngssveppurinn er ekki sérstaklega
algengur á Íslandi, en þó stór og
góður matsveppur sem getur orðið
nokkur kg að þyngd.
Aðgát skal höfð ...
Gæta verður þess að tína sveppi
ekki í bleytu, heldur degi eða helst
nokkrum dögum eftir rigningu því
þá skemmast þeir síður. Einnig skal
gæta þess að setja þá ekki í plastpoka
þar sem þá er frekari hætta á rotnun,
en nota frekar körfu eða pappakassa
þegar verið er að tína.
Mælt er með að finna sér unga
sveppi fremur en eldri vegna hættu
á lirfum, auk þess sem best er að tína
sveppi við ung tré. Þegar sveppur er
tekinn upp skal taka neðst um stafinn
og snúa upp á hann um leið og hann
er tekinn, skera svo burt skemmdir
og þrífa sem best. Þegar heim er
komið er best að skera sveppina í
sneiðar, steikja og frysta.
(Ofantaldir eru allt sveppir sem
mynda sveppagró við aðrar plöntur.
Það þýðir í raun að þeir búa nálægt
öðrum plöntum, líkt og heiti lerki- og
furusveppa bendir til og fá næringu
sína frá þeim.)
Áhugamenn við tínslu
Kitty Von-Sometime er mikil
áhugamanneskja um þá næringu
sem náttúran gefur okkur og
þar með talið sveppi. Hún fór í
sveppamó á dögunum í nærumhverfi
höfuðborgarinnar og tíndi þar heil
ósköp eins og sjá má.
Kitty kannast við helstu íslensku
tegundirnar og nýtir sér upplýsingar
af netinu í hvívetna. Víða má finna
netsíður er varða íslenska sveppi,
þá til dæmis www.floraislands.is,
marga hópa má finna á Facebook og
þar fram eftir götunum. Í Englandi,
þar sem hún ólst upp, var mikið um
tínslu sveppa. Tegundirnar þar eru
mun fleiri auk þess sem eitraðar
tegundir geta verið keimlíkar þeim
sem ekki bera í sér eitur, annað en
hérlendis, og því er þar stuðst við
þrenns konar staðfestingu ef svo má
segja.
„Þar sem ég ólst upp,“ segir
Kitty, „er reglan sú að stuðst er við
munnlega heimild þeirra sem þekkja
til, leitast er eftir upplýsingum á
netinu og að auki úr bókum. Þá ætti
að vera hægt að neyta sveppanna án
tiltölulegra vandkvæða.
Á Íslandi er ég mjög hrifin af
kóngasveppum og svo kantarellum
sem ég rakst á eitt skiptið á
Vestfjörðum. Ég nýti sveppina í bæði
grænmetisrétti og súpur og geng að
sjálfsögðu frá þeim um leið og heim
er komið. Steiki þá bæði, frysti og
þurrka og á í frystinum töluvert magn
sem nýtist lengi.
Fólk í kringum mig er einnig
gjarnt á að bjóða mér af sínum feng
ef því þykir það eiga umfram en
neysla þess býður upp á – enda er
ég alls ekki hlynnt matarsóun og þigg
því slíkt með þökkum.“ /SP
Kitty lagði leið sína rétt út fyrir bæinn og fann þar heilmikið af sveppum, meðal annars kúalubba og furusveppi, sem nú eru í þurrkun og verða frystir innan
skamms. Matarmiklar súpur og sósur má gera úr þeim auk þess sem þeir þykja góð viðbót við pottrétti. Upplagður haustmatur semsé!
Kóngasveppi líkt og aðra skal tína sem ferskasta og helst óskemmda. Nokkuð
er um að sniglar og skordýr séu fyrri til að gæða sér á þeim.
Lerkisveppur lifir í samlífi með lerki og þykja afar bragð-
góðir bæði í súpur og sósur.
Handfylli af ferskum sveppum má finna rétt fyrir utan
höfuðborgina.
Bragð kantarellusveppa þykir minna á apríkósur og er
hann einn fárra sveppa sem skordýr eru lítt hrifin af.
Auðvelt er að þurrka hann og frysta.
Myndarlegur og vel með farinn sveppur sem bragðast
örugglega vel þegar á diskinn er komið.
Furusveppir eru vinsælir en gæta þarf þess að draga
slímhúðina af hattinum áður en matreitt er úr honum
vegna hættu á meltingartruflunum við átu.