Fréttablaðið - 29.01.2022, Blaðsíða 90
Algert fífl og dóni
Fólki var víða heitt í hamsi í
október 2008 þegar bankar,
efnahagskerfi og heilu
samfélögin riðuðu til falls.
Ísland lék þá á reiðiskjálfi
og búsáhöld voru barin af
miklum móð.
Flest spjót, sleifar, pottar og
pönnur, stóðu á Geir H. Haarde
forsætisráðherra sem ákallaði
meðal annars Guð á meðan
hann reyndi að stíga reiðiölduna heima fyrir og
verjast árásum vondra Breta, sem gerðu sig lík-
lega til að beita þjóðina hryðjuverkalögum.
Þráðurinn var orðinn helst til stuttur í for-
sætisráðherranum á blaðamannafundi í Iðnó
snemma í október þegar hann kallaði Helga
Seljan, þá fréttamann Kastljóss, fífl og dóna, án
þess að gera sér grein fyrir að hann var í talfæri
við virkan hljóðnema.
Á fundinum fór Geir yfir stöðuna í Icesave-
deilunni og svaraði síðan spurningum frétta-
fólks en sýndi spurningu frá Helga takmarkaðan
áhuga, greip fram í fyrir honum og sleit fund-
inum.
Þegar Helgi yfirgaf salinn heyrðist Geir síðan
hvísla að Urði Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa
utanríkisráðuneytisins, að hann væri „algert fífl
og dóni, þessi maður“. Virkur hljóðneminn nam
þessi orð, sem enduðu á víðförulli upptöku sem
enn má heyra á öldum internetsins og hlýtur
að teljast með þeim vandræðalegustu, af ótal
uppákomum, í hruninu og eftirmálum þess.
Hvað með feita?
Opinn hljóðnemi kom Arnari Páli Haukssyni,
fréttamanni Ríkisútvarpsins, í bobba þegar verið
var að gera klárt fyrir pallborðsumræður for-
ystufólks stjórnmálaflokkanna á Fundi fólksins
í september 2016, sem áttu að vera upptaktur
fyrir kosningabaráttuna.
Arnar Páll stýrði umræðunum í beinni út-
sendingu, en áður en hún hófst heyrðist hann
spyrja þau Katrínu Jakobsdóttur, formann
Vinstri grænna, og Óttar Proppé, formann
Bjartrar framtíðar, hvar þau ætluðu að „láta
þennan feita vera“ og átti þar við Sigurð Inga
Jóhannsson, forsætisráðherra og formann
Framsóknarflokksins.
Óviðeigandi spurningin náðist á upptöku,
sem og framhaldið, sem gerði ekkert annað en
bæta gráu ofan á svart þegar Katrín spurði hvort
enginn myndi koma frá Framsóknarflokknum.
Þá höfðu allir formennirnir tekið sér stöðu
við pallborðið nema Sigurður Ingi og Arnar Páll
endurtók spurninguna: „Hvar eigum við að koma
honum fyrir, þessum feita?“
Upptakan vakti víða viðbrögð, mishörð, en
þáverandi Framsóknarþingmennirnir Vigdís
Hauksdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson voru
meðal þeirra sem gagnrýndu framkomu Arnars
Páls harðlega.
Hann bað Sigurð Inga innilega afsökunar og
sagðist hafa gert „hrapalleg mistök“ þegar hann
kallaði hann feitan og upplýsti í samtali við Vísi
að hann hefði hringt í forsætisráðherrann þá-
verandi: „Hann tók því bara mjög vel og ég met
hann mjög mikils sem stjórnmálamann. Þetta
voru hrapalleg mistök.“
Bæ, bæ, hálfviti
Leikarinn og leikstjórinn Mel Gibson hefur í
seinni tíð stundað það ítrekað að koma sér í
meiri háttar klandur með hljóðupptökum þar
sem hann úðar út úr sér formælingum, haturs-
orðræðu og hótunum.
Hann hélt uppteknum hætti í febrúar 2010
þegar hann var að kynna spennumyndina Edge
of Darkness í viðtali við Dean Richards, frétta-
mann á WGN-TV, í beinni útsendingu.
Framan af fór vel á með viðmælandanum og
blaðamanninum, en þegar Richards fór út fyrir
umræðuefnið og spurði Gibson út í skandala í
kringum andsemitískan fúkyrðaflaum sem frá
honum kom fjórum árum áður fauk sýnilega í
leikarann.
Gibson var enn í mynd, og með hljóði, þegar
viðtalinu var lokið og hann saup reiðilega úr
kaffimáli áður en hann ítrekaði kveðju sína með
þessum orðum: „Bye, bye, asshole.“ Snara býður
upp á þrjár íslenskar merkingar orðsins: hálfviti,
asni og rassgat. Líklega kemst sú síðastnefnda
næst meiningu Gibsons.
Biturri reynslunni ríkari baðst Gibson snarlega
afsökunar á orðum sínum með yfirlýsingu þar
sem hann sagðist alls ekki hafa verið að ávarpa
fréttamanninn heldur kynningarfulltrúa sinn,
sem hefði verið að geifla sig framan í hann utan
sjónmáls tökuvélarinnar.
Grasasninn Kanye
Í forsetatíð sinni blandaði
Barack Obama sér, óvænt og
eiginlega óvart, í langdregna
deilu tónlistarstjarnanna
Taylor Swift og Kanye West,
þegar hann sagði Kanye vera
„blábjána“ á meðan hann
hitaði sig upp fyrir viðtal,
ómeðvitaður um að upptaka
væri í gangi.
Forsetinn lét ummælin falla
í kjölfar þess að rapparinn
hafði ruðst upp á sviðið með truflandi dólg
þegar sveitasöngkonan tók við MTV-verð-
launum í september 2009.
Obama var að gera sig kláran fyrir viðtal
nokkrum dögum síðar þegar hann furðaði sig á
framkomu Kanye, sem hann skýrði, aðspurður,
með því að West væri „jackass“ sem samkvæmt
íslenskum orðabókarskilgreiningum útleggst
sem blábjáni, fífl, flón, grasasni eða kjáni. Og
velji nú hver fyrir sig.
Ummæli forsetans voru það sem kallast „off
the record“ og ekki ætluð til birtingar, en upp-
takan af þeim fór þó á flakk og var fyrst spiluð á
slúðurvefnum TMZ.
TMZ birti fyrst upptökuna sem þar með komst á
spjöld internetsögunnar. SKJÁSKOT/YOUTUBE
Kaldur á fréttakantinum
Fréttafólk sem liggur mikið á
hjarta sem á ekki erindi við al-
þjóð þarf sérstaklega að varast
„heita hljóðnema“ og helst
halda aftur af sér þangað til
þeir verða kaldir.
Ingólfur Bjarni Sigfússon
brenndi sig á þessu við afkynn-
ingu kvöldfrétta RÚV í ágúst-
byrjun 2012, þegar hann fræddi
sessunauta sína í fréttasettinu
um að nú væri eiginlega „bara
ágætt að fara bara og fá sér
einn kaldan og horfa á hand-
boltann“.
Yfirlýsing fréttamannsins
um bjórþorsta og handbolta-
spennu fór lóðbeint út á öldur
ljósvakans og þaðan á inter-
netið, þar sem þessi orð lifa
enn góðu lífi. Enda fleyg, eins
og sést best á því að þau eru
svo sígild að þau áttu ekki síður
við í gær en fyrir áratug.
Joe Biden Bandaríkjaforseti
kallaði fréttamann „tíkarson“
fyrir framan opinn hljóð-
nema í byrjun vikunnar og
gerðist þar með sporgöngu-
maður Geirs H. Haarde sem
á sínum tíma kallaði frétta-
mann fífl og dóna, og fleiri
sem hafa flaskað á virkum
míkrófónum og vakandi
tökuvélum.
toti@frettabladid.is
Joe Biden, forseta Bandaríkjanna,
þraut þolinmæðin gagnvart Peter
Doocy, fréttamanni Fox News, á
blaðamannafundi í byrjun vikunn-
ar og kallaði hann „tíkarson“.
Pirringur forsetans náðist vita-
skuld á upptöku þannig að orð
hans fengu vængi sem hafa borið
þau umhverfis jörðina á innan við
80 klukkustundum.
Þetta var á fundi svokallaðs Sam-
keppnisþings í Hvíta húsinu, þegar
Doocy spurði forsetann út í met-
verðbólgu í landinu. Svarið, eða
tónninn í því öllu heldur, varð síðan
sjálfstæð frétt:
„Það er frábær kostur – meiri
verðbólga. Hversu heimskur tíkar-
sonur,“ sagði Biden og hristi höf-
uðið. Doocy hefur slegið orðum for-
setans upp í grín, með þeim orðum
að enn hafi enginn afsannað kenn-
ingar forsetans um að hann sé tíkar-
sonur og í Hvíta húsinu virðist afar
takmarkaður áhugi á að bregðast
frekar við orðum Bidens.
Við byrjum að sprengja
Biden er ekki fyrsti Bandaríkjafor-
setinn sem bregður á leik, ef svo má
að orði komast, við virkan hljóð-
nema. Ronald Reagan kom til dæmis
sterkur inn í þessum efnum og fór
létt með að skekja heimsbyggðina
með óábyrgu tali, löngu fyrir tíma
internetsins og samfélagsmiðla.
„Kæru landar, það gleður mig
að tilkynna ykkur að í dag hef ég
undirritað löggjöf sem gerir Rúss-
land að eilífu útlægt. Við byrjum að
sprengja eftir fimm mínútur.“
Þessi goðsagnakenndu orð lét
Ronald Reagan falla í hljóðprufu
fyrir útvarpsávarp sem hann flutti
í kalda stríðinu miðju 1984.
CBS News og Cable News Net-
work tóku skensið upp en útvörp-
uðu því ekki, samkvæmt samkomu-
lagi við Hvíta húsið. Orðrómur um
„ræðu“ forsetans kvisaðist þó fljótt
út og skömmu síðar höfðu einhverjir
fjölmiðlar haft þessi orð Reagans
eftir honum á prenti. Talsmaður
Hvíta hússins neitaði þó að tjá sig
um eitthvert „off the record“ dót. n
Meðal fífla og
dóna fyrir framan
míkrófóna
Hey, Joe! Passaðu þig á hljóðnemanum. Hann er í gangi! FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY
„Kæru landar, við byrjum að
sprengja eftir fimm mínútur.“
FRÉTTABLAÐIÐ/AFP
Stjórnmálaleiðtogarnir allir komnir á sinn stað.
Geir H. Haarde á blaðamannafundinum...
Obama gerði grín að Kanye. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY
Ingólfur Bjarni með hugann við handbolta. SKJÁSKOT/RÚV/YOUTUBE
Fjarviðtalið endaði í rugli. SKJÁSKOT/YOUTUBE
Kanye West
sárnaði.
... og Helgi líka.
42 Lífið 29. janúar 2022 LAUGARDAGURFRÉTTABLAÐIÐLÍFIÐ 29. janúar 2022 LAUGARDAGUR