Bændablaðið - 23.06.2022, Side 32
32 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. júní 2022
Sveitarfélög og stjórnmál:
Nýir sveitarstjórar kringum landið
Niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna urðu til þess að mörg sveitar-
félög eru í þann mund að bjóða nýtt fólk velkomið í brúna.
Allnokkur sveitarfélög hafa ákveðið að fá inn fagráðinn sveitarstjóra og
hafa mörg þeirra auglýst eftir slíkum, þar á meðal Dalabyggð, Fjallabyggð,
Grímsnes- og Grafningshreppur, Húnabyggð, Hveragerðisbær, Mosfellsbær,
Norðurþing, Rangárþing ytra, Svalbarðsströnd og Sveitarfélagið Vogar.
Nokkrir nýir sveitar- og bæjarstjórar hafa þegar verið kynntir sem munu
taka til starfa á árinu. Bændablaðið hleraði fjóra þeirra. /ghp
Arna Lára Jónsdóttir:
Íbúum fjölgar aftur
– Ísafjarðarbær
Arna Lára Jónsdóttir tók
til starfa sem bæjarstjóri
Ísafjarðarbæjar í byrjun
mánaðarins.
Áður gegndi Birgir Gunnarsson
starfinu. Arna hefur verið bæjar-
fulltrúi síðan árið 2006. Hennar
fyrsta verk í starfi var að taka á
móti forsetahjónunum sem komu
í sína fyrstu opinberu heimsókn til
Ísafjarðarbæjar.
„Ég hefði ekki getað valið
mér betra upphaf. Þetta er mikill
heiður fyrir mig að fá að sinna
þessu ábyrgðarmikla starfi í
umboði bæjarbúa. Þetta er í senn
spennandi og krefjandi en ég er
full tilhlökkunar fyrir starfinu.
Það er mikil uppbygging fram
undan í Ísafjarðarbæ og íbúum
farið að fjölga aftur. Það kallar á
að skipulagsmálin verði ofarlega á
blaði. Finna þarf lóðir og undirbúa
byggingu nýs íbúðarhúsnæðis, en
mikil þörf er á slíku. Við þurfum
fleira fólk hingað vestur, þar sem
atvinnulífið er í miklum vexti.
Sveitarfélagið þarf að styðja
við og liðka til við hinar ýmsu
framkvæmdir sem einstaklingar
og fyrirtæki eru að ráðast í. Það
liggur einnig fyrir að við þurfum
að huga að fleiri leikskólaplássum
og svo er farið að þrengja að
grunnskólanum á Ísafirði.
Við erum að klára lengingu á
Sundabakka og þar skapast
mikil tækifæri fyrir höfnina og
hafnartengda starfsemi. Þannig
það eru bjartir tímar í Ísafjarðarbæ
og mikið undir að við spilum vel
úr þeim aðstæðum sem hér eru
fyrir hendi.
Helstu styrkleikar sveitar-
félagsins liggja í samfélaginu og
í fólkinu sem hér býr. Það er mikil
gróska, drifkraftur og seigla sem
einkennir þetta samfélag. Gjöful
fiskimið og falleg náttúra skapa
okkur eftirsóknarverða sérstöðu.
H e l s t u á s k o r a n i r
Ísafjarðarbæjar og annarra
sveitarfélaga á Vestfjörðum er
að verulega skortir upp á að ríkið
hafi sinnt skyldu sinni við að
byggja upp innviði samfélagsins.
Hér vísa ég í raforkuöryggi sem
er ófullnægjandi og samgöngur
eru ekki boðlegar samfélagi á
21. öldinni. Það vantar nokkur
jarðgöng og almennilega vegi sem
uppfylla nútímakröfur svo fólk
komist öruggt á milli byggðarlaga,
auk þess sem við þurfum að koma
afurðum okkar á markað.
Ísafjarðarbær er í mikilli þörf
fyrir auknar tekjur til að standa
undir þeim vexti sem er fram
undan og við horfum til þess að fá
stærri hluta af auðlindagjöldum af
fiskeldi til sveitarfélagsins,“ segir
Arna Lára.
Ísafjarðarbær varð til 1.
júní 1996 þegar Ísafjörður,
Flateyri, Suðureyri og Þingeyri
sameinuðust, en áður hafði
Hnífsdalur sameinast Ísafirði.
Stærð sveitafélagsins er 2.379
ferkílómetrar. Íbúafjöldinn er 3.840
manns. Atvinnulíf á Vestfjörðum
byggir á frumframleiðslugreinum
og þá fyrst og fremst á sjávarútvegi,
en það er sú grein sem skilar mestu
tekjum á svæðinu. Fiskeldi er sú
atvinnugrein sem vex hraðast á í
sveitarfélaginu.
Einar Freyr Elínarson:
Húsnæðisuppbygging
fram undan
– Mýrdalshreppur
Einar Freyr Elínarson tekur við
af Þorbjörgu Gísladóttur eftir
sigur B-lista Framsóknar og
óháðra í hreppnum.
„Ég er ótrúlega spenntur
fyrir starfinu og þakklátur fyrir
stuðninginn sem við hlutum í
kosningunum. Það eru mikil
forréttindi að fá tækifæri til þess að
gera að aðalstarfi það sem maður
virkilega brennur fyrir, sem er að
byggja upp samfélagið. Mitt fyrsta
verk sem sveitarstjóri verður að
hefjast handa við undirbúning
fjárhagsáætlunar næsta árs
sem tekur mið af stefnumálum
okkar. Við ætlum að ráðast í
mikla húsnæðisuppbyggingu,
uppbyggingu á skólasvæðinu
og koma upp glæsilegri
líkamsræktaraðstöðu. Það krefst
þess að vandað sé til verka við
áætlanagerð. Við ætlum að
sjá til þess að ríkið standi við
gefin loforð um uppbyggingu
í heilbrigðisþjónustu og vinna
að auknu samstarfi við ríkið
um uppbyggingu innviða í
ferðaþjónustu.
Okkar helstu styrkleikar
liggja í ótrúlegri náttúrufegurð,
sem er ástæða þess að við fáum
til okkar þennan mikla fjölda af
ferðamönnum. Það væri þó ekki
raunin ef við værum ekki svo
heppin að hér býr dugmikið fólk
sem hefur byggt upp glæsileg
fyrirtæki og margir sem hyggja á
enn meiri uppbyggingu.
Helstu áskoranirnar eru þær
að gríðarleg fólksfjölgun hefur
myndað mikinn þrýsting á
húsnæðismarkaði. Erfitt er að
finna íbúðarhúsnæði og nær ekkert
framboð er af leiguhúsnæði á
almennum markaði. Það jákvæða
er þó það að margir sjá sér hag í
því að byggja og ég er bjartsýnn
á að við munum sjá markaðinn
þróast í jákvæða átt á næstu
árum. Mikil fjölgun hefur orðið
í hópi erlendra íbúa sem margir
hafa kosið að skjóta hér rótum.
Við höfum unnið að því að virkja
erlenda íbúa betur og ákváðum
m.a. að setja á fót enskumælandi
ráð á vegum sveitarfélagsins til
þess að skoðanir allra íbúa fengju
hljómgrunn,“ segir Einar Freyr.
Mýrdalshreppur er 755 fer-
kílómetrar að stærð, sem er fremur
landlítið sveitarfélag, miðað við
mörg önnur á Suðurlandinu að
sögn Einars. Íbúar eru nú um 840
manns og því fer nærri að hann
hafi tvöfaldast á 10 árum. Flestir
starfa við ferðaþjónustu.
Arna Lára Jónsdóttir.
Einar Freyr Elínarson.
Sigurjón Andrésson:
Kraftur og sjálfsbjargarviðleitni
– Sveitarfélagið Hornafjörður
Sigurjón Andrésson hefur
verið ráðinn bæjarstjóri
Sveitarfélagsins Hornafjarðar
og hefur störf þann 1. júlí nk.
Hann hefur starfað sem
ráðgjafi og verkefnastjóri hjá
Sveitarfélaginu Ölfusi.
„Eins og gefur að skilja stend ég
auðmjúkur frammi fyrir því trausti
sem mér er sýnt með því að vera
ráðinn í þetta starf. Ég hlakka til að
flytja á Höfn og starfið leggst mjög
vel í mig. Ég er geysilega spenntur
fyrir nýjum áskorunum. Það eru
metnaðarfull markmið sem koma
fram í nýjum málefnasamningi og
ég veit að það eru mikil tækifæri
fram undan hjá sveitarfélaginu.
Fyrir utan það að kynnast
nýjum vinnustað, rekstrinum
og samfélaginu betur, þá
munum við fara strax í að brjóta
nýjan málefnasamning upp og
forgangsraða verkefnum. Það
verður mikilvægt að gera hlutina
í réttri röð á næstu misserum og á
hraða sem sveitarfélagið ræður við.
Það er af nægu að taka hvað
varðar stór og mikilvæg verkefni
hjá okkur á næstu misserum.
Eitt af þeim verkefnum er að
taka á móti höfuðstöðvum
Vatnajökulsþjóðgarðs til Horna-
fjarðar. Flutningurinn er rökrétt
og góð ákvörðun hjá núverandi
stjórnvöldum og skiptir okkur sem
búum og störfum í mestu nábýli
við jökulinn miklu máli.
Styrkleikar sveitarfélagsins
Hornafjarðar eru íbúarnir.
Samfélagið einkennist af krafti og
sjálfsbjargarviðleitni. Fólk hefur
alla tíð þurft að bjarga sér sjálft og
það býr í fólki mikið frumkvæði til
einmitt þess. Öflugt atvinnulíf til
sjávar og sveita ásamt blómlegu
mannlífi hefur ekki komið að sjálfu
sér og við horfum björtum augum
til framtíðar og þeirra verkefna
sem bíða okkar.
Okkar áskoranir felast meðal
annars í að styrkja innviði og efla
grunnþjónustu sveitarfélagsins.
Við viljum eiga lifandi samtal
við íbúa og munum stórefla
upplýsingagjöf til þeirra. Við
ætlum að vaxa og dafna, en á
sama tíma tryggja að reksturinn
standi undir sér og sé áfram
ábyrgur.
Að okkar mati þarf einnig að
skilgreina betur hver ber ábyrgð
af kostnaði sem stefnumarkandi
ákvarðanir ríkisins hafa haft í för
með sér á fjárhag sveitarfélaga.
Okkur er sniðinn mun þrengri
stakkur í öflun tekna en ríkinu
og samtal um þetta mun
verða fyrirferðarmikið hjá
sveitarfélögunum á næstu árum
að okkar mati,“ segir Sigurjón.
Sveitarfélagið nær frá
Skeiðarársandi í vestri að
Hvalnesskriðum í austri og
þar búa um 2.500 manns.
Höfn í Hornafirði er eini
þéttbýliskjarninn. Í sveitarfélaginu
er fjölbreytt atvinnulíf en
undirstöðuatvinnugreinarnar eru
sjávarútvegur, ferðaþjónusta og
landbúnaður.
Sigurjón Andrésson.
FRÉTTIR